Mánudagur 29. apríl, 2024
8.7 C
Reykjavik

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair: Lykilatriði að missa ekki sjónar á því sem við gerum best

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Icelandair er 85 ára.

„Við fögnuðum á föstudaginn með starfsfólki okkar á öllum starfsstöðvum, bæði hér heima og erlendis, og svo að sjálfsögðu með viðskiptavinum okkar. Allir farþegar sem flugu með félaginu á afmælisdaginn fengu 1937 vildarpunkta að gjöf,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair.

„Við þessi tímamót er gaman að rifja upp söguna á sama tíma og við horfum fram á veginn. Við höfum haldið merkjum Íslands á lofti um allan heim í áratugi en félagið á rætur sínar að rekja til stofnunar Flugfélags Akureyrar þann 3. júní 1937. Nafni félagsins var síðar breytt í Flugfélag Íslands sem seinna sameinaðist öðru mögnuðu flugfélagi sem var stofnað hér á landi árið 1944, Loftleiðum. Það voru miklir frumkvöðlar í fararbroddi á fyrstu dögum og árum flugsins og það má segja að þessi mikla ástríða fyrir fluginu, kraftur og frumkvöðlaandi hafi einkennt félagið æ síðan og gerir enn.

Með þessu höfum við lagt mikið af mörkum til íslensks samfélags og efnahags.

Svo hófst mikið tímabil uppbyggingar þar sem leiðakerfi okkar milli Evrópu og Norður-Ameríku með Ísland sem heimahöfn var fest í sessi. Það er hjartað í starfsemi okkar og grundvöllur öflugra tenginga til, frá, um og innan Íslands. Það er jafnframt forsenda þess að við gátum byggt upp öfluga ferðaþjónustu hér á landi allan ársins hring. Þar vorum við í fararbroddi og fjárfestum bæði í innviðum og nýsköpun sem og byggðum upp hágæða hótel um allt land. Með þessu höfum við lagt mikið af mörkum til íslensks samfélags og efnahags. Við erum á fleygiferð inn í framtíðina og ætlum svo sannarlega að láta til okkar taka í framtíðarþróun flugsins næstu 85 árin.“

Bogi Nils Bogason

Fagna allri samkeppni

- Auglýsing -

Samkeppnin er mikil og starfar Icelandair í miklu samkeppnisumhverfi.

„Hingað til Íslands fljúga um 25 flugfélög yfir sumartímann og um 15 yfir vetrartímann. Þá erum við í samkeppni við helstu flugfélög á Vesturlöndum í flugi yfir Atlantshafið milli Evrópu og Norður-Ameríku. Við fögnum að sjálfsögðu allri samkeppni hvort sem hún er innlend eða alþjóðleg. Lykilatriðið er að missa ekki sjónar á því sem við gerum best og einblína á að standa okkur gagnvart viðskiptavinum okkar og veita framúrskarandi þjónustu.“

Heimsfaraldurinn hafið mikil áhrif á mörg fyrirtæki og þar á meðal Icelandair.

Farþegafjöldinn snarminnkaði á skömmum tíma.

- Auglýsing -

„Þær samkomu- og ferðatakmarkanir sem settar voru á í flestum löndum heimsins höfðu auðvitað mjög mikil áhrif á öll flugfélög. Farþegafjöldinn snarminnkaði á skömmum tíma og við héldum einungis út lágmarksstarfsemi til að tryggja tengingu landsins við umheiminn. Þess má þó geta að eftirspurn eftir vöruflutningum var alltaf mikil og við fluttum meðal annars lækningavörur til Íslands og annarra landa. Við höfum gengið í gegnum ýmislegt á þessum 85 árum sem félagið hefur verið starfandi, bæði mikinn uppgang en einnig niðursveiflur. Hins vegar hefur það verið þannig í sögulegu samhengi að flugið hefur alltaf náð sér á strik á ný eftir tímabundnar niðursveiflur. Nú erum við í mikilli sókn og þannig hefur flugframboðið okkar aukist jafnt og þétt frá síðasta sumri. Við fljúgum til 44 áfangastaða í Evrópu og Norður Ameríku í sumar auk áfangastaða okkar hér innanlands. Þá höfum við þétt raðirnar á ný í takt við aukin umsvif og ráðið inn 1.200 starfsmenn á undanförnum mánuðum og erum við þá 3.600 talsins. Það hefur verið mjög ánægjulegt að taka aftur á móti samstarfsfólki okkar til starfa og einnig nýju fólki sem við hlökkum til að starfa með.“

Bogi Nils Bogason

Aukin sjálfbærni

Hver eru sóknarfæri Icelandair – tækifæri – en líka hindranir?

„Við sjáum mikil tækifæri í leiðakerfi félagsins sem er kjarninn í starfsemi okkar. Það gerir okkur kleift að bjóða öflugar tengingar til, frá, um og innan Íslands. Þá sjáum við einnig mikil tækifæri í fraktflutningum en það er einnig mikilvægur hluti af starfsemi okkar; til dæmis að flytja ferskan fisk hratt og örugglega á fjölbreytta markaði beggja vegna Atlantshafsins. Við erum sveigjanleg og tökum ákvarðanir hratt og getum þannig gripið tækifæri sem gefast í því síbreytilega umhverfi sem við störfum í. Það er jafnframt áskorun að starfa í slíku umhverfi þar sem ýmsir utanaðkomandi þættir og oft óviðbúnir geta haft áhrif á starfsemi okkar svo sem veðurfar, heimsfaraldur eins og við höfum nýlega gengið í gegnum og svo til dæmis hækkun eldsneytisverðs sem við stöndum frammi fyrir í dag. Þess vegna er sveigjanleikinn svo mikilvægur og að vera ávallt á tánum.

Ný tækifæri fyrir Ísland sem miðstöð umhverfisvæns flugs á Norður-Atlantshafi.

Til viðbótar þá tel ég að mikil sóknarfæri felist í því að vinna að aukinni sjálfbærni í flugi. Við höfum sett okkur metnaðarfull markmið á þessu sviði og erum þegar að taka mikilvæg skref í þá átt til dæmis með endurnýjun flotans hjá okkur í sparneytnari og þar með umhverfisvænni vélar. Þetta er spennandi vegferð og við trúum því að með orkuskiptum í flugi skapist ný tækifæri fyrir Ísland sem miðstöð umhverfisvæns flugs á Norður-Atlantshafi.“

Mikil ferðatíðni

Icelandair flýgur í sumar til 44 áfangastaða, 30 í Evrópu og 14 í Norður-Ameríku. „Við höfum hafið flug á ný til fjölmargra áfangastaða sem voru í dvala í heimsfaraldrinum en einnig kynnum við til sögunnar þrjá nýja áfangastaði, Raleigh-Durham í Norður-Karólínu, Róm og Nice. Við hófum flug til Raleigh-Durham í maí en Róm og Nice bætast við leiðakerfið í júlí. Þetta eru spennandi áfangastaðir og viðtökur hafa verið mjög góðar. Það er sérlega mikil spenna í kringum Raleigh-Durham en fyrir eru litlar tengingar frá Norður-Karólínu til Evrópu og hefur þessi nýja flugleið því einfaldað ferðalag fjölda íbúa svæðisins bæði til Íslands og áfram til 25 áfangastaða okkar í Evrópu. Við erum jafnframt að bjóða upp á mjög mikla ferðatíðni á helstu áfangastaði okkar. Þar má nefna allt að fimm flug á dag til Kaupmannahafnar, þrjú flug á dag til Boston, New York og Parísar og tvö á dag til London, Óslóar, Stokkhólms og Amsterdam. Þannig bjóðum við viðskiptavinum okkar mikinn sveigjanleika í ferðatíma innan dagsins til þessara vinsælu áfangastaða.“

85 ára félagið er að langstærstum hluta í eigu íslenskra aðila eða ríflega 80%. „Stærsti erlendi hluthafi félagsins er Bain Capital sem fer með tæplega 15% hlut í félaginu. Innkoma þeirra fyrir ári síðan var mjög mikilvæg en hún jók fjárhagslegt bolmagn félagsins á krefjandi tímum á flugmörkuðum. Þá er mikill akkur í því að fá inn erlenda fjárfesta sem hafa mikla þekkingu á viðfangsefninu eins og í tilfelli Bain Capital sem sérhæfir sig meðal annars í fjárfestingum í flugi og ferðaþjónustu og koma því með mikilvæga reynslu og þekkingu að borðinu.“

Bogi Nils Bogason

Skotland í uppáhaldi

Bogi Nils hóf störf hjá Icelandair sem framkvæmdastjóri fjármála árið 2008 og tók svo við starfi forstjóra í ágúst 2018. „Það sem ég hef haft að leiðarljósi í gegnum störf mín er að þetta snýst allt um fólk. Án frábærs starfsfólks og viðskiptavina væri lítið um að vera hjá Icelandair. Áherslur mínar felast því í því að velja rétta teymið með mér og treysta því til góðra verka. Og það sem stendur upp úr er fólkið sem ég hef starfað með. Icelandair-andinn er einstakur og fólk tilbúið að leggja mikið á sig til að finna lausnir í öllum málum, fyrst og fremst til að stuðla að ánægjulegu og þægilegu ferðalagi fyrir viðskiptavini okkar.“

Áður en Bogi Nils hóf störf hjá Icelandair starfaði hann sem framkvæmdastjóri fjármála hjá Askar Capital frá árinu 2007 og framkvæmdastjóri fjármála hjá Icelandic Group frá 2004 til 2006. „Fyrir þann tíma var ég meðeigandi og endurskoðandi hjá KPMG frá 1993 til ársins 2004. Ég er viðskiptafræðingur að mennt frá Háskóla Ísland og löggiltur endurskoðandi.“

Þá nota ég frístundir mínar talsvert í að spila golf.

Hver er uppáhaldsstaður forstjóra Icelandair erlendis?

„Ég segi alltaf að minn uppáhalds áfangastaður sé sá staður sem ég er hverju sinni. Ef ég ætti að nefna tiltekinn stað þá nota ég frístundir mínar talsvert í að spila golf og er svo heppinn að konan mín hefur mjög gaman af því líka. Skotland er í miklu uppáhaldi hjá okkur enda frábær áfangastaður fyrir kylfinga. Þó veðrið geti verið upp og niður þá er golfmenningin svo skemmtileg þar og golfvellirnir frábærir.“

Bogi Nils Bogason

 

Þá verða vandamálin léttvæg

Bogi Nils segist eiga frábæra foreldra sem hafi verið miklar fyrirmyndir og hvatt hann áfram.

Hef alltaf unnið mikið, kannski allt of mikið.

„Ég byrjaði ungur að vinna í fiski og fleiru á Eskifirði og hef alltaf unnið mikið, kannski allt of mikið, þannig að vinnan hefur mótað mig talsvert. Í gegnum tíðina hef ég kynnst mörgum í gegnum nám, störf og áhugamál. Maður reynir að tileinka sér það jákvæða sem maður sér í fari annarra og finnst til eftirbreytni og líka að forðast það neikvæða. Ég á jafnframt frábæra fjölskyldu og konan mín, Björk Unnarsdóttir, er hjúkrunarfræðingur og hefur lengi starfað við umönnun fólks sem glímir við krabbamein. Þegar maður hugsar um hvað skjólstæðingar hennar eru að fást við þá verða vandamálin og verkefnin sem ég er að fást við í vinnunni mjög léttvæg. Það er því mjög mikilvægt að setja hlutina reglulega í samhengi og reyna að átta sig á hvað skiptir máli í lífinu.“ Hjónin eiga þrjú börn.

Hvað með áhugamál forstjórans? „Ég hef alla tíð haft mikinn áhuga á íþróttum og lék til dæmis knattspyrnu með Austra Eskifirði og hef stundað skíði og golf frá því ég var barn. Þá er ég með fjölmörg áhugamál fyrir utan íþróttirnar en allt snýst þetta um tíma.“

 

Jú, hann er forstjóri Icelandair sem flytur fólk á milli landa og heimsálfa. Sér hann heiminn með öðrum augum en ella þar sem hann er í starfi hjá félagi sem tengir lönd heimsins?

„Ég sé að minnsta kosti mjög vel hversu mikilvægar þær tengingar sem við stuðlum að eru fyrir Ísland, bæði hvað varðar farþega- og fraktflutninga. Það er í raun ótrúlegt hversu sterkt leiðakerfi Icelandair er hafandi í huga hversu heimamarkaðurinn er lítill. Fjöldi áfangastaða og tíðni er eins og um milljóna markað væri að ræða. Svona öflugar tengingar eru mjög mikil vítamínssprauta fyrir viðskiptalífið og hagkerfið í heild sinni svo ekki sé minnst á menningarleg samskipti.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -