Þriðjudagur 30. apríl, 2024
4.1 C
Reykjavik

Næturkuldinn í Paradís er erfiður: „Ekki er mikinn yl að fá frá ljósaperunum“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -
Anna Kristjánsdóttir kvartar yfir kulda í nýjustu dagbókarfærslu sinni á Facebook en lofar að vorið sé á næsta leyti.

Hin bráðfyndna og skemmtilega kaldhæðna Anna Kristjánsdóttir býr á Tenerife, eða Paradís eins og hún kallar spænsku eyjuna gjarnan. Þangað flutti hún fyrir nokkrum árum og hefur haldið úti opinni dagbók á Facebook síðan. Eru færslur hennar oftar en ekki löðrandi í húmor og sú nýjasta ekki ekki laus við það, þvert á móti.

Í færslunni kvartar hún meðal annars undan næturkulda í Paradís og segir Íslendinga heppna með hitaveituna. Þá talar hún einnig um leit hennar og vina að „dularfullum vírus“ fyrir þremur árum og á þá um Corona-vírusinn. Færsluna má lesa í heild sinni hér fyrir neðan:

„Dagur 1268 – Senn vorar í Paradís.

Ég var víst búin að lofa því að vorið væri á næsta leyti, þó ekki alveg strax en kannski á morgun. Það er eitthvað að byrja að hlýna því hitinn var einni gráðu meira í gær en í fyrradag og stefnir í örlítið hærra hitastig.
Fólki á Íslandi getur fundist þetta vera óttalegt kuldaskræfutal, en þegar haft er í huga að hér er engin hitaveita, munar um sérhverja gráðu. Þannig er hitastigið innandyra vart meira en 15-16°C á nóttunni, jafnvel enn lægra. Ég heyrði af einum sem reyndi að ylja sér við bakaraofninn í eldhúsinu hjá sér, setti hann á 150 eða 200 gráður og ofninn opinn til að fá smáyl í íbúðina sína. Ekki er mikinn yl að fá frá ljósaperunum sem flestar eru orðnar led svo ekki talað um tölvurnar né sjónvarpið.
Íslendingar voru heppnir. Fyrsta stóriðjan á Íslandi var hitaveitan, Hitaveita Reykjavíkur er búin að vera Reykvíkingum slík gullnáma að helst ber að benda á olíuforða Norðmanna til jafnaðar við hana sem og aðrar hitaveitur á Íslandi. Ég þekki það af reynslunni.
Hér suður í höfum eru það ullarsokkarnir, vaðmálspilsið og flíspeysan sem bjarga heilsunni þessa dagana.
—–
Það voru leikir í bikarkeppninni í gærkvöldi og í gamla bjórbikarnum sem nú er kennd við Izusu jeppa áttu hetjurnar okkar leik á útivelli í fjórðu umferð gegn einhverjum Harrows, liði sem er á botninum í sjöundu leið og stefnir hraðbyri niður í áttundu deild. Maður hefði haldið að hetjurnar færu létt með slíkt lið, en ónei. Vissulega voru þær á undan að skora, en botnliðið svaraði fljótt fyrir sig. Eftir 2-2 jafntefli var vítaspyrnukeppni þar sem hetjurnar okkar mörðu sigur með 6-5. Með sama áframhaldi enda þær á sama plani og Fótboltafélag Grútartjarnarhrepps sem féll úr hinni bikarkeppninni á dögunum.
—–
Nú eru liðin þrjú ár síðan við héldum til La Gomera í leit okkar að dularfullum vírus sem við höfðum heyrt af og fannst daginn áður á eyjunni og þá í fyrsta sinn á spænsku landssvæði. Þrátt fyrir mikla leit undir stjórn hins frábæra fararstjóra José Angel fundum við engan vírus, fórum vonsvikin heim og fengum okkur Coronabjór á barnum. Síðar þótti umrædd veira vera farin að eyðileggja svo álit Coronabjórsins að rætt var um það í alvöru að breyta nafni bjórsins í Ebola Special. Það varð sem betur ekkert af slíku.
Merkilegt að núna þremur árum síðar erum við öll sem fórum þessa ferð stödd hér í Paradís, Inga sem býr hér eins og ég, Hannes og Halldór sem báðir eru gestkomandi á eyjunni þessa dagana.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -