Þriðjudagur 30. apríl, 2024
6.1 C
Reykjavik

Lýsa sorglegu ofbeldi og niðurbroti á meðferðarheimilinu Laugalandi: „Ég var komin í helvíti“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Ég kom þaðan mölbrotin,“ segir Teresa Dröfn Freysdóttir Njarðvík um vist sín á meðferðarheimilinu Laugalandi á unga aldri. Líkt og Mannlíf greindi fyrst frá hefur stór hópur kvenna tekið höndum saman og stigið fram með ofbeldissögur gegn þeim meðan þær dvöldu ungar á meðferðarheimilinu að Laugalandi í Eyjafirði. Heimilinu var lokað um áramót og konurnar fara nú fram á raddir þeirra séu teknar alvarlega af yfirvöldum. Konurnar lýsa erfiðri og sársaukafullri dvöl og telja að frásögnum þeirra hafi verið sópað undir teppi af hálfu barnaverndaryfirvalda fram til þessa.

Stundin tók svo undir umfjöllum Mannlífs með ítarlegum hætti þar sem sex konur úr hópnum stigu fram með sögur sínar sem snúa að meintu ofbeldi þáverandi forstöðumanns meðferðarheimilisins, Ingjaldi Arnþórssyni. Sjálfur þvertekur hann fyrir ásakanir hinna mörgu kvenna. Fyrir helgi stigu aðrar tvær fram í samtali við Mannlíf og þar að auki eru þrjár konur sem vegna sára sinna hafa ekki enn treyst sér til að stíga fram undir nafni. Kvennahópurinn samanstendur því að rúmum tug kvenna sem allar hafa svipaða ofbeldissögu að segja.

Ábendingar um ofbeldið bárust þegar árið 2000 en Barnaverndarstofa taldi þá ekkert hafa átt sér stað og ekkert var aðhafst. Heiða Björg Pálma­dótt­ir, for­stjóri Barna­vernd­ar­stofu, segist í dag tilbúin til að hlusta á sögu allra kvennanna í hópnum sem nú hafa stigið hetjulega fram. Hún fullyrti í samtali við Stundina að farið verði yfir starfsemi meðferðarheimilisins að Laugalandi á því tímabili sem konurnar vitna til um meint ofbeldi og harðræði, á árunum 1997-2007.

Teresa Dröfn Freysdóttir Njarðvík lýsir vistinni að Laugarlandi með eftirfarandi hætti: „En ég var varla komin inn úr dyrunum á Laugalandi þegar ofbeldið byrjaði. Tónninn var
mjög skýr og sleginn á fyrsta degi. Ekkert varð aftur eins. Ég kom þaðan mölbrotin. Ég hef aldrei náð aftur almennilegu sambandi við fjölskyldu mína, aldrei náð aftur sjálfstrausti eftir allt niðurrifið þar og get ómögulega treyst fólki, hvort sem það er venjulegt fólk eða aðilar sem eiga að hjálpa,“ sagði Teresa í samtali við Stundina og bætti við:

„Ég vil að barnaverndarnefndirnar viðurkenni að starfsfólk þeirra hafi ekki
fylgst nógu vel með meðferðarheimilinu og í raun þaggað niður það sem þar gekk á. Ég vil almenna viðurkenningu og afsökunarbeiðni. Ég er enn að glíma við afleiðingar þess að hafa lent á þessu heimili og ég var í mörg ár að vinna mig upp úr verstu vanlíðaninni. Ég þjáist af áfallastreituröskun og vistin á Laugalandi á stóran þátt í henni. Ég fæ enn martraðir sem snúast um að ég sé læst þarna inni gegn vilja mínum.“

Brynja Skúladóttir er ein þeirra sem var vistuð á Laugalandi en hún var fjórtán ára gömul þegar hún var vistuð á meðferðarheimilnu. Hún fann strax að þar var engin meðferð í gangi heldur eingöngu boðið upp á niðurbrot þeirra skjólstæðinga sem á heimilinu voru. „Ég var ekki neikvæð þegar mér var sagt að ég yrði send þangað. Líf mitt hafði verið mjög erfitt. Þannig að þegar mér var sagt að ég færi á meðferðarheimili úti á landi var mér létt því ég hélt að ég væri að fá þá aðstoð sem ég þurfti á þessum tíma. Ég áttaði mig á því fyrsta daginn að þarna var ekki verið að bjóða upp á meðferð heldur niðurbrot. Fyrstu dagarnir voru skelfilegir og niðurbrotið hófst strax,“ sagði Brynja í samtali við Stundina.

- Auglýsing -
Meðferðarheimilinu að Laugarlandi var lokað um áramótin. Sú lokun tengist þó ekki ásökunum kvennanna gagnvart Ingjaldi enda var heimilið nú síðast undir annarra stjórn. Mynd / Skjáskot RÚV.

Nokkrum mánuðum eftir að Brynja kom á meðferðarheimllið kom Gígja, tvíburasystir hennar, þangað líka. „Frá fyrsta degi áttaði ég mig á að þetta var staður þar sem ofríki forstöðumannsins var algjört, þar sem ég var algjörlega valdalaus. Ingjaldur lagði sig allan fram við að berja úr mér allan mótþróa og uppreisn. Ég veit núna að þetta var útpælt ofbeldi. Sú minning er þó sterkust þegar ég var 14 eða 15 ára gömul og þráði ekkert meira en að deyja. Ég bað Guð á hverju kvöldi að leyfa mér að sofna og vakna ekki aftur. Ég óttaðist mest að þurfa að vera þarna til 18 ára aldurs“ sagði Gígja í samtali við Stundina.

Harpa Dögg Sævarsdóttir, ein kvennanna, á fund með Ásmundi Daða Einarssyni, barna- og félagsmálaráðherra, þar sem hún krefst rannsóknarnefndar á vegum þingsins þar sem kafað verði ofan í kjölinn á starfsemi heimilisins. Aðrar í hópnum hafa þó ekki verið með í ráðum við skipulagningu þess fundar. „Við erum einfaldlega að biðja um hjálp. Við viljum skila skömminni og fá það viðurkennt hvernig var komið fram við okkur. Fá afsökunarbeiðni og að fólkið þurfi að svara fyrir hvað það gerði. Þá vonumst við til að komið verði á betra eftirliti með svona heimilum og að hlustað verði á skjólstæðinga sem koma fram með marbletti, áverkavottorð og sjúkraskýrslur. Vonandi getum við fengið ríkisstjórnina með okkur í lið,“ segir Harpa Dögg í samtali við Mannlíf.

Kolbrún Þorsteinssdóttir lýsir einnig erfiðri og sársaukafulltri dvöl á meðferðarheimilinu. „Ég man mjög vel eftir fyrsta deginum mínum þarna. Mér fannst stemningin á staðnum mjög skrítin. Þetta var upphafið að versta tímabili lífs míns sem litaðist af ótta, niðurlægingu og algerri undirgefni. Ég var hrædd hvern einasta dag meðan ég var þarna, upplifði mikið vonleysi. Vanlíðanin var mér næstum um megn,“ segir Kolbrún og heldur áfram:

- Auglýsing -

„Ég er búin að vera að reyna að safna kjarki í mörg ár til að stíga fram og segja frá því sem ég upplifði á meðferðarheimilunum Varpholti og Laugalandi þegar ég var unglingur. Ég vissi alltaf að ég þyrfti að segja frá því sem gerðist.“

Harpa Særós Magnúsdóttir dvaldi líka á Laugalandi. „Ég átti ekki von á öðru en þetta væri góður staður. Aldrei grunaði mig það sem var í vændum. Að mig myndi langa að jörð gleypti mig. Ég var komin í helvíti. Ég var bara barn,“ segir Harpa Særós Magnúsdóttir í samtali við Mannlíf.

Dagný Rut Magnúsdóttir vonar að barnaverndaryfirvöld hlusti núna á frásagnir þeirra kvenna sem voru vistaðar að Laugalandi. „Það er frelsi í því að skila skömminni af því að ég er búin að sitja ein með þessa vanlíðan alla tíð. Ég var bara barn og átti þetta ekki skilið. Orð lýsa því ekki nógu vel hvernig mér leið þarna. Þetta var hræðilegur tími,“ sagði Dagný Rut í samtali við Stundina.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -