2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Ekki hægt að hafna hlutverki í Tarantino-mynd

Nýjasta kvikmynd Quentins Tarantino, Once Upon a Time in Hollywood, er komin í bíó. Glöggir Íslendingar sem hafa séð myndina hafa eflaust margir tekið eftir að förðunarmeistarinn Heba Þórisdóttir fer með hlutverk í myndinni í atriði á móti Leonardo DiCaprio.

 

Heba, sem sér um förðunina í kvikmyndinni ásamt því að fara með hlutverk förðunarfræðingsins Sonyu, segir að þegar Quentin Tarantino biðji mann um að fara með hlutverk í kvikmyndinni sinni þá sé ekki hægt að hafna því.

„Þetta er nú mjög lítið hlutverk, en þó stærra en hlutverk leikarans sem leikur sjálfan Roman Polanski,“ segir Heba og hlær þegar hún er spurð út í hlutverk sitt í Once Upon a Time in Hollywood.

Brad Pitt, Leonardo DiCaprio og Al Pacino eru meðal þeirra sem fara með hlutverk í myndinni.

AUGLÝSING


Aðspurð hvernig það kom til að hún landaði hlutverki í myndinni segir Heba: „Í undirbúningsvinnu fyrir kvikmyndir sínar heldur Quentin reglulega bíósýningar fyrir fólkið sem vinnur að gerð myndarinnar. Þá sýnir hann þær kvikmyndir sem veita honum innblástur. Í þetta sinn horfðum við á margar myndir sem eru skotnar í Los Angeles á árunum 1968 til 1972. Eftir eina sýninguna kom hann upp að mér og sagði: „Heba, ég vil að þú farir með smáhlutverk í myndinni.“ Það er nú ekki beint mín deild að vera fyrir framan myndavélina en þegar Quentin Tarantino býður þér hlutverk þá segir þú bara já,“ útskýrir Heba og skellir upp úr.

Hún viðurkennir að hún hafi fundið fyrir stressi vegna hlutverksins. „Ég var búin að lesa handritið þegar ég þáði hlutverkið fyrst. Svo þegar ég las handritið aftur, nokkru síðar, sá ég að það var búið að breyta hlutverki Sonyu og það orðið stærra. Ég vissi sem sagt ekki að ég væri með línur á móti Leonardo DiCaprio fyrr en tveimur dögum áður en atriðið var tekið upp.“

Heba sér um förðunina í kvikmyndinni ásamt því að fara með hlutverk förðunarfræðingsins Sonyu.

Heba þekkir Leonardo DiCaprio ágætlega þar sem þau hafa unnið saman áður. Hún lýsir honum sem miklum húmorista og segir hann vera skemmtilegan.

„Ég hefði ekki getað þetta án hans. Hann las línurnar yfir með mér og hjálpaði mér að slappa af. Ég er mjög fegin að það var hann sem lék á móti mér í þessari senu,“ segir Heba. „Þegar hann var svo seinna að æfa línur fyrir annað atriði þá kallaði hann á mig og bað mig um að lesa á móti sér og sagði að af því að ég væri nú orðin leikkona þá ætti ég að geta æft þetta með honum. Hann er hrikalega skemmtilegur.“

„Ég vissi sem sagt ekki að ég væri með línur á móti Leonardo DiCaprio fyrr en tveimur dögum áður en atriðið var tekið upp.“

Mikil öryggisgæsla á tökustað

Ásamt Leonardo DiCaprio fer fjöldinn allur af stórleikurum með hlutverk í myndinni. Sem dæmi má nefna Brad Pitt, Margot Robbie, Dakotu Fanning, Luke Perry, Al Pacino, Lenu Dunham og Kurt Russel.

Aðspurð hvernig sé að vera á tökustað með svo mörgum stórleikurum segir Heba: „Það sem einkennir það að vera á vinnustað með svona stórum leikurum er að það er rosalega mikil öryggisgæsla. Sérstaklega í kringum Brad Pitt. Hann getur ekkert farið, maðurinn. Það þurfti til dæmis að byggja stórt tjald í kringum „trailerinn“ hans og hann mætir í stórum bíl með skotheldum rúðum, með bílarófu á eftir sér og öryggisverði. Ég get ekki ímyndað mér að þetta sé skemmtilegt líf,“ segir Heba.

Hún segir að þá sé mikið lagt upp úr því að ljósmyndum af búningum og leikmunum úr myndinni sé ekki lekið á Netið. „Þetta hefur breyst mikið með tilkomu samfélagsmiðla. Búningar og förðun geta gefið svo mikið til kynna um bíómyndir og þess vegna er ekki gott ef ljósmyndir af leikurum í búningum birtast á Netinu áður en kvikmyndir koma út.“

Margot Robbie leikur Sharon Tate í Once Upon a Time in Hollywood.

Sharon Tate með í anda

Sögusvið Once Upon a Time in Hollywood er Los Angeles árið 1969. Myndin er lauslega byggð á sönnum atburðum og er skáldskap fléttað saman við raunveruleikann á skemmtilegan hátt.

Leikkonan Margot Robbie fer með hlutverk leikkonunnar og fyrirsætunnar Sharon Tate í myndinni. Heba segir það hafa verið afar skemmtilegt verkefni að farða Margot Robbie fyrir þetta hlutverk. „Þetta var svo skemmtilegt tímabil. Það urðu mikil umskipti í tísku og förðun á þessum tíma. Þarna var til dæmis mikil augnförðun með gerviaugnhárum að víkja fyrir náttúrulegri og hippalegri förðun þar sem fólk varla málaði sig. Og það fór svolítið eftir því hvaða senur var verið að taka upp, hvort við vorum að vinna með mikið „makeup“ og uppsett hár eða hippatískuna. Þannig að þetta var svakalega skemmtilegt,“ útskýrir Heba.

„Þetta var svo skemmtilegt tímabil. Það urðu mikil umskipti í tísku og förðun á þessum tíma,“ segir Heba.

Hún bætir við: „Margot Robbie er líka alveg ofboðslega fín og það var gaman að vinna með henni. Við unnum að því að túlka Sharon Tate eins og hún var í raunveruleikanum en ekki eins og fólk sá hana á hvíta tjaldinu. Systir Sharon aðstoðaði okkur líka og hún gaf t.d. Margot hring og ilmvatn sem var í eigu Sharon Tate. Hringinn bar Margot allan tímann meðan á tökum stóð. Þannig að það má segja að hún [Sharon Tate] hafi verið með okkur í anda.“

Nokkrar af þeim kvikmyndum sem Heba hefur farðað fyrir:

Lestu meira

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is