Föstudagur 26. apríl, 2024
2.1 C
Reykjavik

Missti sjónina vegna mistaka

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Á aðfangadagskvöld þegar Inga Sæland var á fimm mánaða, veiktist hún illa af heilahimnubólgu sem varð til þess að hún missti sjón. Inga segist eiga erfitt með að hugsa til þess að ef henni hefði þá verið gefið sýklalyf hefði hún sjálfsagt haldið sjóninni. „Ég missti sjónina vegna læknamistaka. Löngu síðar var mér sagt að hefði ég bara fengið sýklasprautu þegar ég var rænulaust lítið barn með heilahimnubólgu hefði ég líklega ekki misst sjónina. Ég finn fyrir ólgandi reiði þegar ég hugsa til þess og held það hefði verið betra að vita það bara alls ekki,“ segir Inga.

Fátæktin og sjónmissirinn hefur allar götur síðan hamlað Ingu í mörgu því sem hún hefur viljað taka sér fyrir hendur. Þannig gat hún ekki uppfyllt drauma sína í bæði námi og tónlist, ekki nema fyrir eigin dugnað og kappsemi á síðari árum. Að vera hálfsjónlaus varð jafnframt til þess að Inga upplifði talsvert einelti í æsku.

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, var á barnsaldri er hún missti hún sjón og upplifði erfitt einelti í æsku vegna fötlunar sinnar. Eftir að hafa sjálf alist upp við fátækt og erfiðleika er það einlægt markmið stjórnmálaforingjans að útrýma fátækt á Íslandi. Inga rifjar upp í viðtali við Mannlíf erfiðar minningar og nýrri sár sem til urðu á hinum fræga Klausturbar.

Inga Sæland
Mynd / Hallur Karlsson

Inga fæddist 3. ágúst 1959 á Ólafsfirði og ólst upp á sex manna heimili, lengst af í 40 fermetra húsnæði án baðaðstöðu. Móðir hennar var heimavinnandi húsmóðir eins og tíðkaðist í þá daga og faðir hennar aflaði einn tekna til heimilisins með verkavinnu og sjómennsku. „Einhverra hluta vegna var það svo að við fengum ekki mjög margt sem aðrir fengu. Alla mína æsku baðaði ég mig í þvottabala því það var engin sturta. Við höfðum alltaf nóg að bíta og brenna en það var ekkert umfram það. Aðeins keypt það nauðsynlega sem þurfti, stígvél og svona, en við fengum aldrei nein tískuföt,“ segir Inga alvarleg í bragði. „Við vorum aldrei í þeirri stöðu að geta farið í ferðalög eða eignast bíl, til dæmis. Ýmislegt sem mörgum þykir eðilegt er eitthvað sem ég upplifði aldrei. Það var alveg erfitt því maður sá hina fá nýtt hjól og nýja skauta en forgangsröðin heima var að við yrðum aldrei svöng eða okkur kalt.“

Lærði að skrifa í deig

„Ég var alltaf mjög sjálfbjarga og sjálfri mér næg. Þurfti líka að vera það því ég var svo sjónskert að ég gat lítið fylgt krökkunum og þau nenntu ekkert að hafa mig með í leikjum. Ég kynntist alveg einelti þar sem mér var rosamikið strítt. Börn eru börn og átta sig kannski ekki alltaf á þegar þau særa eða meiða. Ég var sem barn stundum leið og sorgmædd en reyndi alltaf að vera glöð og dugleg,“ segir Inga sem er endalaust þakklát fyrir þá hlýju sem hún upplifði meðfram erfiðleikunum.

- Auglýsing -

„Ég var mikið hjá ömmu og hún kenndi mér að skrifa stafi í deigið þegar hún var að gera kleinurnar. Það eru yndislegar minningar úr eldhúsinu hennar. Mig langaði til að læra á hljóðfæri en gat það ekki því ég gat ekki séð nóturnar. Ég lærði að lifa með minni eigin getu og hef í raun aldrei þekkt annað en þessa sjóndepru. Eiginlega er ég samt þakklát fyrir það í dag að hafa ekki þekkt annað, höggið hefði líklega verið meira hefði ég misst sjónina síðar á lífsleiðinni.“

 

Inga Sæland
Mynd / Hallur Karlsson

Lestu viðtalið við Ingu í helgarblaðinu Mannlíf.

- Auglýsing -

Lesa Mannlíf

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -