„Áfangastaðurinn skiptir engu ef þú naust ekki ferðarinnar“

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Síðasta ár hefur verið viðburðaríkt hjá Ara Ólafssyni söngvara en hann keppti sem kunnugt er fyrir Íslands hönd í Eurovision í fyrravor. Þrátt fyrir þessa viðkomu í poppinu er Ari tenórsöngvari og hefur lært klassískan söng frá unglingsaldri.

„Ég byrjaði að læra klassískan söng þegar ég var 12 ára og var þá nemandi hjá Garðari Thor Cortes í Söngskólanum í Reykjavík,“ segir Ari sem byrjaði ferilinn í söngleiknum Oliver Twist sem var leikstýrt af Selmu Björnsdóttur en þar lék hann sjálfan Oliver Twist. „Ég tók oft þátt í söngleikjum og leiklist en var samt alltaf að læra klassískan söng með og hef því alltaf verið virkur í allskonar tónlist. Ég valdi strax að læra klassískan söng því það er besta leiðin til að þróa góða, öfluga og heilbrigða rödd. Út frá því er svo hægt að fara í hvaða útgáfu af söng sem er,“ heldur Ari áfram og útilokar ekkert í þeim efnum en hann hefur líkt og margir hafa tekið eftir verið að koma sér á framfæri sem tenórsöngvari og sló meðal annars í gegn á úrslitakvöldi Söngvakeppni RÚV með laginu Grande amore ásamt þeim Bergþóri Pálssyni og Gissuri Páli Gissurarsyni.

„Mér líður best þegar ég er með mörg mismunandi verkefni í gangi – nenni ekki að slaka á og vera bara í einhverju einu. Ég vil vera fjölhæfur, ég þrái að læra meira og er alltaf að byggja ofan á það sem ég hef gert og lært. Án þess að lofa of miklu, þar sem ég bý í London og er í krefjandi tónlistarnámi, er ég loksins byrjaður að vinna að hugsanlegri plötu en ég þrái að koma með eitthvað nýtt inn í tónlistarheiminn. Ég er virkilega spenntur fyrir öllum verkefnunum sem bíða mín í framtíðinni. En eins og þeir segja; góðir hlutir gerast hægt, bara vonandi ekki of hægt.“

„Ég fann að ég bjó yfir meiri styrk en ég vissi af, ég stóðst álagið og ég kom sáttur heim með hausinn vonandi á réttum stað.“

„Hef verið lánsamur“

Ari var nýlega búinn að klára framhaldsstigsprófið í söng og kominn inn á fullum skólastyrk í The Royal Academy of Music þegar hann fór í Söngvakeppnina og Eurovision. Þar var söngvarinn Ari kynntur til leiks, ef svo má að orði komast, en færri vissu að það færi klassískur söngvari. „Eurovision var í raun algjör kynning á mér og síðasta ár hefur verið gífurlega lærdómsríkt og skemmtilegt. Stærsti lærdómurinn var líklega að ég uppgötvaði að ég gæti gert allt þetta. Ég fann að ég bjó yfir meiri styrk en ég vissi af, ég stóðst álagið og ég kom sáttur heim með hausinn vonandi á réttum stað. Það er mikilvægt að hafa trú á sjálfum sér og láta vaða því annars kemst maður ekkert áfram,“ segir Ari.

„En núna er komið að mér að sanna mig sem tónlistarmaður og söngvari. Ég veit hvað ég vil – ég vil læra meira og þroskast sem tónlistarmaður og njóta ferðarinnar hvert sem hún leiðir, áfangastaður skiptir engu ef þú naust ekki ferðarinnar. Ég hef verið lánsamur í lífinu og held að lykillinn að því sé að halda í jákvæðnina, horfa frekar á það sem er til staðar heldur en að einblína á það sem manni finnst vanta. Einnig er mikilvægt að vera trúr sjálfum sér og leyfa sér að finna fyrir tilfinningunum sínum. Ást og friður,“ segir Ari að lokum.

Mynd / Hákon Davíð Björnsson

- Auglýsing -

Athugasemdir

Orðrómur

Lestu meira