Föstudagur 26. apríl, 2024
6.1 C
Reykjavik

Bergdís sinnir börnunum í Kvennaathvarfinu: „Börn beitt ofbeldi eða þurft að hjúkra áverkum mömmu”

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Börnin eru komin í neyðarathvarf. Það var ekki þeirra val, þau komu með mömmu. En það þýðir ekki að þau þurfi ekki þjónustu” segir Bergdís Ýr Guðmundsdóttir, félagsráðgjafi hjá Kvennaathvarfinu en hennar starf snýst nær alfarið að því að sinna þeim börnum sem þangað koma.

„Þetta er auðvitað nýtt starf og að einhverju leiti ómótað en eitt er ljóst og það er að mikil þörf var fyrir þetta starf inn í athvarfið. Starfskonurnar hér eru auðvitað sérfræðingar í að taka á móti konum sem eru að koma úr ofbeldissamböndum eða óöruggum aðstæðum en börnin voru svolítið aukaafurð. Kvennaathvarfið er í grunninn stofnað fyrir konur með áherslu á málefni þeirra”

Þegar Covid skall á kom upp mikil umræða um heimilisofbeldi og voru margir reiðubúnir að leggja starfinu lið. Í kjölfarið kom Bergdís inn en það hefur lengi verið draumur Kvennaathvarfsins að fá starfsmann sem sinnti alfarið börnum.

Börn eru snillingar

Bergdís bendir á að þrátt fyrir að allt hefði verið gert til að láta þeim líða vel hefði vantað skipulegt utanumhald.  „Ég tek viðtöl við þau, upplýsi þau um hvernig staður þetta er og við ræðum um ástæður þess að þau eru komin. Ég aðstoða þau að átta sig á stöðunni sem þau er komin í og fæ upplýsingar um hve mikið þau vita um ofbeldið sem beitt hefur verið á heimilinu. Þau vita yfirleitt ansi mikið.” Bergdís segir börn vera snillinga og vita oft mikið um ofbeldisaðstæðurnar. „Þau finna alla jafna fljótt hvort þau geti treyst okkur fyrir sinni sögu og þegar það er starfsmaður sem einvörðungu sinnir börnunum, fylgir því mikið öryggi. Þau vita að þau eru komin í öruggar hendur, finna fyrir trausti, og vilja ræða málin.”

Bergdís segir markmiðið að veita framúrskarandi þjónustu fyrir börn sem eru í dvöl í athvarfinu. „Sum þeirra eru í mikill þörf fyrir viðtöl. Þau þurfa að átta sig á tilfinningum sínum og þurfa hjálp við að vinna úr kvíða og vanlíðan.  Við erum að sjá alla flóruna. Sum börn hafa sjálf verið beitt ofbeldi eða horft á mömmu sína vera beitta grófu ofbeldi. Sum hafa þurft að vera í umönnunarhlutverki og þurft að hjúkra áverkum mæðra sinna. Önnur börn hafa sjaldan tekið eftir neinu. Þá er oft um að ræða andlegt ofbeldi sem skilar sér í samskiptamynstri sem börnin átta sig kannski ekki á fyrr en þau koma til okkar.“

- Auglýsing -

Sum mál afar þung

„Við höfum lagt elju í að vinna þessi mál í samvinnu með lögbundnum aðilum eins og Barnavernd, félagsþjónustu og skólunum, öllum sem bera lögbundna ábyrgð gagnvart þeim innan stjórnkerfisins. Hjá okkur koma fram miklar upplýsingar í málum barnanna sem við teljum að skipti miklu máli að koma áleiðis til samstarfsaðila í málinu svo unnt sé að vinna að sem mestum stuðningi og farsælli lausn fyrir umrædd börn”.

Að sögn Bergdísar eru mörg börn sem ekki hafa rödd og ekki gripin nægilega vel af „kerfinu”. „Sum mál eru þyngri en önnur, þar sem alvarleiki ofbeldisins er meiri og félagsleg staða er þyngri. Þessi börn er oft mjög þjökuð og þurfa meiri og sérhæfðari þjónustu en önnur. Við metum það hjá hverju barni fyrir sig. Í slíkum tilfellum er leitað til utanaðkomandi aðila ef þau þurfa meiri aðstoð en okkur er unnt að veita þeim. Við leggjum áherslu á að börnin sem eru hjá okkur bíði ekki eftir aðstoð á biðlistum. Við reynum þess í stað að finna aðrar lausnir, fá aðra fagaðila að málum og koma börnum fyrr að en ella.  Það er mjög mikill metnaður fyrir því hjá athvarfinu að vinna þessi mál vel og útfrá þörf barnanna.”

- Auglýsing -

Þau sem ílengjast

Bergdís bendir að á að ekki megi gleyma félagslega þættinum. „Ég er ekki viss um að fólk átti sig á að það er mjög sérstakt að búa í Kvennaathvarfinu. Börnin eru á öðru heimili og það getur bara verið svolítið vesen fyrir þessa krakka. Við verðum að huga að því sem skiptir þau máli. Hvar eru vinirnir? Kemst ég með strætó í skólann eð á æfingu? Komast fötluð börn til sjúkraþjálfarans eða eru þau utan af landi? Þarf kannski að finna nýjan sjúkraþjálfara til að vinna með barninu á meðan það er fjarri heimabænum? Er alltaf til hafrakex því mér finnst það svo gott? Fæ ég ekki örugglega grjónagraut?”

Að því viðbættu koma aðrir þættir. „Það er til dæmis að fara út að leika, fara á sparkvöllinn í fótbolta, kenna þeim á klukku eða hjálpa til við heimanámið. Sum hafa gott stoðnet ættingja og vina en alls ekki öll og önnur eru fjarri heimahögum þar sem stoðnetið er. Mörg okkar barna eru ekki af velmegunarheimilum, þótt það sé alls ekki algilt, og ílengjast í athvarfinu. Sum hafa aldrei farið á sumarnámskeið eða verið í tónlistarskóla eða skipulögðu tómstundarstarfi, sem eru hlutir sem flest okkar líta á sem mikilvægt fyrir börn að taka þátt í. Fyrir því hefur ekki verið til fjármagn eða það ekki sett í forgang. Við höfum lagt ríka áherslu á að aðstoða þau við slíkt og hjálpa þeim að koma sér af stað. Það er metnaður okkar að láta hlutina gerast og það fé sem fer í barnastarfið nýtist börnunum í svona starfi ef ekki fást fyrir því styrkir t.d. frá félagsþjónustu eða íþróttafélögunum. Við reynum að finna það sem getur glætt líf þeirra einhverju ljósi, vera sá staður sem veitti þeim eftirtekt og gaf þeim tækifæri.”

Mamma beitt ofbeldi

Bergdís leggur áherslu á að móðir og barn eigin upplifunina saman. „Krakkarnir vita langoftast að mamma er beitt ofbeldi og partur af starfinu með börnunum er að leiða móður og barn/börn saman með upplifanir og skilning á reynslu þeirra. Unglingur sem var í athvarfinu sagði t.d. frá því að móðir sagði honum alltaf að setja heyrnartólin í eyrun og ekki hlusta þegar ofbeldismaðurinn byrjaði öskrunum. Móðirin taldi öskrin og ljótu orðin ekki hafa áhrif á unglinginn sem var vitanlega meðvitaður um allt þetta ljóta ofbeldi. Þau ræddu hvorugt um upplifun sína úr þessu sameiginlegu aðstæðum og voru í raun að reyna að vernda hvort annað, móðirin og unglingurinn. Fyrir tilstuðlan starfsins í athvarfinu var hægt að vinna málið sameiginlega með þeim, fá leyfi unglingsins um hvað mætti ræða við móður. Aðstoða þau við að nálgast hvort annað og deila á opinn hátt reynslunni sem var sameiginleg en á sama tíma taka alla ábyrgðina af unglingnum. Barnið taldi sig vera að vernda móður sína með því að segja ekki frá hvað hann vissi um ofbeldið “

Læra sem fyrir þeim er haft

Hefur Bergdís áhyggjur af að ofbeldishegðun færist á milli kynslóða og að börn geri það sem fyrir þeim er haft og sýni ofbeldishegðun þegar þau eldast? Hún segir að alltaf þurfi að hafa það á bak við eyrun. „Við sjáum krakka sem hafa sogast inn í það mynstur að ofbeldi sé eðlilegt. Þetta eru börn sem eru vön því að ofbeldi sé notað sem hótunar- og stjórntæki á heimilinu og eru jafnvel farin að normalisera það, bæði gagnvart fjölskyldu og vinum. Við tökum á hverju máli fyrir sig og vinnum í hlutunum út frá því.

Það segir svo mikið að starfskonur athvarfsins finni fyrir muninum eftir að það kom sér aðili í að sinna málefnum barnanna. Það hefur skipt sköpum að hafa fengið fagaðila í starf barnastarfsmanns, aðila sem þekkir aðeins kerfið og hefur unnið að málefnum barna úr nokkrum áttum, en ég hef unnið í barnavernd, á barna- og unglingageðdeild og á barnaspítala Hringsins. Ég fagna því að Kvennaathvarfið hafi sett þetta í forgang enda hefur sú neyðarstaða að þurfa að dvelja í Kvennaathvarfinu ekki síður áhrif á þeirra líf en líf mæðurnar. Ég er afar stolt af þessu metnaðarfulla starfi Kvennaathvarfsins,” segir Bergdís og snýr sé aftur til barnanna sem eru að skoppa í kringum hana.

Þau eru á leiðinni út í fótbolta.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -