Föstudagur 26. apríl, 2024
5.1 C
Reykjavik

Bergur segir fæðingarorlof á Íslandi í anda nasista: „Übermensch-kerfið“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Bergur Hauksson, lögmaður og afi, segir fæðingarorlof á Íslandi hampa þeim sem hafa háar tekjur umfram þá sem standa höllum fæti. Í aðsendum pistli í Morgunblaðinu líkir hann núverandi kerfi við nasisma og hugmyndir um Übermensch. Hann furðar sig enn fremur á því að verkalýðshreyfingin gagnrýni ekki núverandi kerfi.

Bergur segir að í raun megi líta svo á að ríkið styrki börn hinna ríku umfram hinna fátæku. „Samkvæmt stjórnarskránni skulu allir vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. Úthlutum peninga úr ríkissjóði til nýbakaðra foreldra er í samræmi við efnahag, þ.e. þeir launahærri fá meira úr ríkissjóði en þeir launalægri. Ríkir styrktir umfram þá fátækari. Kerfi sem kalla mætti kapítalískt kerfi. Þetta sjónarmið um að það þurfi að styðja við þann sterka frekar en þann sem stendur höllum fæti á sér og hefur átt marga fylgismenn, sem er einkennilegt vegna þess að bæði svokallaðir vinstri- og hægrimenn ættu að vera á móti því,“ skrifar Bergur.

Bergur líkir kerfinu við bónusakerfi bankanna fyrir hrun. „Í árdaga laganna um fæðingar- og foreldraorlof voru einnig árdagar launahárra stjórnenda í bönkunum. Þá fékk kannski stjórnandi í bönkunum eina, tvær, þrjár eða fleiri milljónir króna í styrk frá ríkinu á mánuði vegna þess að hann átti nýfætt barn. Stjórnandi sem var með eina, tvær, þrjár eða fleiri milljónir í laun á mánuði þurfti styrk frá ríkinu upp á margar milljónir króna vegna barneigna samkvæmt alþingisfólkinu. Alþingi og ráðherra þótti mikilvægt að styðja þannig fólk umfram „aumingjana“. Skapaði þetta fólk ekki svo mikinn auð fyrir Ísland? Svo var víst ekki og hvað ef svo hefði verið?,“ spyr Bergur.

Bergur lýsir aðstæðum dóttur sinnar sem fékk skert orlof einunigs vegna gjaldþrots vinnuveitenda hennar. „Dóttir mín, sem nú nýlega átti barn, var að vinna hjá WOW þegar það fór á hausinn og fæðingarlögin miða við laun fólks aftur í tímann, þ.e. frá 18-6 mánuðum fyrir fæðingu. Gjaldþrotið leiddi til þess að dóttir mín hafði ekki eins há laun og ella á viðmiðunartíma og fær þess vegna miklu lægri greiðslur frá ríkinu en þeir hálaunuðu. Sama á við um aðra sem eru í sömu stöðu og hún. Þetta er þrátt fyrir stjórnarskrána sem segir að ekki megi mismuna með lögum eftir efnahag og að samkvæmt Hæstarétti séu fæðingar- og foreldraorlofslögin ætluð til að styðja við þá sem standa höllum fæti fjárhagslega og efnahagslega. Dóttir mín, og aðrir í svipaðri stöðu, fær frá ríkinu 45% af launum sem hún hafði fyrir fæðingu barns en þeir launahærri fá kannski 80% af sínum launum. Þarna getur munað mörg hundruð þúsund krónum á mánuði,“ segir Bergur.

Fyrirsögn pistilsins er „Kapítalista-, barna“- og félagsmálaráðherra en Bergur skýrir hugmyndina þar að baki nánar í meginmálinu. „Tillaga að fyrirsögninni er sett fram hér að framan vegna þess að fyrst það virðist vera í lagi, miðað við þá greiðsluáætlun sem dóttir mín hefur fengið frá ríkinu, að mismuna eftir efnahag, hvort það sé þá ekki í lagi að mismuna eftir húðlit, trú og ætterni þótt 65. gr. stjórnarskrárinnar kveði á um að það sé ekki í lagi? Þá gætu lögin verið eitthvað á þá leið að fólk fái greiðslur úr ríkissjóði vegna nýfædds barns þannig að þeir launahærri fái hærri greiðslur en hinir launalægri, kristnir fái hærri greiðslur en fólk annarrar trúar og sama gildi um þá sem hvítir eru á hörund og ættstórir. Með því væri ráðherrann orðinn ráðherra „kapítalista, kristinna, hvítra og ættstórra“ og barna- og félagsmála,“ segir Bergur.

Hann segir að ríkið geti allt eins mismunað fólki út frá litarhætti, fyrst þetta stendur óhaggað. „Ef fólki finnst að það að styðja við fólk sem stendur höllum fæti sé gert með því að styrkja þá launahærri umfram hina verð ég að viðurkenna að það velferðarkerfi er komið langt út fyrir minn skilning. Kannski trúa einhverjir á að í raun sé velferðarkerfið til að fá fram „Übermensch“, styðja við þá „duglegu, kláru“, það sé eina rétta velferðin? Var ekki lýst yfir dauða Guðs þegar Übermensch kom fram? Ef það telst eðlilegt að mismuna fólki í samræmi við efnahag þess ætti ekkert að koma í veg fyrir það að mismuna fólki út frá t.d. trú eða litarhætti,“ segir Bergur.

- Auglýsing -

Bergur segir eina vitið að nýbakaðir foreldrar fengu ákveðna upphæð og þannig styrkja þá sem standa höllum fæti. „Bálkurinn um fæðingar- og foreldraorlof er þvílíkur að það er ekki nema fyrir fólk í mjög góðu andlegu ástandi að lesa hann. Það væri hægt að hafa hann svo miklu einfaldari þannig að þar segði að allir nýbakaðir foreldrar fengju einhverja ákveðna upphæð, t.d. væri hægt að taka meðaltal af þeirri upphæð sem ríkið greiðir nú til allra nýbakaðra foreldra. Auðvitað er eðlilegra að ríkið styrki hina sem hallari fæti standa, þ.e. þá er átt við þá sem verra hafa það, en það virðist alls ekki vera neinn áhugi fyrir slíku á Alþingi eða hjá ráðherra svo það má að minnsta kosti fara þá millileið sem nefnd er hér að framan. Kannski er fólk bara farið að trúa á „Übermensch“ og þá höldum við að sjálfsögðu áfram með núverandi kerfi en hættum þá að minnsta kosti að kalla það kerfi fyrir þá sem standa höllum fæti og nefnum það með réttum hætti, t.d. „Übermensch-kerfið“, þar sem ríkið styrkir þá sem betra hafa það umfram hina. Það sem kemur þó á óvart við „Übermensch-kerfið“ er að verkalýðsforystan styður það.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -