Föstudagur 26. apríl, 2024
2.1 C
Reykjavik

Bjartmar og góðverkin – Hjólahvíslarinn hjálpar útigangsfólki

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Ég vil bara skapa lausnamiðaða umræðu, þetta er mér mikið hjartans mál,” segir Bjartmar Leósson, hjólahvíslari og baráttumaður fyrir breyttu þjóðfélagi. Honum er afar umhugað um málefni útigangsmanna og fíkla en sá áhugi kom til með óvenjulegum hætti. Bjartmar er tilnefndur sem Hvunndagshetjan hjá RÚV.

Bjartmar er mikill hjólamaður og allt byrjaði þetta fyrir tveimur árum þegar hann var staddur á Hlemmi í Reykjavík og sá þrjú rándýr hjól fyrir utan stað sem er þekktur fyrir að vera sóttur af útigangsmönnum og óreglufólki. „Ég fór að skoða þetta betur og sá að þarna voru mörg hundruð þúsund króna hjól með einhverjum rusl lásum eða jafnvel engum. Ekki nokkur maður kaupir svona dýrt hjól og en sleppir almennilegum lás. Ég tók myndir af þeim og kannaði málin. Í ljós kom að þau voru öll stolin. Ég tók þau og kom þeim til eigenda sinna.”

Bjartmar virkjaði Facebook hópinn Hjóladót, tapað, fundið, stolið og boltinn fór að rúlla.

Á þessum tveimur árum hefur Bjartmar komið tugum hjóla aftur til réttmætra eigenda og fékk viðurnefnið hjólahvíslari. „Ég er fyrir löngu búinn að missa töluna.”

Verðmætið hleypur á milljónum

Í kjölfarið fór Bjartmar að skoða fyrir utan svipaða staði og gistiúrræði fyrir útigangsmenn. Í ljós kom að mikinn fjölda stolinna hjóla var þar að finna.

- Auglýsing -

„Dýrustu hjólin sem ég hef fundið eru hjól upp á hálfa milljón króna og töluverðan fjölda af hjólum á verðbilinu 200-400 þúsund krónur.” Bjartmar bendir á verðmætin þegar á sé litið að sumir séu að stela 5-10 hjólum á dag. „Í fyrstu tók ég einfaldlega hjólin og skilaði þeim til lögreglu eða eigenda, spilaði mig týndan túrista með derhúfu og hettu!“

Með tímanum fóru útigangsmennirnir að þekkja Bjartmar.

„Sumir voru óskaplega reiðir út í mig. Einn sem var útúrdópaður keyrði á mig á stolnu hjóli niður á Laugaveginum þegar ég var að hjóla þar og æddi síðan í átt til mín. Ég var með beyglað hjól og gat lítið annað gert en að rjúka inn í næstu búð og biðja fólk að skella í lás. Svo hringdi ég á lögregluna.

- Auglýsing -

Meira en góðkunningjar lögreglunnar

„Ég, hjólakallinn, var alltaf að þvælast og taka hjól og smám saman fórum við að tala saman og ég fékk sambönd inn í þennan heim. Ég hef alltaf haft ákveðna samkennd með fólki og fór að sjá þá sem þá einstaklinga sem þeir eru, ekki bara „góðkunningja lögreglunnar”. Og vinátta byrjaði að myndast. „Þeir vissu að þrátt fyrir allt gætu þeir alltaf talað við mig og smám saman fóru þeir jafnvel að koma með hjól til mín að fyrra bragði. Einn stórtækur hjólaþjófur bað mig meira segja um að redda sér hjóli á lágu verði, sem ég og gerði.“

Labba frosnir eftir dópi

Bjartmar hefur myndað sterk tengsl við útigangsfólk í Reykjavík, unnið með þeim í þeirra málum og kynnt sér heim þeirra vel. „Fíknin er svo sterk eftir að hörðu efnin náðu fótfestu. Ég hef vitað af mönnum ganga hálfklædda frá miðbænum og upp í Grafarvog í nístandi frosti til að ná í næsta skammt, kannski ósofnir í margra daga.“

„Þetta eru einstaklingar sem oftast eru með áfallasögur úr æsku. Þeir leita í vímuefnin til að losna við vanlíðan sem síðan leiðir til glæpa og þaðan fangelsisvistar og síðan aftur úr í vímuefnin. Ég neita að trúa að við getum ekki hjálpað þessu fólki.”

Bjartmar verður þungur á brún þegar spjallið snýst að úrræðum fyrir þessa einstaklinga. „Mér finnst oft eins og Íslendingum sé tamt að bregðast ekki við. Ég hef átt margar bíldruslurnar um ævina, sem hafa bilað hist og her, og aldrei hefur nokkuð maður stoppað til að spyrja hvort ég þurfi aðstoð. Við þurfum virkilega að taka okkur á varðandi samkennd og samhug. Það er alltaf ætlast til að næsti maður reddi hlutunum. Ég vil ekki búa í þannig samfélagi.“

Er samfélaginu dýrt

Bjartmar kallar eftir lausnamiðaðri umræðu um þá sem minna mega sín sökum áfengis- og fíkniefnaneyslu. „Það þarf að grípa unga fólkið fyrr. Skólinn er kannski búinn að stimpla þessa krakka, svo og samfélagið allt. Þau passa ekki inn í kassann og svo verða efnin á vegi þeirra. Eitt hjól borgar kannski einn skammt. Og að komast frá A til B. Þeir eru að stela þetta 5-10 hjólum á dag svo ekki sé minnst á allt hitt.“

Bjartmar bendir á að aðstæður þessa fólks snerti allt samfélagið og að það hljóti að vera skynsamlegra, mannlegra og ódýrara að grípa til aðgerða til að hjálpa fólki.

Hann segist ekki vera neinn sérfræðingur en hann neiti að trúa því að samfélagið sé reiðubúið að standa hjá, á meðan fólk hlaupi fram af bjargbrún.

Frú Ragnheiður er flott

„Margir af þessum einstaklingum treysta ekki þeim meðferðarúrræðum sem eru í boði. En ég verð að nefna að Frú Ragnheiður er að gera virkilega flotta hluti fyrir þennan hóp.“

Frú Ragnheiður er úrræði Rauða krossins til að ná til jaðarsettra hópa í samfélaginu eins og húsnæðislausra einstaklinga og einstaklinga sem nota vímuefni um æð og bjóða þeim skaðaminnkandi þjónustu í formi heilbrigðisþjónustu og nálaskiptiþjónustu.

„Enginn hjá Frú Ragnheiði dæmir þá og þar fá þeir fatnað, svefnpoka og hreinar nálar svo fátt eitt sé nefnt. Það þarf bara að gera meira.“

Einn af samstarfsmönnum Bjartmars, vinur og hans hægri hönd við að hala úti Facebook síðu og leit að hjólum, var langt leiddur fíkill og við dauðans dyr. „Hann reif sig lausan og náði að verða edrú. Þetta er hægt! Hann hefur sýnt fram á það. Þetta eru flottir strákar og manneskjur, engin skrímsli. Ég hef trú á þeim og ég mun alltaf hafa trú á þeim. En þeir mega ekki láta sér detta í hug að stela hjólum!” segir Bjartmar.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -