Miðvikudagur 6. júlí, 2022
13 C
Reykjavik

Breytt veðurfar og þétting byggðar – Fjölbreytt verkefni skrúðgarðyrkjumeistara

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

„Við lifum á tímum þar sem lögð er mikil áhersla á umhverfið og að vinna hlutina á sem umhverfisvænastan hátt og það er mikil áskorun hjá okkur skrúðgarðyrkjumeisturum,“ segir Guðmundur Atli Pálmason sem rekur fyrirtækið GAP sf. ásamt eiginkonu sinni, Þórveigu Benediktsdóttur.

„Önnur áskorun tengist breytingum í veðurfari sem veldur til dæmis því að töluvert meiri úrkoma fellur í einu en þekkst hefur áður og því þarf að losna við yfirborðsvatn á einhvern hátt og það þarf að koma því inn í hönnun garða. Ég held að framtíðin í þessu sé mjög björt fyrir okkur skrúðgarðyrkjumeistarana, því að fólk er alltaf að verða meðvitaðra um umhverfi sitt og hvernig það vill að líti út í kringum sig.“

Guðmundur Atli Pálmason

Guðmundur Atli segir að fyrirtækið starfi mikið fyrir sveitarfélög og að markmiðið sé að vinna vandaða vinnu sem skilar sér til lengri tíma.

„Það eru áskoranir í tengslum við þéttingu byggðar. Það eru færri og minni opin svæði og þá skiptir máli að þau séu vel gerð og að gróðurinn sé miðaður við þær skuggamyndanir sem hafa orðið.“ Fyrirtækið vinnur einnig á einstaklingsmarkaði, en þó minna en áður.

Guðmundur Atli Pálmason

- Auglýsing -

„Fyrirtæki okkar er með tæki sem þarf til að vinna garðinn frá a til ö. Við komum að verkefnum á mismunandi stigi. Við sjáum til dæmis um jarðvegsskipti, hellulögn, hleðslur, gróður og gras. Í sumum tilfellum komum við að hönnun garða þegar um léttari hönnun er að ræða og þar sem ekki er verið að leysa mjög flókin viðfangsefni. Fyrirtæki mitt kemur yfirleitt mjög snemma inn í ferlið. Ég veiti einnig oft faglega ráðgjöf um gróður og úrbætur garða.“

Guðmundur Atli Pálmason

Viðhald og notkun

Guðmundur Atli segir að áður en framkvæmdir við garð hefjist sé nauðsynlegt að hugsa til þess hversu auðveldur hann á að vera í viðhaldi. „Þetta er eitt af þeim atriðum sem mikilvægt er að gera ráð fyrir í upphafi sem og aðgengi í garðinum og notagildi hans. Erum við að tala um að nýta hann mikið eða lítið? Vill fólk til dæmis geta haldið veislur í garðinum eða er hann hugsaður sem bara vin fyrir heimilisfólk? Þetta eru allt þættir sem þarf að hugsa um. Ef fólk er ekki að hugsa um einfalda útfærslu þá myndi ég í öllum tilfellum mæla með því að fólk leitaði til garðhönnuða eða landslagsarkitekta til þess að fá örugglega það sem það vill fá. Svo er mikilvægt að leggja áherslu á að allt sé vel unnið; að undirbúningsvinnan sé góð og að jarðvegsskipti séu góð til þess að garðurinn standi sem lengst.“

- Auglýsing -

Guðmundur Atli Pálmason

Þegar búið er að ákveða hvernig garðurinn á að vera fær fólk tilboð varðandi hvern verkþátt fyrir sig. „Það er misjafnt hvort framkvæmdir séu gerðar af fleiri en einum aðila eða hvort sami aðili sjá um allt frá a til ö, svo sem jarðvegsskipti, smíðavinnu, hellulögn og gróðursetningu. Það er mismunandi hvort menn séu með þetta allt á sinni könnu eða ekki; það fer eftir fyrirtækjunum.“

Guðmundur Atli Pálmason

Guðmundur Atli nefndi að í sumum tilfellum hanni skrúðgarðyrkjumeistarar garða. „Þarna komum við einmitt inn á hver notkun garðsins eigi að vera. Þarf til dæmis að byggja skjól og hvernig er það gert, er það gert með timburveggjum eða gróðri? Þetta fer svolítið eftir því hvernig á að nota garðinn. Á að halda útsýni eða ekki? Hvað á að setja mikið viðhald í garðinn? Hvað treystir fólk sér til að setja mikinn tíma í garðinn eða ætlar það að kaupa þá þjónustu? Svæðin eru svo svolítið byggð út frá þessum þáttum. Það er auðvitað mikilvægt að byggja svæði innan garðsins sem er aðalnotkunarsvæðið, hvort sem þar á að vera heitur pottur eða pallur til að grilla á. Þetta eru fyrstu þættirnir sem þarf að huga að. Og ef fólk er að hugsa um alla þessa þætti, þá ráðlegg ég því að leita til landslagsarkitekta.“

Hvað gróður varðar segir Guðmundur Atli að mikilvægt sé að hann sé hugsaður til lengri tíma. „Ég til dæmis hef alltaf lagt áherslu á að gróðursetja bæði plöntur sem eru ungar og svo einnig sterkari og stærri plöntur til að fólk fái strax þá lyftingu sem það vill í gróðrinum.“

Guðmundur Atli Pálmason

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -