• Orðrómur

Danskennarinn Anna Svala vinnur á olíuborpalli: „Hann sagði mér að borða og æla til skiptis“

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

„Ég var rosalega sjóveik í fyrsta skiptið og hringdi í pabba. Ég varð að djöflast í einhverjum og hann þurfti að taka höggið. Hann sagði mér að borða og æla til skiptis þangað til sjóveikin hyrfi. Þetta var rétt hjá honum enda er hann sjómaður til margra ára,” segir Anna Svala Árnadóttir sem starfar á olíuborpöllum í Norðursjó.

Anna Svala hefur vakið athygli á Snapchat fyrir skemmtilega pistla úr Norðurhafi.

„Ég átti engan vegin von á þessu, ég er engin snappari, var bara í vinnunni með slefrönd út á kinn,“ segir Anna Svala og hlær að nýfenginni frægð sinni.

- Auglýsing -

Anna Svala er sjómannsdóttir og kann vel við að vera umkringd hafinu.

Anna Svala er fædd og uppalin Eyjamær, dóttir Árna Óla og Hönnu Birnu, danskennari og núverandi starsfmaður á olíuborpalli. Hún hefur verið búsett í Stavanger í Noregi í sex ár ásamt sambýlismanni sínum Anders Leroy, sem starfar sem sérfræðingur á sviði flutninga hjá Postnord, og syni sínum Tómasi Árna.

Hvað er skandinavíska?

- Auglýsing -

„Þetta hafði legið lengi í loftinu, mig langaði að gera eitthvað nýtt. Stavanger varð fyrir valinu því ég átti vini þar. Jafnvel þótt að hreimurinn sér harður og erfiður“.

Anna Svala segir þetta hafa verið svakalegt stökk.

„Eftir á séð var það kannski ekki frábærasta hugmynd í heimi að taka 17 ára ungling frá vinum sínum. En þetta gekk allt upp og sonur minn, Tómas Árni, er í flugnámi í dag”.

- Auglýsing -

Anna Svala kunni ekki orð í norsku við komuna og var alltaf jafn hissa þegar henni var bent á að tala „skandinavísku”.

„Hvað er skandinavíska eiginlega? Og af hverju fylgdist ég ekki betur með í dönskutímum?”

Anna Svala gerði sér vel grein fyrir að hún hlypi ekki mállaus í draumavinnuna og ákvað hún að taka hverju því sem henni byðist. Hún fór að vinna við þrif og lagði áherslu á að læra norsku. Hún fór einnig í jógakennaranám til Tælands og opnaði lítið jógastúdíó sem núna er lokað vegna Covid faraldursins. Eftir fjögur ár við þrifin frétti hún frá vinum sínum að það væri verið að ráða „offshore”, en það kalla Norðmenn vinnuna á borpöllunum.

Lítil þolinmæði fyrir fíneríi

„Ég hafði engu að tapa, skellti mér í viðtal og fékk vinnuna. Ég hafði aldrei stigið upp í þyrlu, aldrei komið á olíuborpall og vissi ekkert hvað ég var búin að koma mér út í. Þar með byrjaði ballið og ég er búin að vera í þessu í tvö ár. Og er alsæl.“

Anna Svala vinnur innan dyra á pallinum í deild sem kölluð er Catering. Því fylgir meðal annars vinna í eldhúsi við að skræla grænmeti og búa til morgundjúsinn, halda sameiginlegum svæðum hreinum svo og þvottur og frágangur. „Ég reyni nú yfirleitt að koma mér í fjörið og lætin í eldhúsinu, ég hef minni þolinmæði fyrir einhverju svona fíneríi eins og að þurrka af og skipta um á rúmum!”

Mikið er lagt upp úr öryggi á borpöllum.

Það gekk á ýmsu í fyrstu ferðinni.

„Það er tvær gerðir af borpöllum, þeir sem er fastir og þeir sem eru fljótandi. Fyrsta ferðin er í hálfgerðri móðu en ég lenti á fljótandi palli og eins bílveik, sjóveik og flugveik sem ég er, ældi ég út í eitt. Ég var líka með alltof mikið af farangri, ég lærði það seinna að á olíuborpalli er ferns konar klæðnaður: Vinnuföt, kósíföt, æfingaföt og náttföt”.

Algjört áfengisbann

Undirbúningur var stífur enda er mikil áhersla lögð á öryggisfræðslu, skyndihjálp og alla þá þjálfun til að takast á við hvað sem upp á gæti komið.

Anna Svala segir gríðarlega áherslu á öryggismál á pöllunum.

„Það er undantekningalaust öryggisæfing einu sinni í viku. Ég er í oft í skyndihjálparliðinu, þá söfnust við saman og könnum hvort ekki sé búið að rýma allar hæðir, þótt bjallan ætti nú ekki að fara framhjá nokkrum manni. Við erum með hjálma og í öryggisskóm vopnuð skyndihjálpartösku og eigum að leita slasaðra og koma þeim í skjól. Það eru engir sénsar teknir, við verðum að vera 100 prósent með á nótunum. Til dæmis er algjört áfengisbann á borpöllum og við megum eiga von á að vera tekin í próf hvenær sem er“.

Anna Svala getur ekki notið rauðvínsglass á palli því þar er algjört áfengisbann.

Pallarnir eru misstórir en þeir stærstu eru sjö hæða ferlíki með 580 manns um borð.

„Þetta eru ekkert annað en risastór hótel, þau stærstu í Noregi. Og þegar dagvakt og næturvakt deila herbergi geta verið á pallinum ríflega 1000 manns í einu. Þarna eru svefnherbergi, líkamsræktarstöð, leikjaherbergi, ljósastofa, lítill bíósalur, jafnvel hljóðfæraherbergi til að taka lagið. Þetta er litríkt og lifandi samfélag þar sem alltaf er eitthvað að gerast. Þyrlur lenda daglega, stundum tvisvar á dag og það eru sífelld vaktaskipti,“ segir Anna Svala og það er augljóst að hún kann vel að meta lífið og fjörið sem fylgir vinnu hennar.

„Svo var ég með jógakennslu á pallinum en því miður varð ég að hætta henni á meðan að Covid stendur yfir“.

Ekki bara olíublettaðir kallar

Anna Svala vinnur í tvær vikur og er síðan með frí í fjórar vikur.

„Fyrir suma hljómar þetta kannski eins og lúxus en ég vinn 168 tíma á mánuði, 12 tíma á dag. Maður er þreyttur þegar í land er komið og þá er gott að geta hvílt sig. Það er yndislegt að vera úti í sólinni með vinkonum sínum. Ég sakna þess að hafa ekki jógastúdíóið mitt til að tappa af“.

Það er mikil samheldni í pallasamfélaginu.

Við komu og brottför þarf Anna Svala að fara í Covid próf.

„Ég er fyrir löngu búin að missa töluna á hversu mörg test ég hef farið,“ segir Anna Svala.

Anna Svala segist ekki hafa farið með neinar fyrirframgefnar hugmyndir í starfið á pallinum en hún finnur fyrir því að fólk sé með ákveðna mynd í huganum um líf á olíuborpalli. „Þetta er ekki eintómir olíublettóttir karlar eins og í bíómynd þótt karlmennirnir séu fleiri. Olíuiðnaðurinn í Noregi er svo risastór og það er alls konar fólk sem starfar við hann í alls konar störfum. Líka konur. Og það er örugglega þrifalegra hjá mér en á nokkru hóteli!”

Er lífið sem við kusum

Að sögn Önnu Svölu myndast sterk bönd á pöllunum.

„Þetta er lítið samfélag. Það eru allir í þessu á sömu forsendum og maður eignast marga vini. Við eigum það öll sameiginlegt að missa af afmælum og öðrum fjölskylduviðburðum en það er okkar líf. Við kusum þetta eins og aðrir sem eru í vaktavinnu og kyngjum því að sjálfsögðu og göngum áfram veginn“. Anna Svala segir mikið hlegið og spjallað á pöllunum. Við höfum bíókvöld, poppum og hlæjum. Við erum í raun eins og fjölskylda.“

Anna Svala nýtur þess að vera úti í sólinni á milli vakta.

Mörgum finnst skrítið að Anna Svala sé í vaktavinnu úti á sjó en henni og Anders, sambýlismanni hennar, finnst það hið eðlilegasta mál.

„Ég er sjómannsdóttir. Ég ólst upp við að pabbi væri langdvölum úti á sjó, miklu lengur en ég. Við Eyjaskvísurnar erum alveg með þetta.”

Önnur íslensk kona er að vinna á pöllunum, einnig frá Vestmannaeyjum.

„Ég fór úr í þetta með þá hugsun að gefa þessu tvö ár. Þau eru komin og ég verð áfram.

Víkingur umkringd hafinu

Aðspurð um hvort hún fái aldrei innilokunarkennd þar sem það heyrir til undantekninga að hún fari út af hótelinu og þá ekki nema í fylgd öryggisaðila vopnuð staðsetningartæki. „Nei, en ég veit að sumir eiga erfitt með að vera bara umkringdir hafinu bláa. Það angrar mig ekki, þetta er þægilegur vinnustaður, en ég er auðvitað víkingur frá Íslandi. Ég hef netsamband, get heyrt í foreldrum, ættingjum og vinum á Íslandi og víðar. Ég á til dæmis bróðir í Bandaríkjunum. Hér er allt til alls.

Anna Svala segist ekki vera á leið til Íslands næstu árin.

„Margar segja Norðmenn leiðinlega og ferkantaða. En líkur sækir líkan heim og við grenjum úr hlátri saman. Um leið og þú áttar þig á reglufestu þeirra og að hlutirnar taka ákveðin tíma er þetta ekkert mál. Ísland er yndislegt og ég elska að koma heim, það er akkúrat ekkert glatað við Ísland. En Noregur er yndislegur líka. Öll lönd hafa sinn sjarma,” segir Anna Svala Árnadóttir, starfsmaður á olíborpalli, nýkomin í land eftir langa og stranga útiveru.

 

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 
- Auglýsing -

Orðrómur

Helgarviðtalið

Lestu meira

Nýtt í dag

Í fréttum er þetta helst...

Mest lesið í vikunni

- Auglýsing -