Föstudagur 26. apríl, 2024
2.1 C
Reykjavik

Fórnarlamb kynþáttafordóma og mansals fær ekki efnismeðferð

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Til stendur að vísa ungri konu frá Nígeríu úr landi ásamt sjö mánaða barni, að öllu óbreyttu. Konan flúði heimaland sitt til að verða ekki neydd í hjónaband, sætti mansali á Ítalíu og andlegu og líkamlegu ofbeldi. Í stefnu gegn ríkinu segir að lög og reglur skyldi íslensk stjórnvöld til að taka ákvarðanir sem eru barninu hennar, ef ekki henni, fyrir bestu.

 

Í gær fór fram aðalmeðferð í máli ungrar konu gegn íslenska ríkinu til ógildingar á úrskurðum kærunefndar útlendingamála og ógildingar á ákvörðunum Útlendingastofnunar. Stjórnvöld hafa neitað að taka umsókn konunnar og barns hennar um alþjóðlega vernd á Íslandi til efnismeðferðar og hyggjast vísa þeim úr landi, þrátt fyrir að hún hafi flúið heimaland sitt til að verða ekki þvinguð í hjónaband og hafa verið seld mansali á Ítalíu. Barn hennar fæddist í maí á þessu ári.

Fram kemur í gögnum málsins að konan sem er frá Nígeríu hafi misst foreldra sína ung og að systkini hennar hafi viljað gifta hana sem fyrst. Hún mótmælti án árangurs og flúði til Ítalíu en þegar þangað kom var henni tjáð að hún ætti að búa hjá konu sem fylgdi henni leiðina og vinna fyrir hana til að greiða fyrir. „Var henni skipað að fara út á daginn ásamt öðrum stúlkum sem bjuggu hjá konunni og stunda vændi á götunni,“ segir í stefnunni. Konan unga hafi ítrekað verið beitt ofbeldi en ef hún reyndi að flýja var velferð fjölskyldu hennar í Nígeríu ógnað.

Konan upplifði mikla fordóma vegna húðlitar síns á Ítalíu. Hrækt var á hana og hún grýtt. Þá var hún látin drekka vökva sem átti að koma í veg fyrir þungun. Við læknisskoðun kom í ljós að hún gekk með tvíbura en hún missti annað fóstrið.

„Stefnandi byggir á því að það sé ekki hagsmunum barnsins fyrir bestu að hún sé endursend ásamt móður sinni til Ítalíu, þar sem við þeim blasir óvissa og óöryggi, fátækt, kynþáttahatur, fordómar, ofbeldi og mismunun.“

Fórnarlamb kynþáttafordóma, mansals og ofbeldis

Í gögnum málsins segir einnig að andleg heilsa konunnar sé ekki góð og að ekki hafi verið tekið nægjanlegt tillit til þess við málsmeðferð stjórnvalda. Þar segir að úrskurðir kærunefnda útlendingamála og ákvarðanir Útlendingastofnunar um að senda hana aftur til Ítalíu, þar sem hún er með dvalarleyfi til 2021, hafi verið ólögmætir og ógildanlegir. Fjöldi regla hafi verið brotnar við meðferð málsins, niðurstaðan sé efnislega röng og brotið á grundvallarmannréttindum konunnar og barnsins.

- Auglýsing -

Ítrekað er að konan sé fórnarlamb kynþáttafordóma og mansals og að hún hafi orðið fyrir andlegu, líkamlegu og kynferðislegu ofbeldi. Þá muni hún ekki fá nauðsynlega aðstoð á Ítalíu, þar sem aðstæður séu verulega slæmar, þar sem hún sé einstæð móðir af erlendum uppruna. „Samkvæmt þeim skýrslum sem kærunefnd útlendingamála vísaði til í úrskurði sínum verður ráðið að fordómar í garð fólks af erlendum uppruna sé vandamál á Ítalíu og hafa ítölsk stjórnvöld verið gagnrýnd harðlega vegna aðbúnaðar flóttamanna og umsækjenda um alþjóðlega vernd þar í landi,“ segir m.a. í stefnunni.

Þá er sérstaklega vikið að réttindum barnsins en börn teljist óumdeilanlega ávallt til sérstaklega viðkvæms hóps umsækjenda um alþjóðlega vernd. Íslenskum stjórnvöldum sé skylt að hafa ávallt það sem barni er fyrir bestu í forgangi þegar teknar séu ákvarðanir um málefni þess, samkvæmt íslenskum barnalögum, barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og tilskipun Evrópuþingsins.

„Stefnandi byggir á því að það sé ekki hagsmunum barnsins fyrir bestu að hún sé endursend ásamt móður sinni til Ítalíu, þar sem við þeim blasir óvissa og óöryggi, fátækt, kynþáttahatur, fordómar, ofbeldi og mismunun. Stefnandi og barn hennar verða að öllum líkindum heimilislaus verði þeim gert að snúa aftur til Ítalíu og óvíst er hvort þær munu hafa aðgang að félagslegri þjónustu, heilbrigðiskerfinu og skólakerfinu,“ segir í stefnunni.

- Auglýsing -

„Stefnandi byggir á því að það sé ekki hagsmunum barnsins fyrir bestu að hún sé endursend ásamt móður sinni til Ítalíu, þar sem við þeim blasir óvissa og óöryggi, fátækt, kynþáttahatur, fordómar, ofbeldi og mismunun.“

Magnús Davíð Norðdahl

Bjartsýnn á jákvæða niðurstöðu

„Mál umbjóðanda míns er nú rekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur en niðurstöðu er að vænta fyrir jól. Ég er bjartsýnn á jákvæða niðurstöðu í málinu,“ sagði Magnús Davíð Norðdahl lögmaður, í skriflegu svari við fyrirspurn Mannlífs.

„Það er illskiljanlegt af hverju mál þetta þurfti að fara fyrir dóm, þar sem aðrir hælisleitendur í svipaðri stöðu og umbjóðandi minn hafa fengið efnismeðferð í sínum málum. Einnig var óskað eftir beiðni um endurupptöku málsins hjá kærunefnd útlendingamála en engin svör hafa enn sem komið er borist þaðan, þrátt fyrir rekstur þessa máls fyrir dómi og að framkvæmd brottvísunar er yfirvofandi. Það er mín skoðun að mál þetta hafi ekki fengið sanngjarna meðferð hjá stjórnvöldum og ekki hafi verið tekið tilhlýðilegt tillit til hagsmuna móður og ekki hvað síst barnsins. Fleiri umbjóðendur mínir eru í svipaðri stöðu og eru mál sumra þeirra þegar komin fyrir dóm.“

Í viðtali við Mannlíf sem birtist 8. nóvember sl. sagði Magnús að stjórnvöld sýndu stundum ekki nógu mannúð við meðferð mála þar sem börn kæmu við sögu. Hann sagði raunar ómannúðlegt að senda börn aftur til Grikklands og Ítalíu, þar sem aðstæður væru jafnslæmar og raun ber vitni. Þessu væri hægt að breyta. „Það er pólitísk ákvörðun að skilgreina Grikkland og Ítalíu sem örugg ríki að senda hælisleitendur til,“ sagði hann.

 

 

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -