Þriðjudagur 10. september, 2024
7.8 C
Reykjavik

Guðmundur segir 14 ára son sinn hafa verið svikinn: Vann kauplaust fyrir verðlaunaleikstjóra og sætti furðulegri framkomu

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Guðmundur Þór Kárason kvikmyndagerðarmaður, er harðorður í garð aðstandenda verðlaunakvikmyndarinnar Hjartasteinn, og segir þá hafa svikið 14 ára son sinn, eftir hálfs ár vinnu fyrir aðalhlutverk í nýrri kvikmynd þeirra. Segir hann soninn ekki hafa fengið krónu greidda fyrir alla vinnuna sem hann lagði á sig.

„Maður er sjálfur orðinn það sjóaður og veit þegar er verið að plata mann og segir bara; „Nei og takk fyrir,“ og hættir. Þannig að ef ég sjálfur væri að lenda í þessu þá væri það bara leiðinlegt og maður heldur áfram. Ég væri ekki að tala um þetta í fjölmiðlum eða á samfélagsmiðlum ef það væri ekki fyrir barnið mitt. Ég er foreldri og á að vernda hann og þegar menn sem ég þekki ekki eru að koma svona illa fram við son minn, þá er það algjörlega ólíðandi,“ segir Guðmundur í samtali við Mannlíf.

„Aðstandendur kvikmyndarinnar Hjartasteinn eru með nýja mynd í smíðum og í lok árs 2019 héldu þeir áheyrnarprufur fyrir aðalhlutverkin í myndinni. Aðalhlutverkin eru öll í höndum barna og eftir langar og strangar prufur hreppti sonur minn aðalhlutverkið,“ segir Guðmundur í færslu á Facebook. Aðstandendur beggja mynda eru Guðmundur Arnar Guðmundsson, sem leikstýrði og skrifaði handrit Hjartasteins, og Anton Máni Svansson, sem var aðalframleiðandi myndarinnar.

„Leikstjóranum finnst hann [sonur Guðmundar] ekki alveg vera að tengja við hlutverkið þannig að hann getur ekki verið með í myndinni,“ segir Anton Máni við mig þegar hann hringir á þriðjudaginn,“ segir Guðmundur. „Hvernig fullorðnir menn geta komið svona fram við óharðnaðan ungling er eitthvað sem er ekki hægt að skilja. Veröld drengsins og væntingar hrundu við þessar fréttir, eftir að hann hafði ekki hugsað um annað en þetta verkefni í sex mánuði. Að horfa upp á barnið sitt mæta svona framkomu frá fullorðnum mönnum út í bæ sem hafa áunnið sér traust hans er ógeðfellt.“

Guðmundur segist aðeins hafa hitt Guðmund Arnar leikstjóra þrisvar sinnum. „Mér finnst mjög óeðlilegt að hann er síðan að mynda trúnaðarsamband við barnið mitt daglega, á meðan að ég fæ bara upplýsingar úr framleiðslunni, frá stelpum á skrifstofunni eða Antoni Mána framleiðanda. Við fengum þetta símtal á þriðjudaginn, og okkur var strax hent út úr Facebook-hópi þar sem allir foreldrarnir voru. Allir sem unnu að kvikmyndinni eyða okkur sem vinum á Facebook. Það á bara að láta eins og sonur minn sé ekki til!,“ segir Guðmundur.

„Við fréttum svo að ferlið hefði verið eins þegar unnið var að Hjartasteini, ferlið hefði verið langt og strangt, og þegar Anton Máni hringdi í okkur í gær var það staðfest. Að leikstjórinn hefði einnig þá á síðustu stundu skipt um skoðun, þannig að þetta er ekki í fyrsta sinn sem vinnubrögðin eru svona,“ segir Guðmundur.

- Auglýsing -
Guðmundur Þór Kárason
Mynd / Tinna Stefánsdóttir

Margverðlaunuð heima og erlendis

Hjartasteinn var frumsýnd 10 janúar 2017 á Íslandi og var sýnd á RÚV á jóladag það ár. Myndin vakti verðskuldaða athygli og sópaði til sín verðlaunum, hér heima og erlendis. Hjartasteinn hlaut 45 alþjóðleg verðlaun, auk níu Edduverðlauna árið 2017. „Miðað við hvað Hjartasteinn gekk vel þá hlýtur myndin að vera með styrki eða loforð um allskonar styrki til dæmis er myndin með 110 milljón króna vilyrði frá Kvikmyndamiðstöð Íslands“ svarar Guðmundur aðspurður um hvort að myndin sem nú er í vinnslu hafi hlotið einhverja styrki.

„Ég hef aldrei kynnst svona vinnubrögðum og þykir undarlegt að menn sem sérhæfa sig í gerð mynda um börn skuli koma svona fram við barn. Sem faðir hryggir það mig að hafa leyft þessum mönnum að ávinna sér traust sonar míns og glepja hann með tali um frægð og frama þar sem öllu fögru var lofað,“ segir Guðmundur og loforðin voru stór.

- Auglýsing -

„Það átti að ferðast um heiminn með myndina á kvikmyndahátíðir, gista á lúxushótelum og leikarar úr Hjartasteini voru fengnir til að koma og segja syni mínum hvað það hefði verið frábært tækifæri fyrir þá að vinna í svona verkefni.“

Stikla verðlaunamyndarinnar Hjartasteinn

Mbl.is sagði í byrjun október í fyrra frá leit Guðmundar Arnars og Antons Mána að unglingsdrengjum til að fara með hlutverk myndarinnar sem nú er í vinnslu. Ber hún vinnuheitið Berdreymi.

Alltaf átt draum um að verða kvikmyndagerðarmaður

„Sonur minn hefur frá því hann fæddist ætlað að verða kvikmyndagerðarmaður, hann ætlar í Borgarholtsskóla eftir gaggó að læra kvikmyndagerð, hann hefur frá því hann var 5-6 ára verið að búa til stuttmyndir og það er draumur hans að verða kvikmyndagerðarmaður,“ segir Guðmundur í samtali við Mannlíf.

„Þegar menn sem hafa gert mynd sem heppnast svona vel koma til sonar míns og segja; „Við viljum að þú leikir aðalhlutverkið í þessari mynd,“ þá er hann tilbúinn að gera allt.“

Segir Guðmundur að hann og kona hans hafi verið farin að hafa áhyggjur af gangi mála. „Það áttu að vera 45 tökudagar og sonur okkar átti fá 26 þúsund krónur á dag fyrir 11 klst vinnu. Þetta eru lægstu laun á setti, sendillinn er með hærri laun,“ segir Guðmundur.

„Við skrifuðum ekki undir samninginn. Ég var aðallega að reyna að passa upp á að það væru mörk á vinnutíma og upp á hvíldartíma barnsins. Það væri bara unnið fimm daga í einu. Fyrsti samningurinn var bókstaflega þannig að ég átti bara að afhenda þeim barnið til afnota. Hann átti að geta unnið hvenær sem er og hvar sem er, bara ef þeir óskuðu eftir. Ég hef aldrei kynnst svona vinnubrögðum og veit ekki hvernig þeim dettur í hug að haga sér svona,“ segir Guðmundur. „Þarna er verið að brjóta barnasáttmála Sameinuðu Þjóðanna og lög um vinnu barna, þannig að maður er bara ansi gáttaður á þessari framkomu.”

Samkvæmt samningi átti sonurinn að fá greidda ákveðna upphæð fyrir tökutímabilið, hins vegar átti ekkert að greiða fyrir undirbúningstímabilið að sögn Guðmundar.  „Það var auðvitað aldrei útlistað hvernig undirbúningstímabilið ætti að vera. Svo er maður sogaður inn í þetta svarthol og það þorir enginn að segja neitt.

Það átti upphaflega að gera myndina út í Danmörku og þar var búið að fara í gegnum allt þetta ferli, að finna leikara og ráða í hlutverkin. Þar eru væntanlega börn sem hafa verið skilin eftir í sárum. Það er bara svona slóðin eftir þá.

Það eru fjórir aðalleikarar í myndinni og ég veit ekki hvernig framkoman er við hina. Manni er haldið alveg frá öllum samskiptum við aðra,“ segir Guðmundur, og svarar aðspurður að leikurum og foreldrum þeirra hafi aldrei verið hóað saman og kynnt fyrir hvert öðru. „Mér finnst það líka vera stjórntæki svo við, foreldrarnir, tökum okkur ekki saman og gerum kröfur. Það er reynt að halda öllum og öllu ferlinu í myrkri.“

Hann segir ótrúlegt hversu langan tíma hafi tekið aðstandendur myndarinnar að ákveða að sonur hans hentaði ekki í hlutverkið.

„Þú átt að geta ákveðið þig á 2-3 vikum í mesta lagi, það er verið að setja heilu leiksýningarnar upp í leikhúsum, og það tekur bara nokkrar vikur.

Sonur minn hefur brennandi áhuga á þessu og maður vill styðja hann í því og það er mjög erfitt að segja við hann að maður treysti ekki þessu fólki og vilji taka hann úr verkefninu. Þannig að maður lætur til leiðast eins lengi og maður getur.“

Langt og strangt tímabil

Eftir að sonur Guðmundur fékk loforð um aðalhlutverk myndarinnar tók við langt æfingatímabil, oft mörgum sinnum í viku, margar klukkustundir í senn að sögn Guðmundar. „Þetta voru ekki bara æfingar fyrir myndina heldur einnig leiklistaræfingar, líkamsrækt, slagsmálaæfingar, breytt mataræði og fleira.

Upphaflega, í janúar, var sagt við okkur að ætti að bjóða syni mínum á leiklistarnámskeið tvisvar í viku, tvo tíma í senn, og ekkert sagt með framhald ævinga. Síðan fer að bætast við, æfingar urðu lengri og fleiri. Hann á að þyngja sig, hann á að fá vöðva, hann á að fara á slagsmálaæfingar, hann á að fara í karate, hann á undirbúa senur,“ segir Guðmundur og segir að sonur hans hafi staðið sig algerlega í einu og öllu, aðeins einu sinni á öllu tímabilinu hafi sonur hans mætt of seint.

„Hann er búinn að lesa handritið út og inn og stanslaust spenntur og svo er bara rifið úr honum hjartað. Hann er hvers manns hugljúfi og búinn að vera að leika í alls konar efni. Leiklistarkennarinn hans var að hæla honum og sagðist hlakka til að sjá hann í hlutverkinu.  Þeir [aðstandendur myndarinnar] voru alltaf að segja að hann væri að standa sig vel og væri svo einbeittur og flottur strákur,“ segir Guðmundur.

„Maður vill vernda barnið sitt, maður vill ekki að aðrir byggi upp traust og hæli barninu fái síðan að taka tilfinningalíf þess og kremja það.“

Þurfti að hætta í annarri vinnu, skólagangan undir

Sonur Guðmundar var með vinnu sem hann varð að hætta í á undirbúningstímabilinu. Einnig var ljóst að jafnvel skólaganga hans í vetur væri undir.

„Upphaflega  átti að taka myndina í sumar og aðeins inn í veturinn, svo fara dagsetningarnar að færast aftar og aftar. Ég var farinn að hafa áhyggjur af því hversu mikið hann yrði að sleppa af skóla. 45 tökudagar með hléum er næstum orðin heil önn fyrir dreng á lokaári í gagnfræðiskóla.“

Sonur Guðmundar gerði fleira síðasta árið en að mæta á leiklistaræfingar og segir Guðmundur margt furðulegt við ferlið allt. „Hann var sendur til kírópraktors til að hjálpa honum með bakið, í ræktina og svo til fjölskylduráðgjafa, sem okkur var sagt að ætti að vera sjálfstyrking. Og okkur er sagt að það sem hann segi ráðgjafanum sé í fullum trúnaði, svo komumst við að því að hún er ekki með nein raunveruleg réttindi, hún er leikskólakennari, sem er með dáleiðslu- og fjölskylduráðgjöf, í bakhúsi í Árbænum,“ segir Guðmundur.  „Við foreldrarnir vorum síðan boðuð, af framleiðslunni, til að mæta í fjölskylduráðgjöf til hennar með syni okkar og þá komumst við að því að hún er móðir leikstjórans. Og við eigum að trúa henni fyrir einhverjum trúnaðarupplýsingum. Eins og kom síðan í ljós að sonur minn hafði sagt hluti við hana, sem hún bar svo beint í leikstjórann. Þetta minnir mig helst á hegðun í einhverskonar sértrúarsöfnuði.

Það er engin tilviljun að þessir menn gera myndir með börnum í aðalhlutverkum aftur og aftur. Börnin geta ekki borið hönd fyrir höfuð sér, varist gagnrýni frá leikstjóranum eða gera kröfur um vinnutíma og hvíldartíma. Þeir einangra þessi börn frá foreldrum sínum og halda þeim fyrir utan ferlið. Guðmundur myndar svo trúnaðarsamband við börnin, hælir þeim en brýtur þau jafnframt niður. Hann lét son okkar klæða sig úr að ofan, sagði honum að hann væri ekki nógu vöðvamikill, hann þyrfti að þyngja sig, og fá stærri handleggi. Einnig lét hann suma drengina fara í sérstaka húðmeðferð þar sem honum fannst þeir ekki vera með nógu góða húð fyrir myndavélina. Þessi stanslausa gagnrýni á útlit unglinganna vorum við ekki sátt við og teljum að sé hættuleg.“

Hefur aldrei kynnst svona framkomu

Guðmundur er sjálfur þaulreyndur kvikmyndagerðarmaður. „Ég vann í 15 ár með Magga Scheving hjá Latabæ, ég hef komið að allskonar framleiðsluverkefnum bæði stórum og dýrum en einnig unnið við ódýrar kvikmyndir þar sem enginn fékk borgað og ekki einu sinni að borða. Ég hef sjálfur verið með kvikmyndafyrirtæki og framleitt auglýsingar, sjónvarpsþætti og fleira. En ég hef aldrei á minni ævi, sama hversu miklir skíthælar fólk hefur verið eða komið illa fram, ég hef aldrei kynnst svona,“ segir Guðmundur.

„Í gamla daga var mjög mikið um allskonar brask í kvikmyndagerð á Íslandi. Þetta var svolítið þannig að það var sagt að kvikmyndagerð væri svo skemmtileg og svo góð reynsla, það var verið að vinna frítt allan sólarhringinn við ömurlegar vinnuaðstæður. Í dag er talað um að hlutirnir séu breyttir og orðnir faglegri og þeir eru það að mestu leyti. Ef um væri að ræða fullorðinn einstakling, væri þetta alla vega aðeins öðruvísi. Þá væri þetta hans eigin ákvörðun, og hans að hafa látið plata sig. En að vera að plata börn.

Mér finnst bara þurfa að vara annað fólk við. Ég sá að leikstjórinn sagði í erlendu sjónvarpsviðtali að hann hefði verið með níu krakka í 10 mánuði í prufum fyrir Hjartastein án þess að segja þeim hvort þau fengu hlutverkið, til að sjá hverjir entust út ferlið. Hann sagði einnig stoltur við okkur að „crewið“ sem vann við Hjartastein hefði haft áhyggjur af framkomunni við börnin í myndinni og hvað þau voru pískuð áfram og hann sagði; „þau þola þetta alveg.“ Sem mér finnst ótrúlegt að gorta sig af.“

Viðtalið sem Guðmundur vísar til má sjá hér.

„Það getur verið að þessir aðilar nái frábærum árangri í gerð kvikmynda um tilfinningalíf barna, sem vinna verðlaun og fólk tárast yfir að sjá. En aðferðafræði þeirra minnir mig mest á fimleikaþjálfara frá einræðisríkjum seinni part síðustu aldar.  Þeir náðu einnig frábærum árangri með börnin sem þeir þjálfuðu.”

Segir Guðmundur að fleiri hafi sömu sögu að segja af aðstandendum myndarinnar. „Þeir komast alltaf upp með það af því að enginn segir neitt. Þeir halda bara áfram.  Ég hef aldrei kynnst svona hroka eða yfirgangi. Þessir menn eru íslenskri kvikmyndagerð til háborinnar skammar og ég vil vara aðra foreldra við gylliboðum þeirra og loforðum.”

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -