Laugardagur 3. desember, 2022
-0.2 C
Reykjavik

Gústaf óendanlega hryggur vegna „hvarfs“ Gulla bróður: „Hann er bara farinn, það er svo sorglegt“

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Gústaf Níelsson sagnfræðingur segir það óbærilegt að horfa upp á bróður sinn Guðlaug hverfa inn í algleymi Alzheimers-sjúkdómsins. Hann gerir sér grein fyrir því að stríðið sé nú tapað þó Gulli, líkt og yngri bróðir hans er kallaður, sé enn glaður og kátur og þekki oftast sína nánustu. Guðlaugur er aðeins 66 ára gamall.

Gústaf hitti yngri bróður sinn í fyrradag og var það afar erfið heimsókn. Aðspurður hvort hann finni sig lítinn og vanmáttugan að geta ekki hjálpað litla bróður sínum svarar Gústaf því játandi. „Það er þungbært að horfa á lifandi dáinn mann, sem alltaf var hvers manns hugljúfi. Það er ekkert sem maður getur gert. Ekkert sem ég get gert. Þetta er alveg skelfilegt upp á að horfa, hvernig þessi sjúkdómur hefur tekið hann niður og hægt og bítandi hefur hann endaði í algleymi,“ segir Gústaf og heldur áfram:

Sjá einnig: Gústaf Níelsson horfir á bróður sinn hverfa: „Það er þungbært að horfa á lifandi dáinn mann“

„Það eru margir sem glíma við þetta auðvitað og það er verst að læknisfræðin hafi engin ráð fyrir þessu. Hann hefur notið bestu meðferðar sem þekkt er en núna er hann kominn á það stig að hann er búinn að missa sambandið. Ég náði honum hér áður, t.d. með tónleikum á svölunum þar sem ég spilaði gamla tónlist. Gulli var að upplagi afar kátur maður, glaðsinna og mælskur, svolítill grínari svona. Góður heim að sækja. Allt í einu fór þetta bara að fjara út og núna nær maður engu sambandi, maður er bara talandi við lifandi mann sem í reynd er bara farinn. Það er það nöturlegasta.

Gulli og Gústaf á góðri stundu fyrir tveimur árum.

Virðist ekki líða illa

Í dag segist Gústaf ekki lengur eygja von fyrir hönd Gulla bróður síns. Hann segir einfaldlega nú svo komið að sætta sig við orðinn hlut. „Þetta er ákaflega mikið álag fyrir fjölskylduna, eiginkonu og börnin hans fimm. Þetta er afar nöturlegt. Honum virðist hins vegar ekki líða illa og það er afar vel um hann hugsað. Ég er þessum stofnunum þakklátur fyrir þeirra góða starf. En hann sjálfur áttar sig ekkert á því hvernig staðan er og er alveg horfinn í algleymi þessa andstyggilega sjúkdóms, sem nútímalæknisfræði kann engin ráð við. Ég eygi enga von fyrir Gulla og verð bara að sætta mig við þetta. Hvað svo sem er bakvið hornið í læknavísindunum.

- Auglýsing -

Þetta er í raun alveg skelfilegt og afar dapurlegt. Og svo ætti hann kannski þess vegna eftir að lifa í 10, 20, 30 ár til viðbótar. Lífsgæðin eru engin en hann er samt sáttur þar sem hann er og er enn glaður og kátur. Skapið er létt en ekki hægt að halda uppi neinum samræðum,“ segir Gústaf.

Lömuð öðru meginn

Ofan á allt saman veiktist eiginkona Gústafs, Bergþóra Sigurbjörnsdóttir illa sumarið 2020 er hún fékk blóðtappa og lamaðist á vinstri helmingi líkamans. Hann ber engan kala til læknanna þó svo að góðar líkur hefðu átt að vera á greiningu veikindanna fyrr.

Bergþóra og Gústaf á svölunum heima þar sem þau búa á Spáni.
- Auglýsing -

„Hún lítur auðvitað ekki út fyrir að vera eldri en sextug. Begga fór til læknis í febrúarmánuði og sagði að hún væri farin að fá blindu fyrir annað augað og höfuðverk. Þetta væri ekki eðlilegt sagði hún. Læknirinn horfði á hana og segir: „þetta er örugglega bara mígreni.“ Þrátt fyrir að Begga hafi stappað í gólfið þá var ekkert gert nema hún sett í einhverja biðröð, og fékk svo heilablóðfallið í millitíðinni. Þetta er náttúrulega lyginni líkast.

Ef það hefði verið hlustað á hana, þá hefði þetta verið rannsakað strax. Læknar segja mér það í dag og það hefði verið heppilegt að glöggur læknir hefði komið auga á þetta strax og brugðist við. Það gerðist bara ekki því miður. En ég ber engan kala til kerfisins, af hverju á maður að vera að ergja sig á einhverju slíku? Hún er núna að glíma við þessa lömun en henni hefur farið gríðarlega fram,“ segir Gústaf og bætir við:

„Þetta er bara það sem að höndum ber og þessu ræður maður ekki. Aldurinn vinnur stundum gegn manni í þessari endurhæfingu. Nútíma samskiptatæknin hjálpar okkur hér úti að vera í góðu sambandi við okkar fólk. Við erum í raun og veru ekki fjarverandi, heldur svo nálægt. Ég get hringt, sent bréf eða skilaboð á alla vini mína og maður fær svar strax. Við erum í raun og veru ekkert í burtu.“

Saknar alls ekki Íslands

Guðlaugur og Gústaf eru bræður Brynjar Níelssonar, aðstoðarmanns dómsmálaráðherra, og hafa þeir verið samrýndir í gegnum árin. Fjórði bróðirinn uppgötvaðist svo fyrir tilviljun. „Við eigum einn auka bróður sem við uppgötvuðum bara fyrir tveimur árum síðan. Hann er alveg fínn, já já, segir Gústaf.

Sjálfur hefur Gústaf svo verið að glíma við hjartavandamál um áratugaskeið. Nú þegar hefur hann þurft að fara í einar þrjár þræðingar. „Ég er nú bara þokkalegur og kvarta ekki. Mér finnst verra að konan mín varð fyrir þessum alvarlega heilsubresti. Þegar maður lendir í hremmingum þá er maður ekkert einn í þessu og tekur bara því sem að höndum ber. Ég vorkenni ekki sjálfum mér, það þýðir ekkert,“ segir hann hvergi banginn:

„Ég er ekki lífhræddur og óttast heldur ekki loftslagsvánna sem nú er í svo mikilli tísku og allir eru að drepast úr hræðslu yfir. Það er svo margt sem við vitum um þau mál sem passa ekki inn í módelið sem allir eru að tala um. Íslendingar voru að frjósa í nærri 500 ár. En þarna erum við nú komnir út í pólitíkina.“

Gústaf lætur afar vel af búsetunni á Spáni, þar sem þau hjónin hafa búið frá því árinu 2016 er þau keypti sér þar íbúð. „Við tókum bara ákvörðun um að færa okkur um set og Spánverjar hafa tekið ákaflega vel á móti okkur. Við sjáum sko ekki eftir því og söknum ekki Íslands. Verðlagið er gott og við lifum hér góðu lífi á eftirlaununum. Eftir að við hættum að vinna höfum við það miklu betra hér úti en á Íslandi. Hér á Spáni er mjög gott að vera.“

Og hún er ekki löng upptalningin þegar hann er spurður um hvort það er eitthvað sem hann sakni við Ísland.

„Þegar ég er á Íslandi fer ég aldrei í bað. Ég fer bara í laugina. Hið eina sem ég sakna er Árbæjarlaugin. Annað er það ekki.“

Þegar Össur Skarphéðinsson sá þessa mynd af Gústafi á hann að hafa sagt: „Ekki rífa kjaft við þennan mann.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -