Föstudagur 6. desember, 2024
-4.2 C
Reykjavik

Hvað er plast og hvers vegna er það skaðlegt umhverfinu?

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Plast var uppgötvað í kringum aldamótin 1900 og varð strax mikilvægur staðgengill fyrir vörur sem gerðar voru úr dýrum, til að mynda horn, skjaldbökuskeljar og fleira. Plast kemur við sögu í lífi flestra á hverjum degi og er hluti af nánast öllum okkar daglegum athöfnum, bæði heima við og í vinnu. Vörur úr plasti geta verið vörur sem auka öryggi okkar eins og öryggishjálmar og -gleraugu, auk barnabílstóla. Margar vörur sem auðvelda líf okkar eru úr plasti, til dæmis umbúðir utan um matvæli, tölvur, farsímar og burðarpokar. Einnig er plast í vörum sem hafa skemmtanagildi eins og leikföng, sjónvörp og annað.

Til að framleiða plast er að mestu leyti notuð olía og jarðgas en einnig efni eins og kol, sellulósi, gas og salt. Eiginleikar plasts eru þeir að endingartími þess er yfirleitt nokkuð mikill. Plast er slitsterkt svo það hverfur ekki eða eyðist heldur brotnar í smærri og smærri plasthluta í náttúrunni, kallað örplast. Plast er það létt efni að það flýtur. Það getur þar af leiðandi borist um hundruð kílómetra í vötnum og höfum og valdið þannig skaða langt frá upprunastað sínum. Gríðarstórir flákar af plasti hafa þegar myndast í Kyrrahafi, Atlantshafi og Indlandshafi þar sem hafstraumar hafa borið það. Það er síðan fast í þessum gríðarstóru hringstraumum sem þar eru.

Notkunartími einnota plasts er mjög stuttur því einnota umbúðum er hent um leið og búið er að drekka vatnið, kaffið, borða brauðið, ávextina og fleira. Að meðaltali er talið að hver plastpoki sé notaður í um tuttugu mínútur og endi síðan í ruslinu eða úti í náttúrunni.

Á Íslandi er magn umbúðaplastúrgangs um 40 kílógrömm á hvern íbúa á hverju ári eða alls á Íslandi um 13.000 tonn á ári. Þegar talað er um umbúðaplast er átt við allt umbúðaplast sem tengist lífi einstaklings, heimili, skóli, vinna. Endurvinnsla á umbúðaplasti er aðeins um 11 til 13 prósent á Íslandi. Ekki eru til góðar heildartölur fyrir annað plast sem ekki er skilgreint sem umbúðir og er til að mynda í raftækjum, leikföngum, húsgögnum og slíku.

Plastpokafrumvarpið fyrst og fremst táknræn aðgerð

Mælt hefur verið fyrir frumvarpi á Alþingi til laga um breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir sem varðar notkun burðarpoka. Lagt er til í frumvarpinu að frá og með 1. júlí næstkomandi verði óheimilt að afhenda alla burðarpoka, þar með talið burðarpoka úr plasti, án endurgjalds á sölustöðum vara og skuli gjaldið vera sýnilegt á kassakvittun. Frá og með 1. janúar 2021 verði síðan óheimilt fyrir verslanir að afhenda burðarpoka úr plasti, hvort sem er með eða án gjalds. Bannið sjálft á þannig við um plastpoka en ekki burðarpoka úr öðrum efnum.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, hefur sagt plastpokafrumvarpið fyrst og fremst vera táknræna aðgerð, því hún snerti líf okkar allra. Hann bendir á að vandinn sé víðtækari, því vörurnar sem fólk ber heim í plastpokunum séu einnig iðulega í plastumbúðum. Enn fremur bendir hann á að um þriðjungi matvæla í heiminum sé hent og því megi segja að þriðjungur innihalds pokans muni enda í ruslinu. Þannig sé plastpokafrumvarpið einungis lítill hluti af „stóra plastvandanum“.

- Auglýsing -

Að auki tók ráðherrann á móti tillögum í haust sem kveða meðal annars á um að setja úrvinnslugjald á plastumbúðir til þess að reyna að draga úr þeim eins og hægt er. Jafnframt komu fram tillögur um að samræma og skylda flokkun. Guðmundur Ingi telur það grundvallaratriði í nútímasamfélagi að fólk fari betur með hluti og að úrgangur sé nýttur sem hráefni í frekari framleiðslu og til verðmætasköpunar.

Við þurfum fyrst og fremst að huga að því hvernig við getum takmarkað sem mest það sem fer inn í keðjuna, þannig að úrgangurinn verði minni. En við verðum einnig að nýta hann eins vel og við getum. Við Íslendingar höfum verið svolítið hrædd við að tala um neyslu,“ segir Guðmundur Ingi og rifjar upp orðræðuna fyrir hrunið 2008. „Ef einhver sagði orðið græðgi þá var það eitthvað sem ekki mátti taka sér í munn því þá var maður ekki maður með mönnum. Maður var algjör tuðari og afturhaldsseggur; að hamla framförum og allt þetta. En ég held að við séum komin á aðeins annan stað núna og það er algjörlega nauðsynlegt að samband okkar og neyslunnar sé endurskoðað.“

Greinin er hluti af ítarlegri fréttaskýringu Kjarnans í nýjasta tölublaði Mannlífs. Hægt er að lesa alla skýringuna hér.

- Auglýsing -

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -