top augl

Eins og fram hefur komið í fréttum fór Íslandsbanki ekki að lögum og villti um fyrir Bankasýslu ríkisins vegna sölu hlutar ríkisins á bankanum í mars á síðasta ári.

Rúmum tveimur mánuðum áður, þann 7. janúar á síðasta ári, var Birna Einarsdóttir bankastjóri gestur Mannlífisins þar sem hún lýsir því hvernig stemningin í fjármálageiranum hafi breyst til hins betra síðan fyrir hrun og að lang flest fyrirtæki taki samfélagslegri ábyrgð alvarlega.

Nei, ég myndi segja að við séum að gera þetta betur og vanda okkur

Í þættinum segir Birna að hún hafi komist af í hinum harða heimi fjármálanna með auðmýkt. „Ég held að ég segi nú bara með því að hafa gott fólk í kringum mig og að vera svolítið auðmjúk og, hérna, vinna bæði með starfsmönnum og viðskiptavinum.“

Í kjölfar umræðu um kúlulán sem hún mun hafa tekið fyrir hrun ítrekar hún mikilvægi þess að koma hreint fram, undirstrikar auðmýkt og vera ekki að fela neitt.

Hún segir svo að viðhorfin síðan fyrir hrun hafi breyst til hins betra, allt sé mun betur undirbúið, að bankarnir geri meiri kröfur um upplýsingagjöf og svo hjálpi það verkefnum að bæði sé meiri hugsun og meira eigið fé til staðar.

Spurð út í það hvort hún telji að það séu ekki lengur útrásarvíkingar að búa til bólur segist hún halda ekki. „Nei, ég myndi segja að við séum að gera þetta betur og vanda okkur.“