Fjölmiðlakonan Elín Hirst skrifar athyglisverðan leiðara í Fréttablaðinu.
Hún segir að „stórútgerðarfyrirtækið Samherji fer fram með þeim hætti að það vekur margar óþægilegar spurningar. Fyrirtækið hefur sem kunnugt er sett á fót sérstaka skæruliðadeild til þess að reyna að koma óorði á þá sem hafa upplýst um tengsl þess við eitt stærsta spillingarmál sem upp hefur komið í Namibíu og þó víðar væri leitað.“

Bætir við:
„En hér á landi beinist athyglin ekki að meintum stórafbrotum þar sem fyrirtækið er grunað um að hafa nýtt sér ágóða af þjóðarauðlind Íslendinga til að skara eld að eigin köku, á kostnað almennings í Namibíu. Á Íslandi snýst umræðan um eitthvað allt annað,“ skrifar Elín og heldur áfram:
„Nokkrir íslenskir blaðamenn sæta því nú að hafa stöðu grunaðra í undarlegu máli sem snýst um byrlun og farsímastuld og er eins konar smjörklípu-afsprengi þessa ljóta spillingarmáls í Namibíu sem öll íslenska þjóðin hlýtur að vera meðvituð um að er til rannsóknar bæði í Namibíu og hjá héraðssaksóknara.“
Elín segir að „opinberlega hefur verið upplýst að Samherji heldur úti skipulögðum ofsóknum gagnvart uppljóstrurum og fjölmiðlamönnum sem hafa dirfst að benda á þau stórfelldu afbrot sem fyrirtækið er grunað um. Sjálfur fjármálaráðherra landsins gengur fram fyrir skjöldu og tekur þátt í umræðu um málið þar sem hann ver mjög þá ákvörðun að blaðamennirnir sem staðið hafa í stafni við að upplýsa um Samherjamálið skuli hafa fengið réttarstöðu grunaðra í málinu.“
Hún bendir á að „háttsett sendinefnd sem hingað kom frá Namibíu í sumar fékk að sögn óboðlegar móttökur í dómsmálaráðuneytinu. Var það dagsformið, skortur á fagmennsku eða var bara verið að senda þau óbeinu skilaboð úr hinu virðulega ráðuneyti að þar væri staðinn vörður um Samherja?“ spyr Elín.
Hún bendir á að „sendinefndin ætti að láta duga að skoða Gullfoss og Geysi. Sjálfur lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra liggur undir ámæli fyrir að vera ekki faglegur í því sem hann er að gera í þessu máli, heldur gangi hann erinda Samherja.
Er Samherji virkilega orðinn svo stórt og valdamikið fyrirtæki að um það gildi önnur lögmál en annað athafnalíf í landinu? Í þeim byggðarlögum þar sem Samherji hefur tögl og hagldir segja kunnugir að fyrirtækið haldi umræðu og skoðanaskiptum í heljargreipum. Enginn þori að gagnrýna fyrirtækið því það gæti þýtt stöðu- og tekjumissi fyrir viðkomandi eða einhvern úr frændgarðinum. Fólk er óttaslegið og kýs að þegja.“