• Orðrómur

Fyrstu íslensku náttúruverndarsinnarnir: bændurnir, stíflan og dýnamítið

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Í fyrra voru komin fimmtíu ár frá því að stórt atvik átti sér stað í íslenskri umhverfisverndarsögu.

Að kvöldi dags þann 25. ágúst árið 1970 tóku nokkrir bændur í Suður-Þingeyjarsýslu sig saman og sprengdu stíflu í Laxá í Aðaldal við Mývatn í loft upp. Alls lýstu 113 yfir ábyrgð á verknaðinum, en að endingu voru 65 þeirra ákærðir og sakfelldir. Þeir aðilar fengu þó ekki þunga dóma.

Í grein Björns Jónassonar úr Þjóðmálum segir meðal annars um atburðinn:

„Fólk er yfirleitt sammála um að bændur hafi forðað stórslysi. Að hefðu áform verkfræðinga og virkjunarsinna náð fram að ganga hefði tjónið verið óbætanlegt. Fremja átti hryðjuverk gegn Íslandi. Því var afstýrt með hjálp Dýnamits.“

Þetta var í fyrsta sinn í sögu Íslands sem mál er varðaði umhverfisvernd varð að dómsmáli.

Yfirvofandi umhverfisslys en enginn hlustaði

- Auglýsing -

Aðdragandi málsins er samþykkt þess efnis að byggja skyldi 60 mw stíflu í Laxá og er málið í heild kallað Laxárdeilan, en hún stóð í raun frá árinu 1968 til 1973.

Það var Laxárvirkjun sem stóð fyrir byggingu stíflunnar í Miðkvísl, en með tilkomu hennar yrðu miklir vatnaflutningar á svæðinu með tilheyrandi áhrifum á lífríkið. Bændurnir á svæðinu, sem best þekktu virkjanakostinn, sögðu áformin stofna laxinum í ánni í hættu og að virkjunin myndi sömuleiðis skaða viðkvæmt lífríki Laxár og Mývatns. Auk þessa myndu vatnsborðshækkanir leggja Laxárdal í eyði.

Bændurnir lögðust því alfarið gegn áformum Laxárvirkjunar og mótmæltu gerð stíflunnar. Á þá var hinsvegar ekki hlustað. Þrátt fyrir mikla þekkingu þeirra á svæðinu, hagsmuni og skilning á hinu mikla lífríki voru sjónarmið bændanna algjörlega hunsuð. Því hafðist Laxárvirkjun handa við að reisa stífluna, þvert á vilja landeigenda.

- Auglýsing -

Bændurnir leituðu allra leiða til þess að fá áformunum hnekkt. Ítrekað var reynt að fara lagalegu leiðina, bændur vildu fá lögbann á virkjunina út frá vel rökstuddu máli sínu, en allt kom fyrir ekki.

Það endaði því svo að bændurnir tóku sig saman og sprengdu stífluna í skjóli nætur. Sprenging stíflunnar í Miðkvísl við ósar Mývatns er afdrifaríkasti atburðurinn í Laxárdeilunni og skipti sköpum í málinu.

Samstaða og leynd

Samstaða bændanna 113 brást aldrei. Enginn þeirra lét buga sig í vitnaleiðslum og því sagði aldrei nokkur þeirra frá því hver eða hverjir það voru sem höfðu sprengt stífluna. Þess í stað játuðu þeir allir sök. Það hvíldi ákveðin bannhelgi yfir málinu og í áratugi vissi jafnvel yngra fólkið í sveitinni ekki nákvæmlega hverjir það voru sem fíruðu upp í sprengjunni.

Í gegnum árin hefur málið stundum verið kallað „eina íslenska hryðjuverkið“, en með tíð og tíma, sem og aukinni náttúruvernd og umhverfisvitund, hefur málið fengið á sig annan blæ og atvikið frekar verið talið hetjudáð þeirra bænda sem þarna áttu í hlut. Atburðurinn er í dag talinn marka upphaf náttúruverndar á Íslandi.

Þrátt fyrir að merkileg atvik sem tengja má náttúruvernd hafi fyrr átt sér stað, eins og barátta Sigríðar í Brattholti, þá var þessi atburður algjör vendipunktur í sögunni og íslenskri náttúruvernd. Eftir þetta fór sannarlega að verða einhver hugarfarsbreyting í þjóðfélaginu og mál af þessum toga voru rædd á nýjan hátt. Umhverfisvernd varð raunverulegra fyrirbæri sem fleiri skildu að væri mikilvægt.

 

Freklega gengið á rétt bænda

Það er um margt merkilegt að virkjunarsinnar hafi fengið að ganga jafn langt á sínum tíma og raun ber vitni. Með virkjuninni hefðu margar jarðir í einkaeigu farið undir vatn og þarna var að öllu leyti gengið mjög harkalega fram gagnvart bændunum og eignarrétti þeirra.

Auk þessa kom virkjunin aldrei til með að þjóna bændunum á nokkurn hátt, þar sem nýta átti orkuna á Akureyri.

Sömuleiðis átti að reisa virkjunina sjálfa á landi í einkaeigu. Auk ofangreinds er svo auðvitað skaðsemi virkjunarinnar gagnvart lífríkinu, en það var bændunum mikið hitamál og reyndu þeir að benda á það hvað eftir annað, en töluðu fyrir daufum eyrum.

Út frá þessu máli hafa margir haldið því fram að besta náttúruverndin felist í eignarrétti á landsvæðum. Að hagsmunum náttúrunnar sé best borgið þegar hún eigi sér eigendur og verndara, sína eigin landvætti ef svo má að orði komast.

Aðrir eru ósammála því og telja einungis þurfa betri regluverk utan um náttúruvernd og virkjanakosti.

 

Hvellur

Í heimildarmyndinni „Hvellur“, sem frumsýnd var árið 2013 var loks hulunni svipt af leyndarmálinu sem bændurnir höfðu varðveitt í öll þessi ár: hverjir það voru í raun sem sprengdu stífluna; tóku í gikkinn, ef svo má að orði komast. Það voru þeir Guðmundur Jónsson á Hofsstöðum, Sigurgeir Pétursson á Gautlöndum og Arngrímur Geirsson í Álftagerði. Þeir Guðmundur og Sigurgeir voru báðir látnir þegar myndin kom út, en Arngrímur á lífi. Arngrímur lést svo í júní í fyrra.

Til þess að safna liði bænda á svæðinu voru boð látin ganga út í jarðarför á Skútustöðum sama dag og stíflan í Miðkvísl var sprengd. Í heimildamyndinni kemur fram að dýnamítið sem notað var til að sprengja stífluna var í eigu framkvæmdaaðila stíflugerðarinnar, Laxárvirkjunar.

 

Samstaða Mývetninga einstök

Það má um margt segja að virkjunarsinnar hafi þarna valið sér ranga sveit til að abbast upp á. Andinn og samstaðan í Mývatnssveit hefur löngum verið sterk og þar var alla tíð mikil samfélagsleg meðvitund. Þarna bjó líka mikið af víðlesnu fólki, sem jafnvel kunni töluvert fyrir sér í lögfræði.

Þessari byltingu Mývetninganna hefur stundum verið líkt við Kárahnjúkamálið, en Grímur Hákonarson, leikstjóri Hvells, sagði sömuleiðis að honum þætti stemningin í kringum Laxárdeiluna og sprenginguna árið 1970 um margt líkjast byltingarandanum í búsáhaldabyltingunni. Það má vel skilja þá líkingu. Fólkið, almúginn, tekur vald sitt til baka. Stendur uppi í hárinu á ráðandi öflum, stendur hnarreistur augliti til auglitis við auðvaldið og segir: hingað og ekki lengra.

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -