Föstudagur 26. apríl, 2024
2.1 C
Reykjavik

Gegga meðferðarþjálfari: „Ég brotnaði niður á geðdeild sem hjúkrunarfræðingur á vakt“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Það er ískaldur morgun þegar Helga Birg­is­dótt­ir, listakona og meðferðarþjálfari, sem oftast er kölluð Gegga Smiler, tekur á móti blaðakonu Mannlífs í listasmiðju sinni við Skipasund. Þar hefur blaðakona mælt sér mót við listakonuna og heilsugúrúinn Geggu til þess að ræða um lífið, heilsuna og listina. Það er boðið upp á ilmandi te.

Helga byrjar á því að útskýra hvers vegna hún sé oftast kölluð Gegga.

„Gegga er gælunafn sem mér var gefið af móðurafa mínum þegar ég var lítil. Ég lagði það til hliðar í unglingsárum af því að mér fannst það hallærislegt. Ég tók það svo aftur upp sem listakonunafn um síðustu aldamót í Listaháskóla Íslands.

Ég er svolítið klofin persóna. Er forvitin, hvatvís og fróðleiksfús að eðlisfari og verð að prófa helst allar sortir. Þess vegna borða ég alltaf á mig gat á öllum hlaðborðum.

Hjálpartæki gleðinnar

Gegga er sú geggjaða í mér og Helga sú heilaga. Það sem kveikir áhuga hjá mér er það sem sameinar andlega rækt og listsköpun. SMILER, hjálpartæki gleðinnar er dæmi um það. Hálsmen sem minnir á að þú sért skapari í eigin lífi með viðhorfi þínu.

- Auglýsing -

Þegar illa liggur á mér þá sting ég gripnum á milli munnvikanna og bý þannig til bros. Hjúkkan í mér veit að þó að bros sé pínu falskt þá framleiðir það gleðihormón sem efla heilbrigði. Þetta þýðir þó ekki að hundsa eigi erfiðar tilfinningar. Ég trúi að það séu gjafir í öllu mótlæti þótt í erfiðum umbúðum séu. Reglulega eru einstaklingar sem sýna kjark og kærleika í erfiðum áskorunum, heiðraðir sem SMILER. Þessar hvunndagshetjur og fyrirmyndir má sjá á heimasíðunni smiler.is.

Þar sem bíllinn minn ber nafnið SMILER á númersplötunni þá er ég tilneydd að vera í gleðigír undir stýri, sem er heppilegt fyrir mig og þá sem á vegi mínum verða.

Ég gef öllum séns og upplifi það sama á móti. „Gefðu með gleði það sem þú vilt fá“ er eitt af slagorðum SMILER. Aðalslagorðið er haft eftir búddamunknum Thich Nath Hanh: „ef þú brosir 5 sinnum á dag – ÁN TILEFNIS, getur þú breytt lífi þínu á 90 dögum.“ Þessa speki heyrði ég sama dag og bankahrunið varð á Íslandi 2008. Þessi orð áttu eftir að vekja upp hugmyndina að SMILER, því erfitt var að brosa þegar sparifé brann og lánin fóru á stera.“

- Auglýsing -

Forvitin um sálina

Ein aðalástríða Geggu er andleg mannrækt og hefur hún sótt ógrynni námskeiða og menntunar í tengslum við hana gegnum tíðina. Hún hefur alltaf verið forvitin um sálina og út á hvað þetta jarðlíf gengur.

„Ég er eins og flestir aðrir alltaf að leita að ást og hef komist að því að sú skilyrðislausa býr hið innra. Ef ég finn hana ekki þar, þá er vonlaust að finna hana annars staðar. Stundum ögra ég sjálfri mér asskoti mikið – allt fyrir þroskann. Til dæmis var ég skíthrædd við tantra og kafaði ofan í það um tíma, skjálfandi á beinunum. Ég lifði það af, lærði af því, hætti því, og hélt lífinu áfram.

Fyrstu árin sem ég starfaði á geðsviði LSH var þar dásamleg listasmiðja, aðstaða til að skapa eitthvað og gleyma sér. Þar málaði ég fjölda málverka sem prýddu svo veggi deildarinnar.  Mörgum fannst þetta vera besta meðferðin; að dunda sér í félagsskap annarra án allra kvaða. Því miður var listasmiðjunni svo lokað eins og mörgum öðrum góðum meðferðarformum. Fókusinn var nánast allur á lyfjameðferð.“

Fékk meðvirkni í vöggugjöf

Lífið er skrítið og enginn lofaði að það yrði bara gaman, segir hún.

„Ég fékk meðvirkni í vöggugjöf sem var mér oft fjötur um fót. Ég gat illa þolað að vinna á móti gildum mínum, vera farið að mislíka starfið og geta varla sagt nei við aukavöktum vegna pressu og vinnufíknar. Einn góðan haustdag brotnaði ég niður, grátandi og skjálfandi á geðdeildinni – ekki sem sjúklingur, heldur hjúkkan á vaktinni. Ég var send í frí, en nei; að hvíla mig á meðan ég gat gengið var meira en meðvirkur hugur minn gat þolað.

Hann sagði mér að hundskast í vinnuna fyrst ég væri ekki slösuð. Og þá varð slysið! Ég hrapaði fram af fjörukambi og mölbraut hægri olnboga og rif. Hausinn fékk líka högg og hefði farið illa ef ekki hefði verið fyrir flottu selskinnshúfuna. Ég var ein og símalaus, 11 stiga frost úti, hálka og myrkur að skella á.

Það var þrekvirki að ganga rúmlega kílómetra leið að bústað þar sem vinir voru. Að tjasla mér í fyrra horf hefur tekið tíma. Olnboginn var víraður saman og greri bara vel. Það var aftur erfiðara fyrir egóið mitt sem þrjóskaðist lengi við að leita í Virk. Í Virk var gott fólk sem leyfði mér að gráta og vera lítil í mér. Ég sem aldrei grét, grét nú eins og Gullfoss. Guð veit hvað virkar og Virk var hárrétti staðurinn fyrir brotnu mig til að byrja að raða mér saman á ný.

Þessar minningar minna mig á stóran leirskúlptúr sem ég gerði á síðustu öld og hét: „ég raða brotunum saman, orðin kona.“ Hann var gerður af konulíkama í brotum sem ég límdi saman. Hann brotnaði svo endanlega er vinur minn missti hann í gólfið. Efni er ekki eilíft sem betur fer og ég sjálf mun enda sem aska. Þessi kulnun var blessun eins og allt annað í lífinu.“

Starfaði sem hjúkrunarfræðingur á geðsviði

Gegga kallar sig andlegan heilsumarkþjálfa, en hún er NLP meðferðar- og markþjálfi sem notar aðferðir til að heila sig og styðja við aðra, m.a. með svokallaðri IFS (innri partameðferð) og The Work, aðferð Byron Katie.

Þegar hún starfaði sem hjúkrunarfræðingur á geðsviði fannst henni hana vanta tíma fyrir þessa meðferðarvinnu með sjúklingunum.

Hún segir að: „við læknum ekki sjálfshatur, þunglyndi og kvíða með pillum þótt þær geti hjálpað tímabundið. Ég lít ekki á andleg veikindi og fíknir sem sjúkdóma heldur afleiðingu streitu og áfalla sem hægt er að heila. Það fæðist enginn með þunglyndi eða kvíða og þess vegna finnst mér glórulaust að gefa börnum geðlyf við erfiðum tilfinningum.“

Gegga segist nota listmeðferðir með skjólstæðingum sínum, þar sem hún hefur góða aðstöðu til þess.

„BA myndlistargráða mín skiptir mig minnstu máli þar, því þetta er byggt á tilfinningamálun en ekki fagurfræði. Ég nota svo tónlist og hugleiðslu í bland ef mér finnst það henta. Ég elska að styðja við skjólstæðinga sem þora að kíkja í sálardjúpið og hlusta á sína innri visku, sinn máttuga heilara. Mikilvægast af öllu er kærleikurinn, skilyrðislaus; að samþykkja allar tilfinningar sem er andstæða við það sem okkur hefur verið kennt; t.d. að reiði sé röng. Sem hjúkrunarfræðingur á geðsviði þá vann ég oft í mótsögn við gildi mín, sem endaði á miklu krassi eins og áður er getið.“

Kvíðinn með augum kærleikans

Hún segir að af öllu því skemmtilega sem hún fáist við, finnist henni námskeiðin standa upp úr.

„Þau eru blanda af ýmsu og alltaf kósí. Það er svo gefandi að vera í góðum hópi kvenna þar sem grímur eru teknar niður og sálarspjall telst sjálfsagt. Síðustu sumur hef ég haldið námskeið bæði á Hólaskjóli Hálendismiðstöðvar og í Syðri-Vík í Vopnafirði, fyrir þreyttar og streittar konur. Þau verða endurtekin.

Uppáhaldið mitt, The Work, aðferð Byron Katie, er einföld og áhrifarík hugleiðsluaðferð sem ég elska að kenna. Síðast í nóvember var ég með helgarnámskeiðið „Kvíðinn með augum kærleikans.“

Dauðinn í nýju ljósi

Í janúar verður svo námskeiðið „Dauðinn í nýju ljósi.“ Þar munum við skoða hvernig óttinn við dauðann hefur áhrif á allt okkar líf. Í desember var ég með nýjung; sunnudagshugvekjur „Kveiktu á ljósi þínu og slakaðu á.“ Það var fjör!“

Hennar heitasta ósk er að skólakerfið skapi umræðuvöll um okkur sem andlegar verur. Þar sem ungt fólk fær að velta upp pælingum án þess að fulltrúi ákveðinna trúarbragða komi með svörin.

„Spurningar eru oft mikilvægari en svörin – enda enginn með þau á hreinu. Lífið er einstök upplifun hvers og eins. Krakkar þurfa að þekkja styrk sinn og mátt kærleikans; skoða sannleika sinn – skammlaust.

Ég hélt eitt sinn fyrirlestur um hugmyndafræði SMILER fyrir um hundrað unglinga í 9. bekk. Ég spurði hvort þau tryðu að þau væru eitthvað meira en hold, vessi og bein – hefðu sál eða anda? Öll virtust rétta upp hönd, en hvar fá þau svo að ræða þessi andlegu mál?“

Gerum eitthvað skrítið og skemmtilegt

Í bókinni hennar, SMILER getur öllu breytt (fæst á Amazon), mælir hún með að fólk gefi sér leikdag af og til.

„Þar sem við erum ein með sjálfum okkur og gerum eitthvað skrítið og skemmtilegt. Enginn má vera með, því þú átt að ráða öllu! Teikna – lita – skoða í dótabúð – móta engil í snjóinn – bara hvað sem er.

Ég er svo með sérnám í leirlist en mála mest núorðið – sletti leir á striga, beint úr íslenskri jörðu. Bestu verkin mín verða til þegar ég er að leika mér, drullumalla og hugsa ekki um útkomuna. Sjá gegga.is.

Leyfðu þér að leika þér – það bætir þig og kætir!

Bókin SMILER getur öllu breytt seldist upp og kemur nú út í öðru upplagi í desember á Amazon, bæði á íslensku og ensku.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -