Miðvikudagur 8. maí, 2024
3.8 C
Reykjavik

Íslensk skip í gini úlfanna: „Og þá komu ljósrákirnar fljúgandi að skipinu með leifturhraða“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Mannskæðasta sjóslysaár Íslandssögunnar var fyrir 80 árum síðan – árið 1941, á tímum seinni heimstyrjaldarinnar. Þá lést 141 Íslendingur í slíkum slysum á hafi úti, sem mörg hver tengdust hernaðarátökum.

 

Reykjaborg

Í mars árið 1941 réðust þýskir kafbátar á þrjú íslensk skip; Reykjaborg, Fróða og Pétursey. Í árásunum voru 28 sjómenn sagðir hafa verið myrtir.

Í bókinni Vígdrekar og Vopnagnýr eftir Friðþór Eydal sagnfræðing, eru kaflar úr dagbókum þýsku kafbátanna U-552, U-74 og U-37. Þetta voru þeir kafbátar sem áttu að hafa gert árásir á ofantalin skip.

Í dagbókarfærslu U-552, sem réðist á Reykjaborg undir stjórn Erich Topps, kom eftirfarandi fram:

Kl. 20.52 skaut báturinn einu tundurskeyti að skipinu en það sprakk ekki.

- Auglýsing -

Fyrsta skotið reið af á 800 m færi. Annað skotið hæfði mastrið sem féll við og þar með talstöðvarloftnetið.

Sjóslysasaga Íslands segir svo frá upphafi árásarinnar: Allt í einu flugu eldblossarnir meðfram skipinu og dóu út í myrkrið fyrir aftan það. Hvað var þetta? Eins og ósjálfrátt slökkti Sigurður á sígarettunni og í þögulli eftirvæntingu skimuðu þeir félagar út um brúargluggana.

Þeim datt fyrst í hug flugvélaárás, en áttuðu sig strax á því að svo gat ekki verið. Stefna ljósrákanna hafði verið þannig. Ásmundur stýrimaður kom nú aftur upp í brúna og spurði hvað um væri að vera. Þeir sögðu honum frá ljósaganginum og hann ákvað þá að fara niður og vekja skipstjórann.

- Auglýsing -

Í sömu svifum yfirgaf Sigurður kyndari einnig brúna og hélt niður í vélina. Eyjólfur var einn eftir í efri brúnni. Og þá komu ljósrákirnar fljúgandi að skipinu með leifturhraða öðru sinni. Nú var ekki lengur um að villast. Það var kafbátur sem var að skjóta á skipið, og hann hlaut að vera mjög nærri.

Í þriðju hrinunni hittu þeir brúna. Kúlurnar fóru allt í kringum Eyjólf sem eins og ósjálfrátt kastaði sér niður og hnipraði sig saman. (Heimild: Morgunblaðið)

Reykjaborg var stærsti togari Íslendinga á þessum tíma, 685 br. tonn. Áhöfnina skipuðu þaulvanir menn, allir meðal færustu togaramanna landsins. Tólf áhafnarmeðlimir og einn farþegi fórust í árásinni.

 

Fróði

11. mars 1941 kom skipið Fróði ÍS 454 til hafnar í Vestmannaeyjum, mikið laskað eftir árás þýsks kafbáts. Sá kafbátur sem gert hafði atlögu að Fróða var U-74, undir stjórn kafbátaforingjans Eitel-Friedrich Kentrat. Fimm úr áhöfninni fórust og í raun er talið að eina ástæðan fyrir því að Kentrat kafbátaforingi hafi ekki klárað að gera út af við skipið sé sú að hann hafi óttast að Bretar væru að nota skipið sem agn, til að leiða U-74 í gildru.

 

Pétursey

Það var kafbáturinn U-37 undir stjórn Asmus Nicolais Clausen sem sökkti skipinu Pétursey. Lengi vel var ekki vitað um afdrif Péturseyjar, þó vissulega væri talið að skipinu hefði verið sökkt. Það var þó ekki fyrr en í september sama ár að brak úr skipinu fannst. Tíu fórust.

 

Hekla

Önnur mannskæð árás þýsks kafbáts á íslenskt skip var þegar eimskipinu Heklu var sökkt þann 29. júní sama ár, þar sem það var á siglingu frá Reykjavík til Halifax á Nova Scotia til að sækja matvörur.

Íslendingar lýstu yfir hlutleysi í upphafi stríðs og þótt Bretar hafi hertekið landið tók Ísland hvergi þátt í átökum. Það telst sérlega grimmdarlegt að ráðast á skip sem siglir undir fána hlutlausrar þjóðar, en í tilfelli Heklu ef til vill enn frekar, þar sem það skip var eingöngu ætlað til flutninga. Þjóðverjar töldu þó að árásir þeirra ættu fullan rétt á sér, vegna þess stuðnings sem Bretar fengu frá Íslendingum eftir hernámið, við birgðaöflun og aðdrætti.

Í grein Jóns Hákonar Magnússonar í Sjómannadagsblaðinu árið 2013, um það þegar Heklu var sökkt, segir meðal annars eftirfarandi:

Með Heklunni fórust 14 íslenskir sjómenn en sex komust við illan leik á fleka sem kanadískt herskip fann á reki í ölduróti Norður-Atlantshafsins nokkrum dögum eftir að skipið sökk. Vegna stríðsins gat herskipið ekki tilkynnt mannbjörgina fyrr en það kom til hafnar. Hernaðaryfirvöld sendu tilkynningu til Íslands um örlög Heklunnar 16. júlí, eða rúmlega tveimur vikum eftir árásina. Útgerðin og fjölskyldur áhafnarinnar voru þá þegar farnar að hafa áhyggjur af skipinu sem ekkert hafði heyrst frá.

Kafbáturinn sökkti skipinu með tundurskeyti sem sprengdi það í loft upp með þeim afleiðingum að það sökk á aðeins tveimur og hálfri mínútu. Annar björgunarbáturinn sundraðist en hinn komst aldrei á flot en þeir sem lifðu komust á björgunarflekann.

Einar Oddur Kristjánsson skipstjóri, Kristján Bjarnason 1. stýrimaður
og Jón Hákon Kristjánsson 2. stýrimaður voru meðal þeirra sem fórust í þessari lúalegu árás þýska kafbátsins. Þeir sem komust af telja að yfirmennirnir hafi lokast inni í brúnni.

 

Úlfahjarðirnar

Ástæða árása Þjóðverja á íslensk skip var sú að þeir vildu með öllum ráðum hindra birgðaflutninga til landsins eftir hernámið. Ráðamenn hér á landi höfðu treyst á að yfirlýst hlutleysi landsins myndi vernda íslensk skip fyrir árásum Þjóðverja, enda höfðu Íslendingar aldrei samþykkt veru Breta (og seinna Bandaríkjamanna) hér á landi – heldur var hernám eina leiðin sem Bandamenn sáu færa til að tryggja sér hina hernaðarlega mikilvægu staðsetningu.

Því var reynt að koma í veg fyrir árásir á íslensk skip með því að merkja þau vandlega með íslenska fánanum. Fáninn var í mörgum tilfellum einnig málaður á hliðar skipanna og lýstur upp að næturlagi til að vekja enn frekari athygli á þjóðerni skipanna. Allt kom þó fyrir ekki og Þjóðverjar létu yfirlýst hlutleysið ekki koma í veg fyrir árásir eins og segir að ofan.

Alls sökktu kafbátar Þjóðverja átta íslenskum skipum í seinni heimstyrjöldinni. Einnig sökktu þeir þremur erlendum leiguskipum í þjónustu Eimskipa og einn bátur fórst af völdum tundurdufls, svo vitað sé um.

Kafbátahernaður Þjóðverja var áhrifaríkur og bátarnir söfnuðust gjarnan saman í hópa til að leggja til atlögu. Hóparnir voru kallaðir úlfahjarðir og saman réðust hjarðirnar á skipalestir. Úlfahjarðir þessar voru nánast óstöðvandi og rifu í sig heilu skipalestirnar með vel skipulögðum árásum.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -