Miðvikudagur 11. september, 2024
9.1 C
Reykjavik

„Kjökrandi kjagaði ég með kúkinn minn heim“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Salernisaðstaða á vinnustöðum er víða bágborin. Gluggalaus rými í horni opinnar skrifstofu. Þar sem hljóðin margfaldast og magnast í dauðaþögninni. Lyktin á sér enga undankomuleið nema að læðast inn í vit vinnufélaga – sem lítt þurfa að geta sér til um hvaðan hún kemur. Eigin skítalyktin ku vera sæt en að deila henni og/eða búkhljóðunum forðast ég í lengstu lög – svo ég kúka heima.  

Ég er fyrir lengstu komin í fullorðinna manna tölu. Tek eigin ákvarðanir, greiði reikningana mína, sinni heimilisstörfum og almennum skyldum. En ég kúkaði samt á mig.

Atvikinu gleymi ég seint. Ég hafði haldið í mér í svolitla stund og ákveðið að gjörningurinn skyldi venju samkvæmt vera haldinn heima. Ég bjó steinsnar frá vinnustaðnum mínum og var því fótgangandi. Dagsverkinu skilaði ég með ágætum og fór að arka heim. Þrátt fyrir magann fann ég ekki fyrir verk, þetta var ekki þannig. Enginn ofsi, enginn asi … svo ég ákvað að reka inn nefið í verslun sem var með ágætis útsölu í gangi. Það var ansi margt sem heillaði og spennandi flíkur fönguðu augað. Ég greip með mér nokkrar meðan ég arkaði um verslunina og skundaði í átt að mátun. Ég fann magann herpast: „Nei, annars ég kem við seinna,“ hugsaði ég og lagði flíkurnar frá mér og strunsaði í humátt í átt að útganginum.

„SHIT!“

Þessi lykkja á leið mína hafði kostað mig dýrmætar mínútur og ég fann hvernig þarmarnir spörkuðu í mig innanverða. Við hvert skref, var bankað upp á. Við hvert fótmál fann ég  hvernig þyngdarlögmálið jók á þrýstinginn. Ég klemmdi saman á mér rasskinnarnar og herti á göngunni. Allar æðruleysis- og andlegar bænir voru rifjaðar upp. Allar hugleiðsluæfingar og þolinmæðisþrautir dregnar fram. Við hvert skref færðist ég nær heimili mínu. Við hvert skref færðist ég nær langþráðri skálinni.

„Þú getur þetta,“ klappstýrði ég fyrir sjálfa mig. „Þú ert alveg að ná í mark,“ keppnisskapið var skrúfað í botn. 

- Auglýsing -

Vopnuð húslyklunum og ekki nema um það bil hundrað metrum frá heimili mínu, varð mér ósigurinn óþægilega ljós. Ég áttaði mig á að ég hafði enga stjórn. Enginn herpingur, ekkert haldreipi, engin bæn gat sigrast á þeim velsmurða andskota sem læddist niður í þröngar buxurnar hjá mér. Fæðingu líkast. Hann einfaldlega kom, sá og sigraði.

Skömmin var óbærileg. Mér fannst eins og allir gestir veitingahússins sem ég gekk fram hjá  vissu hvaða ófögnuð ég bæri utan á mér. Kjökrandi kjagaði ég með kúkinn minn heim.

Reynslan kenndi mér sosum fátt, þar sem ég neita enn að kúka nema heima. Lærdóminn sem má draga af þessu öllu, ef lærdóm skyldi kalla, er að: fátt í þessu lífi er jafngott og spennulosandi en að kúka – þegar mikið liggur á.

- Auglýsing -

Lestu þennan pistil og fleiri í nýjasta tölublaði Mannlífs:

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -