Fimmtudagur 5. desember, 2024
-0.2 C
Reykjavik

Hann var eðlilega ekkert spenntur fyrir að fara á fjörurnar við konu af því að mamma hans vildi það

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Ég vann í verslun í nokkur ár og kynntist í gegnum starf mitt afar elskulegri konu sem ég leit smám saman á sem vinkonu þótt hún væri mun eldri en ég og gæti verið móðir mín. Ekki grunaði mig þarna fyrst að hún ætti eftir að verða mikill og góður örlagavaldur í lífi mínu.

Ömmusystir mín, talsvert yngri en amma, rak litla sérverslun árum saman í miðborginni og þegar hún fór að verða latari við að standa í búðinni bauð hún mér vinnu þar. Í raun dugði alveg að ég væri ein, það var alltaf eitthvað að gera en aldrei það mikið að það kallaði á fleiri við afgreiðslu, nema kannski fyrir jólin en þegar ferðamönnum fór að fjölga varð auðvitað mun meira að gera. Á þessum tíma var það ekki byrjað fyrir alvöru svo yfirleitt stóð ég vaktina ein. Ég get ekki sagt að það hafi verið gaman að hafa engan til að spjalla við þegar rólegt var, eins og á morgnana, en ég tók oft með mér bók til að lesa á meðan ég beið. Frænka mín átti húsnæðið sjálf sem gerði sennilega að verkum að búðin bar sig.

Eftir að ég hafði unnið þarna í tæpt ár fór að vinna í búðinni við hliðina mjög indæl kona, Hjördís. Þegar lítið var að gera buðum við hvor annarri yfir í kaffi. Það var eins og við hefðum alltaf þekkst og það sem við gátum hlegið saman. Foreldrar mínir bjuggu úti á landi og mér fannst ég hafa eignast aukamömmu í Höddu, eins og hún var alltaf kölluð.

„Hadda talaði stundum um yngsta barn sitt, son sem var tæplega þrítugur eins og ég og sagði að við tvö myndum nú aldeilis eiga vel saman. Værum með svipaðan smekk og skoðanir og alveg sama húmorinn.“

Hinn fullkomni sonur

Hadda talaði stundum um yngsta barn sitt, son sem var tæplega þrítugur eins og ég og sagði að við tvö myndum nú aldeilis eiga vel saman. Værum með svipaðan smekk og skoðanir og alveg sama húmorinn. Smám saman áttaði ég mig á því að henni var alvara með þessu þótt hún segði þetta í gríni. Hún minntist nokkrum sinnum á að hún vildi svo gjarnan fá mig sem tengdadóttur. „Auðvitað ættu tengdamæður að fá að velja tengdadæturnar,“ sagði hún og hló.

- Auglýsing -

Ég var svolítið hvekkt á þessum tíma, um svipað leyti og ég hóf störf í búðinni hafði ég hætt að vera með manni sem mér leið hreint ekki vel með. Hann hafði beitt mig miklu andlegu ofbeldi, sem ég áttaði mig ekki almennilega á fyrr en eftir að við hættum saman. Hann reyndi endalaust að breyta mér á allan hátt sem hafði haft slæm áhrif á sjálfstraustið þótt ég vissi að hann hefði ekki rétt fyrir sér. Ég var ekki sérlega spennt fyrir því að binda trúss mitt við annan mann í bráð.

Hadda var aldrei aðgangshörð og orðaði þetta ekki oft en ég vissi alveg að henni var alvara. Einu sinni sagði hún að hún ætti hreinlega að bjóða mér í mat og kynna okkur þannig en ég sagði að það yrði allt of vandræðalegt fyrst hún væri búin að tala um þetta við bæði mig og soninn. Hadda hafði víst talað mikið um mig við soninn en ef hún hefði ekki sagt mér það hefði ég eflaust látið vaða og mætt í mat. Fyrst hún hafði gert það hefði mér fundist matarboðið eins og verið væri að hleypa til, eins og sagt er í sveitinni.

Hadda átti þrjár dætur sem allar voru fluttar að heiman en sonurinn eini og yngsta barn hennar, bjó enn heima, þannig séð, eða í pínulítilli íbúð án eldhúss í kjallaranum.

- Auglýsing -

Hadda sagði mér seinna að hún hefði nagað sig í handarbökin yfir því að hafa minnst á þetta við bæði mig og soninn, auðvitað hefði hún átt að bjóða mér beint í mat og kynna okkur þannig, en hún var svo hvatvís og sagði iðulega hvað hún var að hugsa. Hvatvísin var eitt af því sem mér fannst svo sjarmerandi við hana.

Ég vissi það auðvitað ekki þá að hún talaði mikið um mig við soninn, miklu meira en um hann við mig, og reyndi að fá hann til að bjóða mér út, bara í bíó eða út að borða en hann var eitthvað tregur. Hann var eðlilega ekkert spenntur fyrir að fara á fjörurnar við konu bara af því að mamma hans sagði það og vonaði að hún hætti þessum afskiptum af ástamálum hans. Hann hafði séð mig álengdar þegar hann átti erindi við hana í búðinni og alls ekki litist illa á mig en hann sagði ekki orð um það við nokkurn, hann vildi stjórna sínum málum sjálfur.

Loksins!

Á þessum tíma vann ég oft um helgar við að þjóna til borðs á veitingastað sem foreldrar vinkonu minnar ráku. Hadda vissi vel af þessari aukavinnu minni og yfirleitt hvenær ég væri að vinna. Eitt sinn fékk hún þá „frábæru“ hugmynd að öll fjölskyldan, hún og eiginmaðurinn ásamt börnum og tengdasonum færu út að borða og kæmu mér þannig skemmtilega á óvart. „Þá hittist þið loksins og fallið hvort fyrir öðru, ég veit að þið gerið það, það er skrifað í stjörnurnar,“ sagði hún við soninn. Hann skellihló og sagðist ekki vilja gera mér það að fá alla fjölskylduna, eins og til að skoða hana, hann skyldi bjóða mér út.

Ég vissi auðvitað ekkert af þessu. Hadda var vissulega bráðlát og þegar henni fannst hún fá góða hugmynd lét hún yfirleitt vaða án þess endilega að hugsa út í afleiðingar.

Einn daginn hringdi Bjarki svo í mig og bauð mér á stefnumót. Hann sagðist hafa lofað mömmu sinni þessu, væri ekki bara sniðugt ef við hittumst svo hún hætti þessari endalausu hjúskaparmiðlun og léti okkur í friði. Ég var til í það og hló með honum.

Við vorum svolítið vandræðaleg í byrjun stefnumótsins en fljótlega fór feimnin af okkur og í ljós kom að við áttum sérlega vel saman, alveg eins og mamma hans hafði sagt. Hadda hefði auðvitað getað eyðilagt allt með því að tala stanslaust um þetta en hún gerði það alls ekki, heldur laumaði því að annað slagið. Hún var alls ekki óþolandi afskiptasama týpan þótt henni væri fúlasta alvara. Okkur fannst að minnsta kosti ekki eins og við værum að gera henni til geðs með því að verða hrifin hvort af öðru sem var óhjákvæmilegt eftir að við hittumst. Frekar að þrátt fyrir afskipti hennar höfum við náð saman. Við fórum að búa saman ekki löngu eftir að við hittumst.

Tengdamamma segir öllum sem á vilja hlýða að hún hafi handvalið mig, eða passað að ég slyppi ekki úr fjölskyldunni. Hljómar kannski ekki vel en ég hrósa oft „Hjúskaparmiðlun Hjördísar“ fyrir frábæran árangur. Við Bjarki hefðum eflaust ekki kynnst ef ekki hefði verið fyrir Höddu. Og þetta varð einhvern veginn aldrei vandræðalegt nema bara allra fyrstu mínúturnar á stefnumótinu. Ég hefði ekki getað kosið betri tengdafjölskyldu og Bjarki er alveg jafndásamlegur og mamma hans hafði sagt.

„Og þetta varð einhvern veginn aldrei vandræðalegt nema bara allra fyrstu mínúturnar á stefnumótinu. Ég hefði ekki getað kosið mér betri tengdafjölskyldu og Bjarki er alveg jafndásamlegur og mamma hans hafði sagt.“

Frábær fjölskylda

Við giftum okkur sumarið áður en ég varð þrítug en Bjarki átti einnig þrítugsafmæli þetta ár. Ég varð mjög glöð þegar fjölskylda hans gaf okkur ferð til London í afmælisgjöf, langa helgi, eða fjóra daga sem ég hlakkaði til að verja með honum. Ég var sú eina úr vinahópnum sem hafði aldrei til London komið svo tilhlökkunin var mikil.

Ég gargaði úr hlátri þegar við fórum að sjá fjölskyldu hans bregða fyrir víðs vegar um Leifsstöð á brottfarardaginn. Mamma hans að velja sér ilmvatn í Fríhöfninni, pabbi hans á bar og systur og mágar á þvælingi þarna, öll mjög sakleysisleg á svipinn. Lundúnaferðin okkar Bjarka breyttist í bráðskemmtilega fjölskylduferð. Ég held að Bjarki hafi haft einhvern grun um hvað stæði til, hann þekkir sitt fólk, en hann minntist þó ekki á neitt við mig. Á laugardagskvöldinu bauð fjölskyldan okkur Bjarka út að borða á geggjaðan matsölustað. Þetta er ein skemmtilegasta utanlandsferð sem ég hef farið í og þegar vinkonur mínar spurðu mig hvort ég hefði ekki orðið fyrir vonbrigðum að fá tengdafjölskylduna með í rómantísku ferðina, harðneitaði ég því. Ef eitthvað er, gerðu þau allt svo miklu skemmtilegra.

Við Bjarki eigum tvö börn og annað þeirra heitir auðvitað í höfuðið á uppáhaldshjúskaparmiðlaranum mínum, annað kom ekki til greina.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -