Föstudagur 26. apríl, 2024
2.1 C
Reykjavik

Lilja hjólar í háar arðgreiðslur fyrirtækja: „Kemur alltaf verst niður á tekjulægstu heimilunum“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Lilja Alfreðsdóttir, viðskiptaráðherra, tekur undir gagnrýni verkalýðshreyfingarinnar á háar arðgreiðslur fyrirtækja á sama tíma og verð fer ört hækkandi. Hún segir mikilvægt að allir leggist á eitt til þess að draga megi úr verðbólguþrýstingi. Vísir greinir frá þessu.

„Það er alveg ljóst að verðbólgan kemur alltaf verst niður á tekjulægstu heimilunum og því þurfum við að gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að draga úr verðþrýstingi,“ segir Lilja í samtali við Vísi og segir stjórnvöld þurfa að vera vakandi fyrir þróuninni.

Verðbólga mælist nú 8,8 prósent og hefur ekki verið hærri í þrettán ár. Spár gera þó ráð fyrir því að verðbólga nái jafnvel tveggja stafa tölu í sumar.

Lilja segir stjórnvöld hafa lagt sitt af mörkum til þess að minnka verðbólguþrýstinginn, til að mynda með því að draga úr útgjaldasvigrúmi stjórnvalda og lækka afslátt á áfengi og tóbak í fríhöfninni.

Mynd/skjáskot RÚV

Á meðan verð í samfélaginu fer hækkandi hafa ýmis fyrirtæki greitt sér háan arð, til að mynda Hagar, sem högnuðust um fjóra milljarða króna á síðasta ári og greiða út ríflega tvo milljarða króna í arð. Festi, sem rekur Krónuna og N1, greiðir út 1,6 milljarða króna arð á árinu. Háar arðgreiðslur fyrirtækja hafa víða verið gagnrýndar, til að mynda af verkalýðsfélögum, Alþýðusambandinu og Neytendasamtökunum.

Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, sagði til að mynda í samtali við Mannlíf í febrúar að nú sem aldrei fyrr væri þörf á því að bæði bankar og önnur fyrirtæki drægu úr arðsemiskröfum sínum.

- Auglýsing -
Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna.

„Nú er bara komið að því að atvinnulífið sýni þá stillingu sem atvinnulífið krefst alltaf af launþegum þegar launþegar eru að semja um laun og kjör,“ sagði Breki. „Það er það sem við getum gert; að krefja fyrirtæki um ráðdeild og að þau rói sig aðeins í arðsemiskröfum.“

Lilja Alfreðsdóttir er sammála gagnrýni Neytendasamtakanna og verkalýðsfélaga.

„Vegna þess að þetta er þannig að við þurfum öll að líta í eigin barm og leggja okkar að mörkum til að stuðla að því að það dragi úr verðbólguþrýstingi og styðja við seðlabankann, þannig að hann þurfi ekki að fara í mjög umfangsmiklar stýrivaxtahækkanir,“ segir hún í samtali við Vísi. „Vegna þess að þær þýða eitt; það er minni neysla, það er minni fjárfesting, minni hagvöxtur og minni kaupmáttur og það kemur illa við okkur öll.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -