Föstudagur 26. apríl, 2024
5.1 C
Reykjavik

Ragnhildur sálfræðingur: „Stundum eru einkenni kvíða misskilin sem dónaskapur“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -
Ragnhildur Þórðardóttir sálfræðingur biður netverja um að vera vakandi fyrir kvíðahegðun annarra sem gæti á suma virkað sem dónaleg. Hún segir að kvíðahegðun sé ekki persónuleg árás á nokkurn mann heldur varnarviðbrögð kvíðasjúklingsins.
Ragnhildur, sem flestir þekkja betur undir nafninu Ragga nagli, er sálfræðingur að mennt með áherslu á heilsusálfræði. Hún er einnig lærður einkaþjálfari og er hún virk að deila fróðleik um heilsusamlegt líferni meðal annars á samfélagsmiðlum sínum, á fyrirlestrum, með greinaskrifum og svo hefur hún einnig gefið út bók um efnið.
Ragga Nagli er dugleg að fjalla um mikilvæg málefni á Facebook-síðu sinni og að þessu sinni tekur hún fyrir kvíðahegðun:
„Kvíðaeinkenni geta oft verið misskilin sem dónaskapur. Ofurárvekni fyrir umhverfinu og viðbrögðum annarra leiðir oft af sér hegðun sem virkar dónaleg fyrir sumum.
Manneskja með kvíða svarar ekki skilaboðum í marga daga því hún veit ekki hvað sé nógu gott svar. Skrifar jafnvel langa munnræpu en strokar út jafnóðum margsinnis áður en ýtt er loksins á send-takkann.
Oft er erfitt að horfa beint í augun á einhverjum þegar líkaminn er sósaður í kvíðaeinkennum af hjartslætti og hnút í maga, svo þau forðast augnsamband í samtölum.
Manneskja með kvíða getur virkað óáreiðanleg því hún aflýsir hittingum á síðustu stundu og finnur fyrir létti en samviskubiti samtímis.
„Hvað ef ég þekki engan í partýinu.“ „Ég treysti mér ekki að hitta neinn núna.“
Og hún gæti látið sig hverfa úr partýum því aðstæðurnar verða yfirþyrmandi erfiðar.
Manneskja með kvíða getur virkað hrokafull þegar hún er bara sjúklega feimin.
„Ég þekki engan hérna, og enginn vill tala við mig. Ég ætla bara að sitja úti í horni og skrolla símann af því ég þori ekki að blanda geði.“
Manneskja með kvíða getur verið þögul í samskiptum, því hún er að analýsera í öreindir allt sem hún segir. „Verð að passa allt sem ég segi. Hvað ef henni finnst ég vera leiðinleg.“
Manneskja með kvíða getur átt erfitt með að einbeita sér í samtali við einhvern því hún er þjökuð af allskonar áhyggjum. „Hvað ef yfirmaðurinn skammar mig fyrir að skila skýrslunni of seint.“ „Gleymdi ég kannski nestinu hjá barninu í morgun.“
Manneskja með kvíða getur virkað óákveðin, þegar hún er skíthrædd við að taka ákvörðun og standa með henni. „Hvað ef ég ákveð bíómynd og hún er leiðinleg, og allir verða fúlir út í mig fyrir að eyðileggja kvöldið“
Manneskja með kvíða getur verið þreytuleg, því hún á erfitt með að festa svefn þegar hugsanirnar eru á Formúluhraða að endurspila atvik og endurupplifa áföll og losa streituhormón. „Ohh ég var svo asnaleg í saumaklúbbnum. Átti aldrei að segja þennan brandara. Mér líður ömurlega yfir þessu rifrildi við Jóa í fjármáladeild, ég hefði átt að standa betur með mér.“
Það er mikilvægt að átta sig á að þetta er ekkki dónaskapur heldur er manneskja með kvíða að bregðast við óbærilegum innri einkennum sem enginn sér.
Þegar við áttum okkur á hegðunarmynstri og kvíðaviðbrögðum, eigum við auðveldara með að sýna manneskjunni samkennd og skilning, í stað þess að verða móðguð og pirruð.
Þeirra hegðun er ekki persónuleg árás í okkar garð, heldur þau að vernda sjálfið sitt.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -