Miðvikudagur 30. október, 2024
4.9 C
Reykjavik

Rannveig Borg: „Var orðin háð því að kasta upp þar til það leið yfir mig”

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Rannveig Borg, lögfræðingur og rithöfundur segir hræðilegt að missa tökin á eigin lífi inn í heim fíknar. Rannveig, sem er nýjasti gesturinn í podcasti Sölva Tryggvasonar  glímdi í áraraðir við átröskun, sem bjó til mikla skömm og fór með hana á dimma staði:

„Mér finnst ennþá á ákveðinn hátt erfitt að tala um átröskunina. Þetta er svo persónulegt og það fylgir þessu skömm. Ég var ekki nema átta níu ára, þegar fyrstu merkin gerðu vart við sig. Svo varð þetta alvöru vandamál í kringum fermingaraldurinn. Þá byrjaði ég að þyngjast og fór að svelta mig og þróa með mér búlimíu. Svo náði þessi vítahringur algjöru stjórnleysi sem í raun tók alveg yfir líf mitt. Þetta verður að vana fyrst, en svo verður maður háður þessu og það er í raun eins og brautirnar í heilanum séu orðnar fastar og þörfin í að kasta upp verður svo sterk að ekkert kemur í veg fyrir að það gerist. Þegar ég var búin að taka stór köst og kasta mikið upp fékk ég hálfgerða lömunartilfinningu, enda er maður búinn að missa sölt og fleira úr líkamanum. Það var nánast eins og að það liði yfir mann þegar þessi köst voru sem verst og ég man eftir tímabili þar sem ég gat ekki sofnað öðruvísi en að vera í þessu ástandi. Það hljómar skrýtið, en ég var á ákveðinn hátt orðin háð því að komast í þetta lömunarástand,“ segir Rannveig, sem er alveg sannfærð um að átraskanir, sérstaklega búlimía séu án nokkurs vafa fíknisjúkdómur:

„Það eru ekki allir sammála mér um að átröskun sé fíkn en því meira sem ég læri í fíknifræðunum er þetta alveg augljóst í mínum huga. Ég upplifði stjórnleysi, ég réði ekkert við þetta og reyndi endurtekið að hætta og vissi að þetta hefði verulega  neikvæð áhrif á mig og mitt líf. Samt gat ég ekki hætt. Hvernig getur þetta verið annað en fíkn?“

Rannveig er búsett í Sviss, þar sem hún starfar sem lögfræðingur. Hún hefur nú verið frjáls frá fíkninni í 25 ár og segist vilja hjálpa til við að auka skilning á þessum hlutum:

„Mig langar aldrei að upplifa þetta stjórnleysi aftur og ég vil fræða fólk þannig að umburðarlyndi gagnvart fíknisjúkdómum aukist. Það er algjört helvíti að missa stjórn á sjálfum sér og það vill það enginn. Það velur enginn sjálfur að missa tökin og fólk sem glímir við fíknisjúkdóma á ekki að þurfa að upplifa alla þessa skömm. Mitt markmið er að leggja lóð á þær vogarskálar að skömmin sé ekki lengur til staðar.“

Rannveig fór ung í nám í Frakklandi og það var enginn dans á rósum að fara ein í stóra borg glímandi við átröskun og óttast að hlutirnir myndu ekki ganga upp. En hún var byrjuð að ná sér út úr því versta þegar hún flutti út og segir að það hve krefjandi námið var hafi á endanum verið hluti af því að koma sér á beinu brautina:

- Auglýsing -

„Ég var ekki orðin nógu góð í frönsku þegar ég flutti og var ein í París, þó að ég hafi átt góðan kærasta á þessum tíma. En mér fannst það bara verulega erfitt að vera ein í lítilli íbúð í París á þessum tíma og námið var mjög krefjandi. Fyrstu tvö árin voru virkilega krefjandi og erfið. En ég þurfti að hafa svo mikið fyrir náminu til þess að eiga möguleika á að láta þetta ganga upp, þannig að ég varð að hafa líf mitt í jafnvægi. Ég held að það hafi hjálpað mér að ná tökum á átröskuninni og það var á þessum árum sem ég byrjaði að ná mér upp úr átröskuninni. Einhvern vegin vissi ég djúpt innra með mér að ég yrði að ná stjórn á lífi mínu ef ég ætti ekki að missa endanlega tökin á öllu.“

Í þættinum ræða Sölvi og Rannveig um bókaskrif, ADHD, lögfræði og fleira. Rannvegi segist komin á mjög góðan stað í sínu lífi, þar sem hún hafi lært að lifa heilbrigðu lífi þar sem jafnvægi ríki:

„Ég elska að vera úti í náttúrunni, hreyfa mig og lifa heilbrigðu lífi. Það er það sem heldur mér í jafnvægi og lætur hlutina ganga upp. Ég hef á undanförnum árum lært að fyrirgefa mér fyrir bæði fíknina, öll árin af ógreindu ADHD og fleiri hlutum. Það hvernig mitt líf hefur þróast á sér sínar skýringar og erfiðu tímabilin hafa markast af ójafnvægi í heilastarfsemi og fleiri hlutum sem snúa ekki að því að ég sé ekki nógu góð manneskja. Ég sé að ég hef alltaf verið að gera mitt besta og skil söguna mína betur núna. Það að líf mitt hafi verið óhefðbundið á köflum er í lagi og ég hef lært að taka það í sátt.“

- Auglýsing -

Hægt er að nálgast viðtalið við Rannveigu og öll viðtöl og podcöst Sölva Tryggvasonar inni á solvitryggva.is

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -