Laugardagur 27. apríl, 2024
3.1 C
Reykjavik

Ruðningshaugar valda víða óþægindum í Reykjavík: „Orðið svolítið mikið núna og þetta tekur tíma“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Víða um Reykjavíkurborg er erfitt fyrir gangandi vegarendur að komast leiða sinna vegna ruðningshóla sem myndast hafa að undanförnu.

Í Facebook-hópi íbúa Breiðholts birtist nýverið ljósmynd sem sýnir afleit vinnubrögð starfsmanns Reykjavíkurborgar en þar sést hvar snjóhaug hefur verið rutt inn í undirgöng en myndina má sjá hér fyrir neðan:

Þetta getur ekki talist til góðra vinnubragða?
Ljósmynd: Facebook

Víða má sjá heilu fjöllin af snjó sem búin hafa verið til er götur hafa verið ruddar að undanförnu en eftir standa fjöllin og blokka bæði sýn ökumanna sem eru að keyra inn á götu, og neyðir gangandi vegfarendur til þess að ganga út á götu með tilheyrandi slysahættu.

Hér má sjá nokkur dæmi:

Snjóskafl við bílastæði í Vegmúla. Mynd/Lára Garðarsdóttir
Hátt í fjögurra metra háum skafli hefur verið rutt í Ármúla yfir gangstétt. Mynd/Lára Garðarsdóttir
Skaflinn er svo hár og skyggir svo mikið á að ógjörningur er að sjá aðsvífandi umferð nema fara út á akbrautina. Mynd/Lára Garðarsdóttir

Eiður Fannar Erlendsson, sem stýrir vetrarþjónustu Reykjavíkurborgar segir að reynt sé að keyra með snjóskafla sem myndast á opin svæði en þetta taki allt tíma og sé dýrt. „Við reynum að keyra með þetta eins og hægt er, sem stystu leið inn á opin svæði sem eru á opnu borgarsvæði. En svo erum við líka með móttöku á snjó uppi á Sævarhöfða.“ Varðandi ruðninginn í undirgöngunum í Breiðholtinu sagði Eiður að það sé löngu búið að laga það og varðandi dæmin hér fyrir ofan, sagðist hann ekki alveg vera með á hreinu hvaða svæði væri átt við og spurði hvort það geti verið að haugarnir séu komnir til vegna moksturs einkaaðila út af bílaplani, sem stundum sé málið. „Það er hellings vinna í gangi en þetta er orðið svolítið mikið núna og þetta tekur tíma. Oft er erfitt að komast með tækin þegar það er umferð í gangi og svona, það hjálpar ekki. Og svo er oft erfitt að vera með mikla útgerð í gangi á nóttunni því þá er kvartað yfir hávaða. Þannig að það er ekki alltaf allt sem vinnur með okkur.“

Aðspurður hvort snjóað hefði meira í vetur en síðasta vetur var Eiður ekki alveg á því en að það hefði snjóað minna í einu en yfir lengra tímabil. „Síðasta vetur snjóaði miklu meira á skemmri tíma og setti mjög margt úr skorðum og það var mikil ófærð á götum. Núna hefur snjóað miklu minna magni en yfir lengra tímabil. Og það hefur alveg gengið vel að halda samgöngum góðum og færðin er alveg ágæt en svona eins og þú segir, þá eru hrúgur og ruðningar víða fyrir en það ættu allir að geta komist leiða sinna samt. Það er vissulega óþægindi hér og þar en færðin yfir það heila ætti að vera góð.“

- Auglýsing -

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -