Föstudagur 26. apríl, 2024
7.1 C
Reykjavik

Sigga Dögg um kyrkingarnar: „Það hljómaði eins og ég væri bara með þetta á glæru fjögur“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Sigríður Dögg Arnardóttir kynfræðingur, eða Sigga Dögg eins og hún er alltaf kölluð, hefur verið í þungamiðjunni á heitri og oft óvæginni samfélagsumræðu undanfarið. Sú umræða fór af stað eftir að Sigga Dögg hafði sótt námskeið um fyrirbæri sem kallast „breath play“ og deilt upplýsingum af námskeiðinu sem henni þótti bæði áhugaverðar og mikilvægar, á Instagram-síðu sinni. Hún sagði unglinga oft spyrja um kyrkingar í kynfræðslu; eitt af fjölmörgum atriðum sem spurt er um á námskeiðum hennar og hún stígur inn í með krökkunum á grundvelli samþykkis og fræðslu.

Sigga Dögg er í nýjasta helgarviðtali Mannlífs.

Misskilningurinn um kyrkingarnar

Sigga Dögg kemur inn á hinar alræmdu kyrkingar og þá staðreynd að ákveðnir einstaklingar virðast hafa misskilið málið nokkuð duglega. Svokallað breath play námskeið, sem Sigga Dögg hafði talað um á Instagram-reikningi sínum, var námskeið fyrir fullorðna, sem hún sótti sjálf sem gestur. Það var erlendur sérfræðingur sem hafði verið fenginn til þess að halda námskeiðið. Sigga Dögg hélt það semsagt ekki sjálf.

„Ég vissi mjög lítið um breath play. Maður hafði heyrt um kyrkingar og það var nú einmitt fyrirsögn í DV, þar sem ég var gagnrýnd fyrir að gagnrýna kyrkingar. Það er vandlifað í þessum heimi.

„Mér dytti aldrei í hug að segja við unglinga: Ekki gera það“

En í mínum huga er þetta eitthvað sem er hættulegt, það þarf að passa sig. Ef fólk fílar það, allt í lagi. Mér dytti aldrei í hug að segja við unglinga: Ekki gera það. En þegar ég hef verið spurð út í það hef ég alltaf lagt gífurlega áherslu á að þetta sé rosalega vandasamt. Ég var með hóp þar sem við vorum að tala um þetta, og ég sagði: „Ef kynlíf byggir á samtali og samþykki, virku samþykki, þar sem þarf reglulega að fá samþykki fyrir öllu sem er verið að gera – ef manneskjan getur ekki tjáð sig, þá er samþykki ekki til staðar. Ef manneskjan er meðvitundarlaus, þá er ekki samþykki til staðar. Hvað eruði að gera þegar þið eruð að þrengja að öndunarvegi?“ Þá fórum við í gegnum það ef þú vildir ekki gera þetta; hvað ef þú vildir ekki fá hönd á háls, hvað ef þú vildir ekki leggja hönd á háls. Fram og til baka í þá dýnamík. Og ég sagði: „Kannski er bara spennandi að prófa í smá stund að leggja hönd á háls og sjá hvernig það er. Hvernig líður þér með að vera höndin? Hvernig líður þér með að vera hálsinn? Þá þarf aftur að tékka inn; hvað finnst okkur um þetta? Hvernig líður þér og hvernig líður mér?“ Þannig að við höfum alltaf talað um þetta á svona ótrúlega mildum og þægilegum, mjúkum nótum. Aldrei þannig að þetta sé bara: „Heyrðu og svo, einn, tveir og let’s go!“ Þetta er aldrei þannig og hefur aldrei verið þannig. Mun aldrei verða. Ekki heldur fyrir fullorðna. Ég myndi aldrei mæla með því fyrir neinn að vera með neitt surprise element í kynlífi. Spurðu, áður en þú gerir.

Á þessu breath play námskeiði var farið í allskonar tækni, það var farið í öryggisatriði, meðal annars eitt sem ég deildi strax á Instagram, sem er upphafið að þessu öllu saman. Ég lærði semsagt á námskeiðinu að það eru tvær æðar á hálsinum og ef þú klemmir þær báðar þá stöðvarðu blóðfæði og þar með súrefnisflæði upp til heilans. Þegar fólk er að leika sér með kyrkingar, þá meina ég til þess að láta líða yfir sig, þá er það að gera þetta. Þetta getur byrjað að valda skaða innan tíu sekúndna, held ég. Mér fannst ég verða að segja frá þessu.

- Auglýsing -

Ég man eftir þessu, að krakkarnir voru að gera þetta þegar ég var í grunnskóla. Ég reyndar gerði þetta ekki, af því að ég var hrædd. En vinkonur mínar gerðu þetta og það var sérstakur staður á skólalóðinni þar sem krakkarnir voru að þessu.

Ég hefði nú bara viljað að einhverjir sjúkraliðar eða læknar hefðu gripið inn í umræðuna hér. En mér skilst semsagt að ef manneskjan rankar ekki við sér innan þessara tíu sekúndna, þá getur það farið að valda súrefnisskorti í heila, sem er mjög hættulegur. Þá getur verið erfitt að vinna aftur einhvern óafturkræfan skaða.

Ég hugsaði bara: „Fólk er búið að vera að leika sér með þetta, er fólk að gera þetta þannig að það er kannski að líða yfir það? Kannski er það orðið kikkið.“

- Auglýsing -

Svo ég fór strax um kvöldið, eftir námskeiðið, á Instagram og sagði: „Ég verð að segja ykkur! Hérna eru tvær æðar og þið verðið að passa, ef þið eruð að leika ykkur með þetta, að gera þetta ekki svona. Við lærðum þessa tækni; þá geturðu farið, ef þú vilt, fastar og harðar. Ef ykkur finnst það æsandi. Bara ekki þessar æðar! Þetta er mál sem er búið að vera vinsælt og í deiglunni, ég tek þetta oft fyrir í skólum þegar það er spurt um þetta og ég hef útskýrt samþykki fyrir krökkunum.“

Krakkarnir hafa spurt til dæmis um rassskellingu. Þá tek ég samþykkisumræðu með þeim og útfærslan okkar er rassskelling. Þá tökum við þetta alveg frá því að ég er með hugsunina: „mig langar að rassskella þig“ eða „mig langar að þú rassskellir mig“ og þá tökum við samtalið alveg frá A til Ö. Áður en rassskelling á sér stað, í fyrsta samtali, þangað til hún er búin – ef það var samþykki fyrir rassskellingu. Við tökum þetta alveg fyrir og kryfjum. Við höfum gert það líka með þetta hálstaksmál. Þá hef ég alltaf verið að leggja gífurlega áherslu á hvað þetta er hættulegt og vandasamt og afhverju sumum þyki þetta æsandi og hvernig það lítur út.

BDSM samtökin eru yfirleitt ekki með fræðslu fyrir einstaklinga undir 18 ára. Þannig að hvað áttu að gera við þennan hóp? Tíundi bekkur til framhaldsskóla.

Svo á þessu breath play námskeiði var margt sem ég hugsaði að ég myndi ekki fræða um. Það var sum tækni þarna sem ég áleit svo hættulega að ég hugsaði: „Ef ég verð einhvern tíma spurð út í þetta, þá mun ég bara segja nei. Mér finnst þetta of langt gengið. Ekki gera þetta, þetta er ógeðslega hættulegt.“

„Það hljómaði eins og ég væri bara með þetta á glæru fjögur“

Krakkar hafa leikið sér með allskonar. Það er ástæða fyrir því að það stendur á pokum: Ekki setja yfir haus á barni. Á ákveðnu aldursbili máttu börnin mín ekki sjá poka, þá var hann farinn á hausinn á þeim. Hvað er það? Það er form af breath play – og við fáum náttúrulega taugaáfall. Ég set hnút á alla poka, af því að ég er svo paranoid yfir þessu. Það var farið fyrir það meðal annars á þessu námskeiði og það var talað um allskonar form af munnmökum og ég var bara: „Munnmök? Munnmök sem breath play? Vá, hvað það er áhugavert. Vá hvað ég hef aldrei hugsað það.“ Þar var til dæmis talað um konuna sem stjórnanda.

Ég fer inn á Instagram til þess að segja frá því sem ég hafði verið að læra. Þannig byrjar þetta. Ég sagði þarna: „Vá, hvað það er mikið sem ég vissi ekki, sem ég get miðlað til fullorðinna.“ Svo sagði ég: „Og það er reyndar ógeðslega praktískt að vita þessa nákvæmu útfærslu, af því að það er oft spurt að þessu í kynfræðslu, unglingar spyrja oft að þessu og mér finnst mjög mikilvægt að vita nákvæmlega þetta upp á skaðaminnkun.“ Ég sagði að við töluðum oft um þetta mál og ég kallaði þetta kyrkingar, því þau kalla þetta kyrkingar. Þau tala yfirleitt ekki um hálstak, þau tala bara um kyrkingu. Ég sagði: „Þetta er búið að vera í deiglunni, ég er búin að þurfa að tala um þetta oft og við höfum bara stigið inn í þetta.“ Eitthvað svona. En það hljómaði eins og ég væri bara með þetta sem glæru fjögur.“

Sigga Dögg segir að hún hefði skilið viðbrögðin sem hún fékk, ef hún hefði sagt hlutina á þennan ýkta hátt sem fólk virtist halda að hún hafi gert.

„En þetta var bara: „Nýlega hefur verið meira um spurningar um þetta. Það kemur eitthvað inn, eitthvað trendar á tiktok, og þá þarf ég að taka það fyrir, þegar þau spyrja.“ Nema það smurðist út í að þetta væri í glærupakkanum mínum. Það er bara mjög stutt síðan ég var með kynfræðslu fyrir allan tíunda bekk, í nóvember, á Akureyri. Þar sátu kennarar inni í öllum tímum. Ég held að við höfum tekið þetta tiltekna umræðuefni fyrir í einum fyrirlestri af níu. Þá lékum við samþykki og mörk, til þess að sjá hvernig það virkaði. Þá einmitt sagði ég: „Hvernig leikum við þetta samþykki? Við erum ekki að fara að leika samfarir. Eigum við að leika rassskellingu?“ Þá svaraði einhver: „Já, leikum rassskellingu.“ Þá útskýri ég að ef við ætlum að gera þetta erum við búin að taka rosalega langt samtal. Svo slæ ég lauslega í borðið, tek þetta alltaf frá báðum hliðum og hef þetta kynlaust. Ég segi við krakkana að hérna séu það ekki kynhlutverkin sem móti þau.“

 

Lesið viðtalið við Siggu Dögg í heild sinni hér.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -