Laugardagur 27. apríl, 2024
2.1 C
Reykjavik

Skýtur fast á Ríkisútvarpið: „Það er fréttaflutningur RÚV sem er að verða hættulegur lýðræðinu“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Á dögunum var sagt frá því í fréttum að lögregluyfirvöld í Berlín hefði hafið rannsókn á Roger Waters úr Pink Floyd vegna þess að hann klæddist einhversskonar nasistabúningi á tónleikum þar í borg. Rithöfundurinn Helgi Ingólfsson bendir á að Roger Waters hafi gert þetta í áratugi og að um sé að ræða ádeilu, sem samfélög á árum áður áttu auðveldara með að lesa í en samfélög nútímans.

Í færslu á Facebook, sem vakti gríðarlega athygli, fer Helgi yfir málið og segir að samfélagslegur veruleiki hafi breyst frá því að Waters stóð á Potsdamer Platz í berlín árið 1990, í sama búningi og á dögunum með nokkurnveginn sömu táknmyndaumgjörð, án þess að yfirvöld gerðu nokkuð. Segir Helgi að tvennt hafi breyst frá þeim tíma. Annars vegar vaxi bókstafsskilningur sífellt og „síminnkandi skilningur almennings á hvers kyns ádeilur, ádrepur, paródíur og satírur.“ Og annars vegar það að stjórnvöld nýta sér nú þessa fáfræði almennings til að auka völd sín og minnka rétt listamanna til tjáningar. Þá skýtur Helgi föstum skotum á Ríkisútvarpið fyrir að birta gagnrýnislitla frétt af rannsókninni á Roger Waters. Lætur hann hlekk á frétt Rúv um málið fylgja færslunni og segir að fyrirsögnin ætti frekar að vera:  „RUV er gagnrýnislítill bókstafstrúarfjölmiðill sem framreiðir fréttir án skilnings á þjóðfélagsádeilu – jafnan að því marki að sé stjórnvöldum þóknanlegt, sem og ríkjandi rétttrúnaðarhugsun.“

Færsluna má lesa hér í heild sinni:

„Sumarið 1990, um hálfu ári eftir fall Berlínarmúrsins, stóð Roger Waters úr Pink Floyd fyrir stórtónleikum með flutningi á „The Wall“ á Potsdamer Platz í Berlín, en þarna hafði áður verið einskismannsland nærri hinum fallna Berlínarmúr. Um 350 þúsund manns eru taldir hafa hlýtt á tónleikana og hundruð listamanna komu fram. Öll táknmyndaumgjörð tónleikanna var í megindráttum sú hin sama og í dag. Þá voru einnig í gildi sömu lög í (Vestur-) Þýskalandi og gilda enn, um að ekki mætti birta ytri táknásýnd nasisma , en ekki sáu (vestur-) þýsk stjórnvöld ástæðu til að fjargviðrast yfir tónleikunum, enda skildu þau mætavel satíruna og paródískt og pólitískt gildi verksins.

Hvað hefur breyst síðan þá? Ekkert hjá Roger Waters í sjálfu sér varðandi verkið – sem er liklega sterkara en nokkru sinni fyrr í táknrænum skilningi. En tvennt hefur breyst í samfélagslegum veruleika. Annars vegar sívaxandi bókstafsskilningur og síminnkandi skilningur almennings á hvers kyns ádeilur, ádrepur, paródíur og satírur – með öðrum orðum miklu lélegra menningarlæsi. Hitt er svo að stjórnvöld í ríkjum sæta lagi og nota umrædda fáfræði og skilningsleysi til að þrengja að tjáningarfrelsi, takmarka möguleika listamanna á að tjá sig, auka völd sín á kostnað þessarar fáfræði o.s.frv. Og nú er Waters ekki lengur þóknanlegur stjórnvöldum.
Sjálfum leiðist mér heldur tónlist Roger Waters og ég er engan veginn sammála öllum baráttumálum hans. En hann er sýnilega óhræddur við að storka almenningsálitinu og stjórnvöldum með listsköpun sinni. Hann hefur barist gegn kúgun og múrvæðingu Ísraelsmanna gagnvart Palestínuaröbum og hann hefur barist ötullega gegn ólögmætri fangelsun Julians Assange – hann er hápólitískur, hávær og mjög sýnilegur, ólíkt hinum fyrri liðsmönnum sínum í Pink Floyd. Vegna skoðana sinna hefur RW sýnilega orðið óvinsæll meðal fjölmiðlamanna, og þá helst þeirra sem þrífast á sensasjónal-sjúrnalisma. Eins og Rowling, eins og Assange, er RW útskúfaður af einhverri blaðamannahjörð sem eltir rétthugsunaröldur á samfélagsmiðlum. RW er helst gagnrýndur fyrir afstöðu sína til stríðsins í Úkraínu (þar sem ég er honum ósammála), en hann hefur þó vissulega kallað innrás Rússa „ólöglega“ þótt hann hafi líka sagt að „ögrað hafi verið til hennar“.
En fyrirsögnin hér ætti ekki að snúast um Waters og rétt hans sem listamanns til að tjá sig um þjóðfélagsleg málefni. Fyrirsögnin hér ætti að vera: „RUV er gagnrýnislítill bókstafstrúarfjölmiðill sem framreiðir fréttir án skilnings á þjóðfélagsádeilu – jafnan að því marki að sé stjórnvöldum þóknanlegt, sem og ríkjandi rétttrúnaðarhugsun.“ Það er fréttaflutningur RUV og áþekkra fjölmiðla, sem er að verða hættulegur lýðræðinu, ekki prívatskoðanir eða táknanotkun RW. Svipað og með Julian Assange á nú að fara að rannsaka Waters fyrir glæpsamlegt athæfi og RUV leggst á árarnar. Svæsin notkun stjórnvalda á hættulega hrekklausum fjölmiðlum, sem eru jafnvel upp á þessi sömu stjórnvöld komnir, á sér sýnilega lítil takmörk.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -