Þriðjudagur 28. mars, 2023
-2.8 C
Reykjavik

Sonja er enn með innilokunarkennd eftir vistina á Upptökuheimilinu: „Ég fæ ennþá martraðir“

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Sonja Ingvadóttir var ein þeirra stúlkna sem vistaðar voru á stúlknaheimilinu Bjargi á árunum 1965 til 1967. Hún var 14 ára gömul þegar hún var send á heimilið og er ein þeirra stúlkna sem hefur sakað forsvarsmenn og starfskonur heimilisins um harðræði og ofbeldi.

Sonja var ein þeirra sem stóð að kæru á hendur Bjargi árið 1967. Á endanum var málið láta niður falla því ekki þóttu nægar sannanir fyrir hendi til þess að höfða opinbert mál. Bjarg varð seinna eitt þeirra vistheimila sem ríkið greiddi sanngirnisbætur vegna og þótti sennilegt að stúlkurnar sem þar voru vistaðar hefðu þurft að þola óforsvaranlega meðferð þeirra sem þar stjórnuðu og störfuðu.

Sonja og fleiri konur sem dvöldu á Bjargi hafa borið séra Auði Eiri Vilhjálmsdóttur þungum sökum, en hún átti frumkvæði að opnun Bjargs og starfaði þar þann tíma sem heimilið var opið. Hún er meðal annars sökuð um andlegt ofbeldi og að hafa vitað upp á hár hvers konar meðferð viðgekkst á Bjargi. Hún er sömuleiðis sögð hafa fyrirskipað einangrun og harkalega meðferð stúlknanna á Upptökuheimilinu í Kópavogi, þar sem þær hafi verið vistaðar fyrir veru sína á Bjargi og sendar á ef þær óhlýðnuðust.

Sonja segir sögu sína í fyrsta sinn opinberlega í ítarlegu viðtali í nýjasta tímariti Mannlífs.

Sótt í lögreglubíl

Sonja bjó hjá móður sinni og stjúpföður áður en hún var send á Bjarg.

„Ég reifst við móður mína og stjúpi minn vildi ekki hafa mig, hann vildi losna við mig. Elsta dóttir konunnar sem fæddi mig var farin að heiman og ég var eftir. Hann var búinn að eignast tvö börn með móður minni.

- Auglýsing -

Ég var fjórtán ára – sýndu mér þann fjórtán ára einstakling sem ekki rífst við foreldra sína eða er ósammála þeim. Þetta er svona þegar maður byrjar að fara inn í fullorðinsheiminn, með því að rífa sig frá foreldrum sínum – vera ósammála.“

Sonja segist hafa verið í mat heima hjá vinkonu sinni þegar lögreglubíll kom þar að og henni var gert að fara með lögregluþjónunum. Leiðin lá á Upptökuheimilið í Kópavogi.

„Ég fæ ennþá martraðir – 57 árum síðar. Ég var keyrð á heimilið í Kópavogi og lokuð inni í tólf fermetra, grænu herbergi, með járnrúmi. Það var enginn gluggi – ég sá ekki sólina. Það voru tveir ljótir, stórir lögregluþjónar þarna og læknir sem átti að rannsaka mig.“ Sonja útskýrir að þarna hafi átt að skoða kynfærasvæði hennar.

- Auglýsing -

„Ég neitaði því og þá spurði hún hvort hún ætti að láta löggurnar klæða mig úr. Það vildi ég ekki. Svo hún rannsakaði mig og sagði að þarna væri ekkert að sjá – enda hafði ég aldrei verið við karlmann kennd. Ég var lokuð þarna inni í eina viku.“ Hún segist á endanum hafa verið orðin svo illa haldin að hún fékk blóðnasir og féll í yfirlið.

„Ég fæ ennþá martraðir – 57 árum síðar“

Sonja segir eina konu sem starfaði á Upptökuheimilinu hafa reynt að hjálpa henni. „Hún leyfði mér að fara í bað og á baðherberginu var gluggi, sem ég reyndi að kíkja út um, til þess að sjá himininn.“

Sonja þarf að hætta frásögninni stutta stund.

„Ég er með innilokunarkennd eftir þetta. Ég get ekki verið í herbergi án glugga.“

Bjarg

Send á Bjarg

Sonja segir konuna á Upptökuheimilinu, sem reyndi að hjálpa henni, hafa rætt við séra Auði Eiri Vilhjálmsdóttur, sem kom að opnun stúlknaheimilisins Bjargs, átti raunar frumkvæði að því, og vann þar á meðan heimilið var starfrækt. Séra Auður Eir var lögreglukona á þessum tíma. Konan hafi sagt Auði Eiri að ekki gengi að hafa Sonju á Upptökuheimilinu lengur, þar sem henni liði afar illa.

„Eftir það var ég send á Bjarg. Þetta var viku áður en heimilið var opnað. Þau héldu mér þar í viku án þess að segja frá því. Þegar þau sögðu mér að ég ætti að fara á Bjarg sagði Auður Eir mér að ég ætti ekkert að vera að hugsa um móður mína, því hún væri búin að segja að henni þætti ekkert vænt um mig lengur og væri farin til Spánar.

Svona er þegar verið er að heilaþvo börn. „Foreldrar þínir elska þig ekki lengur.

Ég man alveg að þegar hún var að segja þetta við mig stóð lögreglukona hjá og horfði forviða á hana.

Ég held að stjúpi minn, sem ég vil samt ekki kalla það – maðurinn sem giftist móður minni – hafi farið til Auðar Eirar og beðið um að þær tækju við mér. Því hann vildi fara til Spánar með fjölskyldu sína og losna við mig.“

 

Viðtalið við Sonju má lesa í heild sinni í nýjasta tímariti Mannlífs.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -