Þriðjudagur 28. mars, 2023
2.8 C
Reykjavik

Svandís vill ekki tjá sig fyrr en Samkeppniseftirlitið hefur lokið skoðun

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Áhyggju- og gagnrýnisraddir heyrast víða í samfélaginu vegna fyrirhugaðra kaupa Síldarvinnslunnar á útgerðinni Vísi. Forsætisráðherra hefur lýst yfir áhyggjum af samþjöppun í sjávarútvegi en matvælaráðherra, sem sjávarútvegsmál heyra undir, telur ekki tímabært að tjá sig um málið fyrr en Samkeppniseftirlitið lýkur skoðun sinni.

Talsvert hefur verið fjallað um yfirvofandi kaup Síldarvinnslunnar á útgerðinni Vísi í Grindavík í vikunni. Samherji á ráðandi hlut í Síldarvinnslunni og ef viðskiptin ganga eftir munu fiskveiðiheimildir félaga með tengsl við Samherja nema meira en 25 prósentum af heildarkvótanum.

Ýmsir hafa lýst yfir áhyggjum af kaupunum, ýmist vegna aukinnar samþjöppunar í sjávarútvegi eða í tengslum við tortryggni í garð þeirrar yfirlýsingar að starfsemin muni áfram vera í Grindavík og ekki fara úr byggðarlaginu.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, tjáði sig um málið í vikunni og lýsti yfir áhyggjum sínum af því að samþjöppun í sjávarútvegi yrði of mikil eftir kaup Síldarvinnslunnar á Vísi. Hún sagðist hafa þá skoðun að það þyrfti að endurskoða regluverkið, bæði varðandi kvótaþak og tengda eigendur. Fyrirtækið mun ekki fara yfir löglegt kvótaþak eftir sameininguna, þar sem Samherji telst ekki tengdur aðili. Til þess að útgerðir teljist tengdar þurfa þær eða eigendur þeirra að eiga meira en helmingshlut hvor í annarri. Samherji á ráðandi hlut í Síldarvinnslunni, 32,64 prósent.

Katrín sagðist einnig hafa áhyggjur af áhrifum á byggðarlögin í landinu. Hún nefndi sömuleiðis tilflutning auðs sem ætti sér stað í kringum viðskipti af þessu tagi. Katrín sagði það vekja spurningar um gjaldtöku og bætti því við að um væri að ræða eitt þeirra atriða sem til skoðunar væru hjá matvælaráðherra, Svandísi Svavarsdóttur.

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, virðist ekki á sömu skoðun og forsætisráðherra. Hann sagðist ekki sjá ástæðu til þess að hafa áhyggjur af kaupum og sölu Vísis.

- Auglýsing -

Aðilar að viðskiptunum bíða nú eftir samþykki Samkeppniseftirlitsins, sem er með þau til skoðunar.

Blaðamaður Mannlífs hafði samband við Svandísi Svavarsdóttur, matvælaráðherra, vegna málsins. Af skriflegu svari frá upplýsingafulltrúa matvælaráðuneytisins að dæma telur Svandís ekki tímabært að tjá sig um viðskiptin.

„Ráðherra telur eðlilegt að Samkeppniseftirlitið skoði málið í heild sinni áður en hún tjáir sig,“ segir í svarinu. Þar kemur einnig fram að allsherjar endurskoðun á fiskveiðistjórnunarkerfinu sé nú í gangi.

- Auglýsing -

„Þegar er farin af stað vinna við að rýna fiskveiðistjórnunarkerfið og undir í þeirri vinnu er allsherjar endurskoðun á kerfinu – t.d. eignatengsl, gagnsæji, samþjöppun, byggðakvótar og strandveiðar.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -