Þriðjudagur 28. mars, 2023
-1.2 C
Reykjavik

Valmundur Valmundsson: „Óþolandi að geta ekki samið við okkur um nokkrar helvítis krónur“

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

„Það er ekkert að ske; lausir samningar,“ segir Valmundur Valmundsson, formaður Sjómannasambands Íslands, í viðtali við Reyni Traustason þegar hann er spurður hvernig slagurinn sé.

Og enginn að tala við ykkur?

„Jú, við erum búin að vera að hittast frá því að samningar runnu út en það er ekkert komið út úr því ennþá.“

Hverjar eru kröfurnar?

„Aðalkröfurnar núna eru að við fáum lífeyrissjóðina að fullu eins og aðrir, 15,5%. Við höfum ekki fengið þetta 3,5% eins og aðrir þjóðfélagsþegnar á almenna markaðnum.“

Hvernig stendur á því?

- Auglýsing -

„Útgerðin segir að við séum með svo hátt kaup að við þurfum þess ekki.“

Þetta er viðbótarsparnaðurinn?

„Já, þeir eru tilbúnir til að láta okkur hafa þetta en þá þurfum við að lækka skiptaprósentuna á móti og borga þetta sjálfir. Það er díllinn. En ég held að sjómenn vilji það ekki. Frekar sleppum við þessu.“

- Auglýsing -

Hvað með að sjómenn virðast vera frekar klofinn hópur; það er mikill munur á þeim sem eru með hæstu launin og þeim sem eru með lægstu launin. Er ekki erfitt að ná hópnum öllum saman um aðgerðir?

„Jú, ég held að það sé mjög erfitt. Ég er ekki viss um að uppsjávarsjómennirnir fari í verkfall upp á að bæta kjör línusjómannanna. Það hugsa ég ekki. Eða öfugt.“

Samningar hafa verið lausir síðan í desember 2019. Getið þið haft það svoleiðis?

„Nei, þetta er náttúrlega óþolandi ástand að vera með lausa samninga.“

Þorgerður Katrín sýndi okkur vöndinn.

Svo er alltaf verið að setja lög á ykkur.

„Já.“

Var þetta leyst síðast með lögum?

„Nei, en vöndurinn var klár. Það var búið að sýna okkur vöndinn. Þorgerður Katrín sýndi okkur vöndinn. Hann var klár ef á þyrfti að halda.“

 

Cheerios-pakki og vettlingar

Valmundur var orðinn formaður SÍ þegar síðasta verkfall skall á.

„Það var harðvítugt. Það stóð í 10 vikur og var mjög harðvítugt. Ég lenti að vísu í veikindum í miðju verkfalli; greindist með æxli í hausnum í desember og verkfallið skall á þá. Það var góðkynja. Það er þarna ennþá. Það er bara fylgst með.“

Hefur það engin áhrif á þig?

„Ég held ekki. Svo kom ég aftur rétt áður en var samið; um hálfum mánuði áður. Það var búið að greina þetta og ég mátti fara að vinna aftur. Svo sömdum við 17. febrúar 2019 og það var samþykkt með naumum meirihluta; það voru minnir mig 57% sem sögðu „já“.“

Svo fengu menn frían vinnufatnað líka.

10 vikna verkfall. 10 vikna launaleysi. Hvað fékkstu upp úr þessu?

„Menn sögðu Cheerios-pakka og vettlinga.“

En það er þó stórt mál Cheerios-pakkinn; það þýðir að sjómenn voru komnir með frítt fæði.

„Frítt fæði og þú borgar bara hlunnindaskatt af því. 500 eða 700 kall á dag. Svo fengu menn frían vinnufatnað líka. Það munar helling að menn eru búnir að losna við þann kostnað. Það voru pínu hnökrar á þessu fyrst. Útgerðin var að reyna að spara og kaupa eitthvað lélegt en þá fer meira af þessu og það er jafndýrt.“

Sjómannaafslátturinn var tekinn af ykkur. Hann var bitbein mjög lengi.

„Þetta var í restina komið upp í 1200 milljónir.“

Er þetta með sjómannaafsláttinn búið? Það er engin barátta að taka hann upp aftur?

„Nei. Við vorum með þetta inni í kröfunum okkar að útgerðin myndi bæta okkur þetta upp og þeir eiga í raun og veru eftir að gera það. Þeir skulda okkur það. Þetta var bara ríkisstyrkur sem þeir fengu á sínum tíma vegna þess að það var erfitt að ná í karla á sjóinn. Þannig byrjaði þetta.“

 

Vilja meira gagnsæi

Valmundur er spurður hvað honum finnist vera brýnast hvað varðar sjómenn í dag. Hver eru brýnustu málin að taka á?

„Við erum búin að vísa til sáttasemjara og erum búin að vera að funda þar núna með útgerðarmönnum. Aðalkröfurnar okkar eru sem sé meira gagnsæi í sambandi við fiskverðið og við viljum fá meiri upplýsingar um afurðaverð og annað í sambandi við uppsjávarfiskinn og líka botnfiskinn sem við getum treyst. Og við viljum fá sömu lífeyriskjör og aðrir landsmenn á almenna markaðnum. Okkur vantar þetta 3,5% upp á. Það er ekkert í boði frá útgerðinni nema að sjómenn borgi fyrir það sjálfir með lækkun á skiptaprósentu.“

Við höfum haldið um 30 fundi hjá sáttasemjara og það er ekkert að ske.

Valmundur er svo spurður hvernig hann ætli að leysa þetta núna með þessa kyrrstöðu.

„Það er spurningin. Þegar eins og sjómenn núna hafa þokkaleg laun þá eru menn ekki tilbúnir í að fara í harðar aðgerðir. Það er nú ýmislegt sem hægt er að gera. Við höfum til dæmis núna ekki skrifað undir neina sérkjarasamninga síðan í vor eins og við höfum oft gert, til dæmis varðandi makrílinn, en þá eru menn í samvinnu. Sjómannafélögin hafa ekki undirritað neina slíka samninga þó svo að menn séu að vinna í þeim. Og ef einhver fer í fílu um borð þá getur hann náð sér í meiri aur með því að fara í mál við útgerðina. En við nennum ekki að standa endalaust í einhverju þrasi um allt og ekki neitt ef ekkert kemur út úr því. Við höfum haldið um 30 fundi hjá sáttasemjara og það er ekkert að ske.“

Það kemur í ljós á næstunni hvort eitthvað verði eða hvort þið verðið samningslausir í sjö ár.

„Sjö ár eins og síðast. Ég vona nú ekki. Það er óþolandi að geta ekki samið við okkur um nokkrar helvítis krónur.“

 

Dallurinn fór alveg á hliðina

Valmundur er sjómannssonur en faðir hans, Valmundur Sverrisson, sem var frá Akureyri, drukknaði þegar sonurinn var þriggja daga gamall.

„Hann var að róa frá Reykjavík á litlum þilfarsbát; eiginlega bara trillu, og féll útbyrðis. Þeir voru tveir á. Hinn tók ekki eftir því; hann var frammi í en pabbi var á stíminu. Eitthvað hefur skeð sem enginn veit og hann fannst aldrei. Það hefur örugglega mótað mikið afa minn og ömmu, foreldra hans. Ég fann það í mínum samskiptum við þau.“

Valmundur yngri ólst upp frá eins árs aldrei hjá móðurömmu sinni og -afa á Siglufirði. „Þau voru orðin rúmlega sextug þegar þau tóku mig.“

Valmundur fór á sjóinn 16 ára gamall. Fór fyrst á túr á togara. Það var Stálvík sem var fyrsti nýsmíðaði skuttogarinn á Íslandi. „Þá var Hjalti Björnsson skipstjóri; sá mikli eðalkapteinn.“

Og unga manninum leist vel á sjómennskuna.

„Ég var að vísu svolítið sjóveikur í nokkra daga en síðan hefur sjóveiki ekki hrjáð mig. En maður var ekki uppburðarmikill innan um þessa jaxla sem voru þarna. Þvílíkir gúbbar. En mér var tekið vel og sérstaklega af einum, Sigurði Jónssyni sem var kallaður Siggi drumbur. Hann er ennþá lifandi og ég á honum mikið að þakka. Og undir hans verndarvæng kenndi hann mér; ég hafði að vísu þrætt nálar og kunni það en hann sé um að ég væri mér ekki að voða þarna.“

Valmundur segist ekki hafa farið marga túra á Stálvík. Hann fór síðan í Iðnskólann um veturinn og ætlaði að verða rafvirki „en það var ekki stuð fyrir því hjá mér. Ég fann að það átti ekki við mig að vera að læra mikið meira. Ég hafði engan áhuga á að læra. Þó þurfti ég ekki að hafa fyrir því þannig. Ég fór aftur á sjóinn og endaði á Sigluvík hjá Budda Jó. Sonur hans plataði mig í túr og þá var ekkert aftur snúið.“

Þar voru margir kjarnakarlar.

Við fengum brot á okkur úti í Víkuráli.

„Já, margir góðir þarna á Sigluvíkinni. Ég held að Buddi sé varkárasti skipstjóri sem ég hef verið með upp á mannskapinn að gera. Hann hugsaði um okkur eins og börnin sín. Tók aldrei neina sénsa á neinu. Ég held það hafi verið 1984 eða 1985 sem við fengum brot á okkur úti í Víkuráli. Við vorum að taka inn fyrir í kolvitlausu veðri. Vorum á grálúðu. Um nóttina heyrðum við helvítis læti og dallurinn fór alveg á hliðina. Þá kom brot á brúna og fóru nokkrir gluggar. Stýrimaðurinn var uppi og hann var heppinn að drepa sig ekki af því að það var radar í loftinu sem sjórinn tók sem fór í stólinn og tók hauspúðann af honum. Stýrimaðurinn náði að henda sér á stöngina til að slá af og hann slapp út af því.“

Það hefði ekki þurft að binda um þau sár.

„Nei, ekki ef hann hefði fengið helvítis radarinn í hausinn. Það hefði ekki verið gott. En þetta bjargaðist. Það drapst líka á hjá okkur. Það fóru lofttúðurnar á vélinni.“

Hann hefur farið alveg á hliðina.

„Nánast. En við náðum að loka gluggum. Það náðist að setja í gang en stýrið var farið út. Við þurftum að stýra niðri í stýrisvél með talíu. Það var hægt að handstýra með talíu.“

 

Fór í land

Valmundur hefur búið í Vestmannaeyjum um árabil en hann fór í Stýrimannaskólann í Eyjum og varð stýrimaður og skipstjóri.

Af hverju flutti hann til Eyja?

„Ég fór í land 1987 þegar sonur minn fæddist, seinna barnið okkar. Ég var búinn að vera áður í netagerðinni hjá Venna Hafliðasyni sem átti Neta- og veiðarfæragerð Siglufjarðar og var að spá í að fara að læra netagerð en svo var ekkert að gera þarna. Það var vitlaust að gera þegar rækjan var þarna sem mest fyrir norðan. Þá var verið að setja upp 20-30 troll yfir sumarið á netaverkstæðinu og viðhaldsvinna sem fylgdi því öllu. Svo var rækjan búin og það var ekkert að gera þarna og fiskverðið lágt á togurunum á þessum tíma, 1988/1989.“

Þannig að það var dauði og djöfull eins og það stendur.

„Já. Svo átti ég fullt af fólki í Eyjum á þessum tíma; móðursystur mínar voru þarna og öll þeirra börn. Og megnið af þessu fólki var sjómenn. Ég hringdi í einn sem ég þekkti sem var kvæntur móðursystur minni og spurði hvort hann gæti ekki reddað mér plássi í Eyjum. Það var komið daginn eftir.“

Þú fórst með börn og bú?

„Þau komu aðeins seinna. Um vorið.“

Hvernig er að búa í Eyjum?

„Það er frábært.“

Stundum hvasst.

„Já.“

Skipstjóri og stýrimaður sem heyrir undir Farmannasambandið. Svo dróst Valmundur einhvern veginn inn í það að verða forsvarsmaður háseta.

Ég fór aldrei í stýrimannafélagið.

„Ég var kominn inn í stjórn sjómannafélagsins Jötuns í Eyjum 1992-3. Elías Björnsson, sem þá var formaður, kom að máli við mig. Ég hafði komið á nokkur sjómannasambandsþing með Hafþóri Rósmundssyni frá Siglufirði; hann var foraður verkalýðsfélagsins Vöku þar og ég var þar í sjómannadeildinni. Og Elías fékk mig til að koma í stjórnina í Jötni. Svo fór ég í Stýrimannaskólann í Eyjum árið 1997 og varð svo stýrimaður eftir skólann. Þá var ég ennþá meðstjórnandi í Jötni og hélt því áfram og borgaði alltaf þangað mína skatta og skyldur. Ég fór aldrei í stýrimannafélagið. Svo varð ég formaður Jötuns 2007 þegar Elías hætti. Ég ætlaði að vera í eitt eða tvö ár en svo þurfti ég að hætta á sjó vegna þess að konan mín er lögblind og ég gat ekki hugsað mér að skilja hana eftir þegar hún missti sjónina svona mikið; að hún væri ein heima og enginn að hugsa um hana. Þannig að ég fór í land 2008 og tók þá alveg við sjómannafélaginu.“

Hægt er að horfa á viðtalið hér.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -