Fimmtudagur 25. apríl, 2024
9.8 C
Reykjavik

Vorboðinn í Ármúla er mættur: „Svo hafa þeir stöðvað umferð“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Heiðlóan hefur lengi verið kölluð vorboðinn ljúfi en þeir eru fleiri, vorboðarnir. Í Ármúlanum í Reykjavík mætir tjaldapar ár eftir ár og verpir á þaki Ísólar ehf. Tjaldurinn hefur ekki farið framhjá starfsfólki fyrirtækja á svæðinu en starfsfólk Hitastýringar hf. er með veðmál ár hvert um það hvenær hann lætur sjá sig.

Árum saman hefur tjaldurinn komið og lent á gluggasyllu byggingarinnar sem hýsir meðal annars Mannlíf, til að spóka sig en ofan á þaki fyrirtækis við hlið Mannlífs, Ísól ehf. hefur hann komið upp hreiðri.

Þakið er þakið grjóti og því tjalda tjaldarnir öllu til og er ljóst að þeir tjaldi ekki til einnar nætur því þar hafa þeir verpt og komið ungum sínum á legg frá árinu 1990.

„Þetta er svo gaman. Hann er vorboðinn okkar,“ sagði Helga Gabríela Guðmundsdóttir, starfsmaður Hitastýringar hf í samtali við Mannlíf en starfsmenn hafa tekið þátt í veðmáli um nákvæma dagsetningu á komu tjaldsins en í ár vann Jónas nokkur sem giskaði á daginn í dag en þá mætti einmitt tjaldurinn.

Vel gert Jónas!
Ljósmynd: Mannlíf

„Það er svo gaman að fylgjast með þeim, stundum spígspora þeir yfir bíla og svo hafa þeir stöðvað umferð einu sinni,“ sagði Helga sem þykir greinilega vænt um tjaldinn.

Eins og kom fram hér fyrir ofan verpir tjaldurinn alltaf á þaki Ísólar ehf. og hefur gert það síðan 1990.

- Auglýsing -

„Ég hef það eftir samstarfsmönnum mínum að tjaldurinn hafi byrjað að verpa hérna fljótlega eftir að húsið var byggt, þannig að það hefur verið í kringum 1990,“ sagði Jón Sveinsson, starfsmaður Ísólar ehf. í samtali við Mannlíf. „Þegar ungarnir eru orðnir fleygir hendir hann þeim fram af þakinu og smalar þeim svo upp að veg hér í Ármúlanum og fer með þá upp á tún hjá Fjölbrautaskólanum. Það er heilmikið ævintýri þegar þeir fara að reka þá upp brekkuna og yfir gatnamótin.“

Pétur, Jón og Brynjar eru ánægðir með vorboðann
Ljósmynd: Aðsend

Mannlíf heyrði í líffræðingnum og tjaldsérfræðingnum Sölva Rúnari Vignissyni og spurði hann út í lífaldur tjalda.

„Það er erfitt að reikna út meðalaldur fugla en við erum með metin sko. Eina leiðin til að vita aldur fugla er að setja á þá merki og sem betur fer hafa merki verið sett á fugla í Bretlandi frá næstum því 1800. Elsti breski tjaldurinn var að minnsta kosti 45 ára gamall.“

- Auglýsing -

Sölvi sagði einnig að um 30% tjaldsins á Íslandi væri staðfugl, dvelja hér allt árið um kring en 70% fer yfir á Bretlandseyjar yfir vetrartímann.

En af hverju kemur tjaldurinn alltaf á sama stað ár eftir ár?

„Lífslíkur fugla eru mjög litlar til að byrja með, eggin falla mjög oft frá, ungarnir eru oft étnir eða drepnir snemma. Og svo þegar þeir eru byrjaðir að fljúga og flögra, vita þeir oft ekkert hvað þeir eru að gera og fljúga bara eitthvað og eru bara óttalegir hálfvitar. Þá eru lífslíkurnar minni líka. Og svo ef þeir ná fullorðinsárunum, þá eru þeir komnir með reynslu og vita hvað þeir eiga að gera. Yfirleitt gera þeir þá nákvæmlega sama hlutinn ár eftir ár, vegna þess að þeir vita að það virkar.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -