Föstudagur 26. apríl, 2024
5.1 C
Reykjavik

Karitas: „Það var rosalega sárt. Ég missti af því að geta kvatt ömmu mína út af fjandans leik.“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Ég var að vinna í eldhúsi á meðgöngunni þannig að við lifðum á matarafgöngum. Við misstum húsið okkar þegar ég var ólétt þannig að við fluttum í bílskúrinn hjá frænku minni. Ég var að drepast í bakinu, sofandi á dýnu í gluggalausum bílskúr. Þetta gerðum við svo við gætum spilað.“

Þetta segir Karitas Valsdóttir í afar áhrifaríkri sögu á síðunni Lokum.is. Að baki síðunni standa Samtök áhugafólks um spilafíkn og telja þau spilakassa tímaskekkju og að þeir eyðileggi líf fólks. Fjölmargar átakanlegar reynslusögur er að finna á síðunni Lokum.is. Þar er einnig haft eftir Karitas að fíknin sé fljót að vinda uppá sig. Hún er rúmlega þrítug og hefur verið spilalaus í tæp fjögur ár. Hún missti allt vegna fíkninnar, hjónbandið, forræði yfir börnum og að lokum reyndi hún að fremja sjálfsmorð.

„Spilakassar voru ákveðinn flótti. Ég hef gengið í gegnum viðbjóðslega hluti. Ég var misnotuð, mér var nauðgað, þannig að ég var mjög reið sem ungmenni. Spilakassar voru staður þar sem ég gat komist burt frá öllu. Þar sem ég þurfti ekki að hugsa um neitt, starandi á maskínu. Þetta gaf mér frið frá öllu öðru,“ segir Karitas við Lokum.is og undir það síðasta var engin skemmtun fólgin í að stunda spilakassa, þetta var aðeins flótti og síðan feluleikur og kvíði yfir að útvbega peninga fyrir næsta spilaskammti.

Karitas og barnsfaðir hennar voru bæði spilafíklar. Hún hafði orðið ólétt 17 ára og sór þess eið að hætta að spila þegar barnið kæmi í heiminn. Karitas sem kveðst aldrei geta fyrirgefið sér að hafa ekki heimsótt dauðvona ömmu sína á spítala á meðan hún var virkur spilafíkill. Hún hafði ákveðinn tímaramma til að kveðja ömmu sína en fíknin hélt henni í heljargreipum og hún gleymdi sér í kössunum.

„Það var rosalega sárt. Ég missti af því að geta kvatt ömmu mína út af fjandans leik.“

Karitas upplýsir Lokum.is að hún hafi náð níu góðum árum þar sem hún hafði tök á fíkninni. Hún gekk í hjónaband og eignaðist tvö börn en varð kærulaus og hætti að mæta á fundi fyrir spilafíkla.

„Ég féll í fjóra til fimm mánuði og eyðilagði hjónabandið og hætti að eyða tíma með börnunum mínum. Ég reyndi að fara eins oft út í spilakassa og ég gat. Ég vissi að ég myndi tapa öllu, samt gat ég ekki hætt,“ segir Karitas sem að lokum tapaði öllu sem henni var kærast. Í dag hefur Karitas náð tökum á fíkninni og vonar að þeim verði lokað til frambúðar.

- Auglýsing -

Ítarlegt viðtal við Karitas má finna á Lokum.is ásamt fleiri reynslusögum um skelfileg áhrif spilakassa sem og annan fróðleik. Lokum.is má finna hér.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -