Föstudagur 26. apríl, 2024
6.1 C
Reykjavik

Magnús með heilaskaða eftir jólatónleika – „Þetta er þrautaganga“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Óttinn er mikill því ég á engan rétt eftir í Sjúkrasjóði Bandalags háskólamanna. Því er verið að sækja um eitthvað sem heitir endurhæfingarlífeyri fyrir mig. Ég veit ekki hvernig það virkar eða hversu mikil hjálp það er og ég hef haft miklar áhyggjur af fjárhagsstöðu heimilisin,“ segir Magnús Sigurjón Guðmundsson, betur þekktur sem Maggi Peran, en hann slasaðist illa við það að detta í hálku.

„Ég hef jafnvel velt fyrir mér að ljúga til um heilsufarið til þess að fá grænt ljós á að hefja vinnu en hef öðlast þá sýn í endurhæfingarferlinu að nauðsynlegt sé að doka við, hægja á og líta á þetta verkefni sem langhlaup. Sama hvað ég reyni þá kem ég mér ekki út úr stöðunni með neinum asa. Ég get ekkert gert til þess að vera flýta batanum. Þetta er þrautaganga – einn dag í einu,“ segir Magnús.

Eitt skref og lífið breyttist

Hann er þakklátur fyrir að vera á lífi í dag. Árið 2020 reyndist honum hrikalegt. Jólin 2019 blæddi inn á heila Magnúsar eftir fall í hálku auk þess sem höfuðkúpa hans brotnaði. Líf Magga breyttist við saklausa ferð á jólatónleika með konunni sinni. Áður hafði lífið leikið við Magga, hann hafði til að mynda barist við offitu en fór í magaermiaðgerð og hrundu af honum 60 kíló í kjölfarið.

Magnús kallar ekki allt ömmu sína.

Ekki sami maðurinn

„Félagsveran hefur dregið sig í skel. Orkuboltinn sem var alltaf með mörg járn í eldinum og vann best undir pressu á skyndilega erfitt með að gera tvennt í einu. Það versta er að ég er ekki sami maðurinn. Finn stundum ekki mun á gleði og hryggð því ég kann síður á tilfinningarnar“ segir Maggi.

- Auglýsing -

Maggi segist eiga mun erfiðara með einbeitningu og þekki sjálfan sig stundum ekki. Eirðin sé  minni, þrótturinn er oft á tíðum lítill, getan til að hugsa hratt skræld, sjónúrvinnsla augans brengluð og jafnvægisskynið er skert. Við þetta má bæta persónuleikabreytingum sem sérfræðingar kalla ákominn heilaskaða sem er dulin fötlun.

„Í dag er ég er með stöðugan svima, tíðan höfuðverk, viðvarandi svefnleysi og loks persónuleikabreytingar“ bætir Maggi við.“

Mörg járn í eldinum

- Auglýsing -

Maggi segir sína helstu stykleika fyrir slysið hafa verið að að vinna undir álagi og bregðast hratt og örugglega við.

„Ég elskaði að vera með mörg járn í eldinum og var virkur í allskonar verkefnum og félagsstörfum. Ég var félagslynd tilfinningavera sem elskaði að vera í kringum fólk og þreifst hvergi betur en þegar ég hafði nóg að gera. Núna átti ég allt í einu erfitt með að fara út í búð að versla því ég réð ekki margmenni. Allt áreiti var mér erfitt og í fámennum hópum fannst mér ég stundum vera staddur í hringiðunni á stórum flugvelli. Búðarferð í Krónuna varð mér ofviða eftir slysið og ég var að ærast yfir hávaðanum.“

„Ég sá stundum allt í móðu eða missti fókusinn. Ég var farinn að nota gleraugu að staðaldri en það hjálpaði ekki. Við áreynslu fékk ég þrýsting í höfuð og við augntóftina. Ég missti fókusinn og svimi var að koma í tíma og ótíma. Eins og ég væri með sjóriðu. Einnig hurfu bæði bragð- og lyktarskyn“.

Gríðarlegar skapsveiflur

Maggi segist ekki hafa fundið mun á gleði og hryggð og skapsveiflurnar hafi verið miklar. Áður hafði hann verið fljótur upp en fljótur niður en eftir slysið gat hann verið pirraður svo vikum skipti yfir ótrúlegri smámunasemi eða út af engri ástæðu.

„Ég réð ekki við geðslagið og gamla félagsveran var orðin af ófélagslyndum og hræddum manni. Svefninn var hræðilegur frá slysinu og þegar ég byrjaði að vinna þá versnaði hann enn meira. Stundum svaf ég bara 2-3 tima á nóttu og oft kom það fyrir að ég svaf ekki neitt. Mætti því til vinnu vansvefta og vinnutengd verkefni sem ég hefði auðveldlega rúllað upp fyrir slys reyndust mér afskaplega erfið“.

Hafði ekkert að gefa

Maggi hefur átt erfitt með að lesa efni og skilja það þar sem rökhugsun hvarf.

„Getan til að muna einföldustu hluti og skipuleggja verkefni vinnunar reyndist mér ógnar erfið. Ég upplifði mig vonlausan starfsmenn, maka, vin og glataðan föður. Ég hafði ekkert að gefa – hvorki í vinnu né í einkalífinu. Læknirinn sendi mig í blóðprufur og heilaskanna þar sem skoðuð var hormónastarfsemi líkamans og staðan á toppstykkinu. Það reyndist vera mar við heilann og hormónastarfsemin var ankaraleg“. Send var því inn beiðni á heilaskaðateymi á Grensásdeild Landspítalans og þangað komst Maggi inn fjórum mánuðum síðar.

Legg áherslu á núið

„Í millitíðinni leitaði ég til Ástu Árnadóttur sjúkraþjálfara sem gjörþekkir svona höfuðmeiðsl. Ásta reyndist mér gulls ígildi og án hennar hjálpar og fræðslu hefði ég aldrei gefið þessari vinnu alla þessa athygli. Hún gerði mér ljóst að nauðsynlegt væri að vinna markvisst að batanum“.

Maggi hefur undanfarin misseri verið í endurhæfingu á Grensás þar sem hann tekur hæg skref í átt að bata. Núna ætlar hann að leggja áherslu á að vera í núinu.

Magnús hefur< í endurhæfingu til að ná aftur vopnum sínum.

Efst í huga Magnúsar í dag er þakklæti.

„Ég hef lært á þessu rúma ári hugtökin þakklæti og auðmýkt. Þakklæti fyrir það að vera á lífi. Þakklæti fyrir þá sem standa mér næst og hafa sýnt mér skilning, ást og fúsleika til að rétta mér hjálparhönd í hvívetna. Þakklæti fyrir skilning bæði fyrrum og núverandi vinnuveitanda. Auðmýkt yfir því að geta ekki gert margt af því sem ég gat áður,“ segir Maggi og bætir við hverju hann miði að.

„Njóta stundarinnar. Lifa hollara lífi. Hreyfa mig meira. Borða hollari mat. Efla mig andlega. Sofa betur. Hlusta á ráðleggingar fagaðila og hlýða. Gera rækileg og siðferðileg reikningsskil í lífi mínu. Sækjast eftir framförum en ekki fullkomnum.  Ég kann illa að slaka á en verð að hlýða, segir Maggi“.

Var fljótt kippt niður á jörðina

„Ég komst inn á Grensás í október sl. og ætlaði bara að drífa endurhæfinguna af því ég vissi í raun ekkert hvað tæki við. Fagaðilarnir voru fljótir að kippa mér niður á jörðina og gera mér það ljóst að þetta væri langhlaup en ekki spretthlaup. Í fyrstu reyndi ég að segja allt það sem ég taldi að þau vildu heyra svo ég gæti útskrifast og haldið áfram með lífið. Þau sáu í gegnum mig og sögðu mér að ég þyrfti að gefa batanum tíma og hef ég fengið ómetanlega hjálp frá heilaskaðateyminu.

Tekið var á málum Magga af festu. Hann gekkst hann undir rannsóknir og markvissa endurhæfingu frá læknum, sjúkraþjálfurum, sálfræðingum, iðjuþjálfa. Þá gekkst hann undir taugasálfræðilegt mat. Í ljós kom að hann með eftirheilahristingsheilkenni og áfallastreituröskun. Auk þess hafði sjónin snarversnað en það merkilegasta var að sjónskekkjan var farin! Hafði sennilega horfið við fallið.

Verð að stilla álagið

„Sjónúrvinnslan var mér erfið og þegar ég var að vinna að verkefnum sem kröfðust þess að ég var að fókusa á smátt letur og svo líta upp þá fór allt af stað. Mig sundlaði og ég mér fannst eins og ég væri að missa meðvitund. Sviminn kom og fór og ég áttaði mig ekkert á hvað ég gæti gert til að sporna við því. Þórdís sjúkraþjálfari á Grensás kenndi mér að stilla álagi á líkamann þannig að ég réði betur við þetta,“ segir Magnús.

Maggi fékk ný gleraugu sem hafa hjálpað mikið í hans nýja lífi.

„Við tóku æfingar á líkama og með hjálp iðjuþjálfa öðlaðist ég ný vopn í bakpoka reynslunnar til þess að búa mig undir daglegt amstur á nýjan hátt. Þar fékk ég stuðning og æfingar í því að skipuleggja daginn þannig að ég nái betur utan um verkefnin. Þar skipti ég deginum í margar smáar lotur með reglulegri hvíld. Ég gæti þess að fara ekki í aðstæður sem setja mig út af laginu og stíla inn á að versla ekki á háannatíma. Ég þarf að loka að mér þegar ég þarf að einbeita mér og ég þarf að æfa mig í lestrarþoli og getu til að vinna þó umhverfisáreiti sé til staðar. Mér fer fram þó enn sé langt í land“.

Nýlega sagði Maggi starfi sínu lausu sem stöðvarstjóri hjá Íslandspósti. „Ég játaði mig sigraðan því ég veit að ég þarf mun meiri hjálp og tíma til að gefa líkama mínum færi á að jafna sig. Við tekur umsókn í VIRK og þar fæ ég vonandi að halda áfram með skrefin í átt að bata. En í raun veit ég voða lítið um VIRK.“

Gamla Peran er horfin

„Ég er ekki sami Maggi Pera og ég var og verð væntanlega aldrei. Sálfræðiviðtölin á Grensás hafa verið mér það bjargráð sem ég er þakklátastur fyrir. Sóley sálfræðingur hefur hjálpað mér að vinna með tilfinningar sem hafa sprottið fram á sjónarsviðið. Reiði, skömm, depurð, vonleysi, rörsýni og botnlaust magn af sjálfsniðurrifi. Ég fór í ákveðið sorgarferli þegar ég þurfti að kveðja gamla manninn og bjóða þann nýja velkominn. Þegar ég horfði í spegil þá hataði ég allt sem ég sá. Maðurinn sem var með nokkuð sterka sjálfsmynd og meðvitaður um styrkleika og veikleika sína sá allt í einu enga styrkleika. Mér fannst ég ekki eiga neina von. Lífið væri búið. Ég væri enginn akkur fyrir vinnuveitendur mína, fjölskyldu eða vini. Ég væri flatur og vonlaus fýlupoki sem væri einskis nýtur. Með hjálp Sóleyjar sálfræðings þá öðlaðist ég smá neista og vinn í því að gera þennan neista að skíðlogandi báli. Nú byrjar nýtt líf og nú þarf ég að átta mig á hvað nýi Magnús vilji gera í lífinu. Hvernig vinna muni henta mér. Hvernig verkefni ég ráði við. Æfa mig svo og taka eitt skref í einu. Vegna óttans um fjárhagsstöðuna þá setti ég kaldhæðnislegt tíst á Twitter um að ég myndi opna síðu á Onlyfans til að bera björg í bú. Verð þó að hryggja aðdáendur þunnhærðra miðaldra manna – því það tíst var einungis létt glens segir Maggi og glottir.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -