Miðvikudagur 29. júní, 2022
12.4 C
Reykjavik

Móðir kynferðisbrotaþola: „Kerfið brást barninu mínu“

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Móðir ungs barns sem sætti kynferðisofbeldi af hálfu tveggja jafnaldra sinna segir kerfið, þar á meðal skólayfirvöld, hafa brugðist barni sínu. Eftir að upp komst um ofbeldið sem átti sér m.a. stað innan skólans, hafi fjölskyldan ítrekað lent á veggjum.

Móðir ungs barns sem brotið var á kynferðislega af samnemendum þess segir kerfið algjörlega hafa brugðist barni sínu. „Það sem ég hélt að myndi taka utan um okkur og hlúa að barninu mínu stóð okkur ekki til boða, því ofbeldið var ekki talið nógu alvarlegt þar sem um jafnaldra væri að ræða,“ segir konan, sem vill ekki koma fram undir nafni af tilitssemi við barn sitt.

Móðirin, sem vill ekki koma fram undir nafni af tilitssemi við barn sitt og ekki tilgreina skólann af sömu ástæðu, segir í samtali við Mannlíf að getuleysi skólayfirvalda í málinu hafi komið henni stórlega á óvart. Fjölskyldan leitaði til skólans eftir að upp komst um ofbeldið og í kjölfarið hafði skólinn samband við Barnahús um næstu skref. „Ég útskýrði í stuttu máli fyrir sálfræðingi hjá Barnahúsi hvað hafði gerst og svörin komu mér mjög á óvart,“ lýsir hún. „Hann sagði að Barnavernd myndi að öllum líkindum ekki vísa málinu til þeirra og mælti með því að námsráðgjafi eða hjúkrunarfræðingur skólans ræddu við börnin sem áttu í hlut. En með fullri virðingu fyrir þessum tveimur starfsstéttum þá veit ég ekki til þess að þær hafi sérþekkingu í að meðhöndla kynferðisofbeldi barna,“ segir móðirin, henni er mikið niðri fyrir þegar hún rifjar upp viðbrögðin sem hún fékk.

„Okkur var tjáð að það mikilvægasta í þessu væri að gera lítið úr því sem hefði gerst þegar rætt yrði við börnin, svo að þau upplifðu ekki að þau hefðu gert neitt rangt; til að takmarka skaðann og skömmina. Enda væru þetta ung börn á grunnskólaaldri, haldin eðlilegri forvitni og þar af leiðandi væri þetta í raun saklaust. Það kemur bara alls ekki heim og saman við lýsingar barnsins míns sem upplifir mikla skömm og vanlíðan eftir þetta.“

Brotin framin í skólanum og á heimili besta vinarins
Móðirin segir að umrædd brot hafi átt sér stað á mismunandi tímum síðastliðin ár. Nemandi, barn sem hafði sjálft verið kynferðislega misnotað og sýnt óviðeigadi hegðun í skólanum, hafi brotið á barni hennar í sundi, með því að káfa á því og meiða það.

Annar nemandi sem hafi fram að því verið besti vinur barnsins, hafi læst það inni í herberginu heima hjá sér og fengið það til að taka þátt í kynferðislegum athöfnum. Nokkuð sem hafi svo endurtekið sig minnst tvisvar sinnum í skólanum. „Barnið mitt vildi þetta ekki,“ segir móðirin sorgmædd. „Það var læst inni með „vininum“ og gat ekki komið sér úr aðstæðum. Þetta er barn sem barnið mitt treysti og hafði alltaf litið á sem vin. Þessi gjörningur var kynntur fyrir barninu mínu með nafni og sagt að þetta væri leyndarmál. Það finnst mér ekki passa við skilgreininguna sem ég fékk hjá Barnahúsi um að þetta sé forvitni og saklaust. Barnið mitt fyllist mikilli reiði þegar rætt er um þessa atburði á þann hátt sem Barnahús talaði um, sem á að „minnka skömmina og skaðann“.“

„Barnið mitt vildi þetta ekki. Það var læst inni með „besta vininum“ og gat ekki komið sér úr aðstæðum. Þetta var barn sem barnið mitt treysti og hafði alltaf litið á sem vin.“

Hún viðurkennir að það hafi komið henni í opna skjöldu að börn væru fær um svona verknaði. „Þetta kom mér algjörlega á óvart því ég taldi að svona hætta stafaði aðeins af fullorðnu fólki eða unglingum og hef þess vegna brýnt fyrir börnunum mínum að vera með vinum sínum. Allra síst átti ég von á því að besti vinur barnsins míns myndi brjóta á því.“

Kom að lokuðum dyrum
Móðirin segist hafa verið í sjokki eftir að ofbeldið komst upp og svörin frá Barnahúsi hafi í raun gert áfallið meira. Hún hafi ákveðið að leita næst til forsvarsfólks forvarnarverkefnisins Blátt áfram þar sem fræðslumyndband frá því, Leyndarmálið, segjum nei, segjum frá, sem sýnt var í skólanum, hafi verið það sem leiddi til þess að barnið opnaði sig upphaflega um ofbeldið við foreldra sína. Þar fyrst hafi hún fengið aðstoð við að koma málinu í ferli og í raun hafi Blátt áfram reynst ómissandi í að koma því öllu í sem bestan mögulega farveg.

- Auglýsing -

„Ég sendi skriflegt erindi á sálfræðistofu þar sem ég útskýrði brotin, líðan barnsins míns og greindi frá svörunum frá Barnahúsi,“ segir konan, en þegar þarna var komið við sögu hafði hún fengið þau svör hjá nokkrum sérfræðingum að engin sálfræðistofa tæki svona mál að sér. Þau ættu öll heima hjá Barnahúsi. „Þau hjá stofunni sem ég leitaði til spurðu hvort við vildum þiggja tíma þar sem þetta væri nú ekki þeirra sérsvið eða bíða frekar eftir því að komast að hjá sérfræðingi á einkastofu, sem allir mæltu með að væri rétti sérfræðingurinn að leita til. En ég þáði tímann því barninu mínu leið mjög illa og það leit ekki út fyrir að við kæmumst að hjá hinum sérfræðingnum á næstunni,“ segir hún og bætir við að þetta sé mjög vandasamt því ekki sé talið æskilegt að barn sem hafi upplifað ofbeldi segi frá því oftar en einu sinni. Barn hennar hafi svo komist að hjá sérfræðingnum og fái nú hjálp við að vinna úr reynslunni og ná tökum á betri líðan eftir brotin.

Barnið var meðal annars beitt ofbeldi í skólanum að sögn móðurinnar.

„Núna eiga allir að vera vinir og láta eins og ekkert gerðist“
Konan kveðst einnig hafa leitað til Barnaverndar í framhaldinu og þar fengið þau svör að með hliðsjón af því að þetta eru ung börn og jafnaldrar þá gæti Barnavernd ekkert aðhafst í málinu. „Því var bætt við að Barnahúsi væri líka frjálst að vísa málum frá og því ætlaði Barnavernd ekki að vísa málinu áfram til þeirra. Sú sem ég talaði við skildi samt áhyggjur mínar og fannst þetta ekki í lagi,“ tekur konan fram. „Hún sagði að næstu skref mín ættu að vera að ræða við skólastjórann um eftirlit í skólanum. Skólanum bæri að mæta þörfum nemenda sinna.“

Hún segir að skólayfirvöld hafi aftur á móti ekki stutt nægilega við bakið á barninu eftir að ofbeldið komst upp, langt í frá. „Ég ræddi við skólann og það var farið yfir það hvernig viðbrögð hans væru og lýst hvernig væri verið að bæta eftirlit innan skólans. Skólinn óskaði eftir því að sálfræðingurinn skrifaði Barnavernd svo það kæmi fjármagn fyrir aukaaðstoð ofan á það sem skólinn legði fram væri nú þegar. Mér finnst þó mesta orkan þeirra fara í að hlúa að nemendunum sem brutu gegn mínu barni, þar sem annað barnanna, þetta sem hafði áður sjálft lent í kynferðislegu ofbeldi, hefur fengið einhverja aðstoð vegna brotsins. Þau telja sum brotin gegn mínu barni vera of gömul til að skipta máli. Þau styðjast við þá túlkun Barnahúss að þetta sé saklaust og að börn séu forvitin. Ég veit ekki til þess að skólinn hafi rætt við barnið sem braut á barninu mínu í sundi eða foreldra þess en skólinn ræddi við hitt barnið sem braut á barninu mínu og það hefur beðist afsökunar. Ég upplifi þetta þannig að skólinn telji sig búinn að bregðast við, barnið hafi beðist afsökunar og núna eigi allir að vera vinir og láta eins og ekkert hafi gerst.“

„Ég upplifi þetta þannig að skólinn telji sig búinn að bregðast við, barnið hafi beðist afsökunar og núna eigi allir að vera vinir og láta eins og ekkert hafi gerst.“

- Auglýsing -

Það sé hins vegar alveg fráleitt, enda glími barn hennar enn við afleiðingar ofbeldisins sem hafi haft gríðarlega mikil og erfið áhrif á líf þess sem og allrar fjölskyldunnar. „Barnið mitt hefur orðið fyrir ofbeldi sem það sjálft hefur hvorki þroska né þekkingu til að vinna úr. Það segist ekki vilja hugsa um þetta en það fær endurteknar martraðir um ofbeldið á nóttinni og minningar um það poppa ítrekað upp yfir daginn með tilheyrandi vanlíðan. Þetta hefur haft hræðileg áhrif á sjálfstraustið, traust þess á eigin dómgreind og öryggiskennd. Barnið á erfitt með einbeitingu, þjáist af lystarleysi, kvartar undan óþægilegri tilfinningu í maganum á morgnana og líður illa þegar það er rólegt eða þegar kominn er svefntími. Það er nóg ef eitthvað í umhverfinu minnir það á þetta, til dæmis fáklætt fólk í sundklefanum eða í sjónvarpinu eða bara lagatexti í útvarpinu, og þá fyllist það vanlíðan og viðbjóði. Svona ofbeldi er ekki hægt að taka til baka.“

Segist móðirin vera reið og sár yfir afstöðu skólans og henni finnst erfitt að umgangast foreldra barnanna sem hafi brotið á barni hennar. „Ég er líka reið út í sjálfa mig,“ játar hún, „og spyr mig hvað ég er að gera barninu mínu sem þarf að mæta í skólann daglega og umgangast börn sem brutu gegn því. En réttur þeirra sem fremja svona brot er svo sterkur að líki okkur ekki staðan, þá er það ég sem þarf að færa barnið mitt í annan skóla, ekki þau.“

Skólinn, foreldrarnir og börnin eiga að bjarga sér sjálf

Fundað var með skólayfirvöldum eftir að ofbeldið komst upp, en konan segir að þau hafi ekki stutt nægilega við bakið á barni sínu.

Konan segir að áður en barn hennar lenti í þessu hefði hún ekki trúað því, eins og áður segir, að kynferðisofbeldi gæti átt sér stað á milli svona ungra barna. Það sem komi henni þó enn meira á óvart í þessu öllu sé hvernig þessum viðkvæma vanda, það er að segja kynferðisofbeldi meðal ungra barna og kostnaðinum sem því fylgir, sé ýtt frá Barnavernd og Barnahúsi, sem samkvæmt lögum eigi að sinna þessum málaflokki, og yfir á aðra. Skólinn, foreldrarnir og börnin eigi bara að bjarga sér sjálf. „Mér finnst eins og það sé gert lítið úr tilfinningalegum upplifunum, bæði líkamlegum og andlegum hjá barninu mínu og þau virðast endurskilgreina hvað kynferðisofbeldi er vegna ungs aldurs barnsins og þeirra sem brutu á því. Upplifanir barnsins míns eru ekki teknar gildar,“ segir hún.

Hún telur að tryggja þurfi nægt fjármagn í þennan málaflokk og greiðan aðgang að raunverulegum sérfræðingum á þessu sviði, bæði fyrir þolendur og þá sem brjóta á þeim. „Ég myndi vilja sjá teymi sem skólinn gæti ráðfært sig við, kallað til fagaðila eða fengið hvaða úrræði sem gæti til dæmis gagnast til að taka rétt og vel á málum barna sem hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi eða sýna óeðlilega kynferðislega hegðun miðað við aldur. Þetta teymi gæti haldið utan um samskipti skóla og meðferðaraðila barna til að tryggja að meðferðaraðilar séu upplýstir um hegðun barnanna sem eru í meðferð svo að börnin hafi ekki færi á að misnota önnur börn,“ tekur hún sem dæmi, með hliðsjón af máli annars nemandans.

„Mér finnst eins og það sé gert lítið úr tilfinningalegum upplifunum, bæði líkamlegum og andlegum hjá barninu mínu og þau virðast endurskilgreina hvað kynferðisofbeldi er vegna ungs aldurs barnsins og þeirra sem brutu á því. Upplifanir barnsins míns eru ekki teknar gildar.“

„Þetta er gríðarlega viðkvæmur málaflokkur og mín upplifun er sú að kerfið sé að bregðast barninu mínu og öðrum börnum í skólanum,“ segir móðirin. „Skólinn vill gera vel fyrir öll börnin en ræður ekki sjálfur við umfangið. Hann skortir fagþekkingu til að bregðast rétt við og ná að stöðva óæskilega kynferðislega hegðun, telur sig til dæmis ekki fá nægilegan fjárhagslegan stuðning frá Reykjavíkurborg til að sinna öðrum áðurnefndum nemanda, það er að segja barninu sem hefur sýnt óæskilega kynferðislega hegðun í skólanum eftir að brotið var á því, og Barnahús leiðbeinir ekki nægilega vel. Ef Barnavernd og Barnahúsi finnst þessi mál ekki eiga heima hjá þeim, þá vantar klárlega úrræði fyrir þessi börn og taka betur á þessu. Við erum að tala um börn.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -