Föstudagur 26. apríl, 2024
7.1 C
Reykjavik

Nanna hundanuddari um hegðun dýra sinna nærri gosstöðvum: „Tíkin vissi af gosinu áður en það hófst“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Hænurnar haggast ekki, þær standa bara grafkyrrar. Kettirnir hvæsa hver á annan og hundarnir verða stressaðir,” segir Nanna Lovísa Zophaníasdóttir sem býr á jörð á Vatnsleysuströnd, rétt upp við gossvæði, um hegðun dýranna sinna á þessum tímum náttúruumbrota.

„Sjálf finn ég lyktina af gasinu og hún fer aðeins í augun en ég hef miklar áhyggjur af þessum pínkulitlu lungum í hænunum mínum. Þú lokar ekki hænurnar inni og kveikir upp í kyndingunni eins og okkur mönnum er sagt að gera.”

Nanna hefur tekið eftir breytingum á hegðun dýranna í þeim náttúruviðburðum sem hafa átt sér stað á svæðinu. „Stóra tíkin mín hékk dögum saman út í sama glugga áður en gosið byrjaði. Það var augljóst að hún fann lykt sem við fundum ekki. En dýrin hafa þann hæfileika að lifa í núinu, sem er eitthvað sem mannfólkið mætti temja sér. Eftir stuttan tíma verður það sem var ógnvænlegt áður, þeirra norm“.

Nanna á fimm hunda, sex ketti og þó nokkuð margar hænur. Hún er líka lærður hundanuddari. „Ég fór í þetta nám til Svíþjóðar fyrir 11 árum eftir að hafa starfað sem klæðskeri í 30 ár. Áður hafði ég starfað hjá hestadýralækni og það er margt til fyrir hestana, nuddarar, hnykkjarar og sérstakar sundlaugar. Aftur á móti var ekkert að hafa fyrir hunda og ketti.”

Sorgleg töskuhundatíska

Það er meira en nóg að gera hjá Nönnu og segir hún flesta hundana sem hún er með núna vera gamla gigtveika hunda svo og smáhunda sem dýralæknar senda til hennar. „Smáhundarnir hafa margir verið mikið í búrum eða verið í handtöskum meira eða minna allt sitt líf. Það kom einhver afar sorgleg töskuhundatíska á sínum tíma og við erum að súpa seyðið af því í dag. Þessi dýr hafa lítið sem aldrei fengið að hreyfa sig, hlaupa og sprikla um og fá í kjölfarið stoðkerfissjúkdóma. Það má kalla það lífsstílsjúkdóma. Þetta fer líka illa með dýrin félagslega. Umhverfið er þeirra Facebook, þau þurfa að hnusa um og vita hver var hvar“.

- Auglýsing -

Nanna segist vera að lifa drauminn. „Ég á uppkomin börn og núna get ég látið gamlan draum rætast um að ráða mér sjálf í sveitinni og fá mér eins mörg dýr og ég vil. Ég get reyndar sjaldnast sagt nei við nýjum dýrum. Þetta er eins og í ævintýrunum, hún lifði hamingjusöm til æviloka,“ segir Nanna Lovísa hundanuddari við gosstöðvar.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -