2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Reykjavíkurdætur sköpuð til að gefa konum pláss: „Við upplifum okkur ekki sem fórnarlömb“

Meðlimir Reykjavíkurdætra hafa í dag skotið fast á Önnu Svövu Knútsdóttur, en hún mun hafa gert grín að hljómsveitinni í uppistandssýningu Björns Braga Arnarssonar, en Anna Svava hitar þar upp.

 

Sjá einnig: Reykjavíkurdætur ósáttar við brandara Önnu Svövu: „Anna Svava komin í eitthvað grínþrot“

 

Steiney Skúladóttir og Þura Stína gagnrýndu Önnu Svövu á Twitter og segja hana komna í grínþrot og hafa stolið fjögurra ára gömlum brandara Emmsjé Gauta. Af orðum þeirra má sjá að Anna Svava hafi gert grín að íslenskum kvenröppurum.

AUGLÝSING


„Að segja að það séu engir góðir kvenrapparar á Ísland í dag er svo ljótt og ömurlegt djók, við erum að spila útum allan heim fyrir mörgþúsund manns og vinna alþjóðleg tónlistarverðlaun og Ísland er ennþá bara: Þið sökkið. Allar,“ skrifar Þura Stína.

Þura Stína
Mynd / Facebook

Bendir Steiney á að þó að Reykjavíkurdætur virðist ekki njóta mikilla vinsælda hér heima, þar sem þær hafa aðeins fengið eina beiðni um bókun það sem af er árinu, þá eigi ekki það sama við erlendis.


„Það er verið að bóka okkur á festivöl um allan heim, spila okkur á útvarpsstöðvum eins og BBC og við vorum að vinna verðlaunin besta up and coming hip hop band í Evrópu. Það er pjúra bara Ísland sem vill ekki sjá okkur. Þetta er svo ljótt kynjamisrétti að ég á ekki orð.“

Steiney Skúladóttir. Mynd / Heiðdís Guðbjörg

„Gagnrýni á Reykjavíkurdætur þarf að vera á málefnalegum grundvelli“ 

Þórdís Björk Þorfinnsdóttir meðlimur Reykjavíkurdætra og leikkona tjáir sig um málið í færslu sem hún skrifar á Facebook-síðu sinni. Þar bendir hún á að það sé besta mál að þær stöllur fái á sig gagnrýni, þó mögulega sé gagnrýnin meiri heldur en flest tónlistarfólk hér á landi hefur fengið.

„Það þurfa ekki allir að ELSKA RVKDTR enda er það ekki okkar markmið. Það má líka alveg gera grín

„En gagnrýnin þarf að vera á málefnalegum grundvelli. Og það á við um alla, hvort sem það eru listamenn, stjórnmálamenn eða hvað sem er. Af hvaða kyni sem er. Það er allt í fína að fýla ekki tónlistina okkar. Það er bara smekksatriði. Það þurfa ekki allir að ELSKA RVKDTR enda er það ekki okkar markmið. Það má líka alveg gera grín,segir hún og bætir við að málið snúast um meira og stærra en þennan eina litla brandara Önnu Svövu eins og Þórdís Björk orðar það.

Segir Þórdís Björk viðhorf almennings á Íslandi til Reykjavíkurdætra kristallast í gríni Önnu Svövu og segir hún það sorglegt að hópurinn sé enn að glíma við þann stimpill sem settur var á þær fyrir sex árum þegar þær gáfu út fyrsta lag sitt.

„Þegar RVKDTR byrjuðu þá vorum við flestar að stíga okkar fyrstu skref og ég held að ég tali fyrir okkur flestar þegar ég segi að fyrstu lögin okkar hafi bara alls ekki verið góð,“ segir Þórdís Björk og bætir við að allir séu einhvern tíma byrjendur og verði að fá tækifæri til að vera ófullkomnir og gera mistök.

Þórdís Björk Þorfinnsdóttir Mynd / Facebook

Mikil pressa um fullkomnun

Þórdís Björk segist hafa fundið fyrir mikilli pressu alveg frá byrjun um að vera fillkomin, þær hafi ekki mátt vera lélegar, hún viti þó ekki hvort að pressan hafi verið tilkomin vegna þess að þær voru konur.

„Að uppeldið sem við fengum eða samfélagið geri það að verkum að okkur finnst við „þurfa“ að vera fullkomnar. Það er ekkert meira heftandi en einmitt það, í listsköpun. Að líða einsog maður þurfi að vera fullkomin. Það er frábært að fá uppbyggilega gagnrýni og ræða það sem betur má fara og fá að vaxa sem listamaður. En maður þarf að fá pláss og frelsi til þess að vaxa. Maður þarf að þora að vaxa.“

Vilja ekki vera og upplifa sig ekki sem fórnarlömb

Segir Þórdís Björk að oftast taki hún og meðlimir sveitarinnar neikvæðar athugasemdir ekki til sín. Sigur þeirra liggi í frábærum tækifærum erlendis og fyrir það séu þær þakklátar.
„Við viljum heldur ekki vera einhver fórnarlömb. Og við upplifum okkur ekki sem fórnarlömb.“

Reykjavíkurdætur stofnaðar til að gefa konum pláss

Þórdís Björk segir að markmiðið með stofnun sveitarinnar hafi verið að ryðja brautina fyrir konur í tónlist, sérstaklega í hiphop-i. Og henni sé sama þó að tónlist þeirra sé ekki spiluð á útvarpsstöðvum hér heima, það er þó umræðan og gagnrýnin sem hún skilur ekki.

„Ég skil ekki afhverju við fáum mjög særandi og órökstudda gagnrýni á borð við „vond tónlist er vond tónlist,“ „það eru engir góðir kvenkynsrapparar á Íslandi,“ „fólk neyðist til þess að fýla ykkur því þið eruð svo PC”“eða „ þið eruð krabbameinsvaldandi helvítis feministarnir ykkar“ (mitt persónulega uppáhald). Ég bara skil þetta ekki. Þetta eru mjög háværar raddir og ég veit að þetta hefur haft mikil áhrif á okkur. Og já – meira að segja grjótharðir rapparar einsog við, eru líka með tilfinningar.“

„Mér líður stundum pínulítið eins og ég sé með áfallastreituröskun….Þarna voru strákar sem voru vinir mínir sem hlógu að þessu. Og ég þorði ekki að segja neitt.“

Hefur upplifað valdaleysi og niðurlægingu

Nefnir Þórdís Björk að degi eftir að Emmsjé Gauti birti tvít um sveitina fyrir fjórum árum hafi hún verið stödd í strákahópi og hafi aldrei upplifað sig jafn valdalausa og niðurlægða og þann dag.

„Mér líður stundum pínulítið einsog ég sé með áfallastreituröskun….Þarna voru strákar sem voru vinir mínir sem hlógu að þessu. Og ég þorði ekki að segja neitt. Þeim fannst þetta bara fyndið og sögðu „ég meina, þið sökkið náttúrulega!“. Ég held að þetta tvít hafi normalíserað á einhvern hátt hvernig fólk leyfði sér að tala um okkur og VIÐ okkur. Og ég held líka að þetta tvít hafi haft mjög djúpstæð áhrif á okkur sem tónlistarkonur. Þetta hafði amk. áhrif á mig og ég hef nú marga fjöruna sopið, andskotinn hafi það.“

Bendir hún að sveitin einsetji sér að þora, að gefa konum pláss, segja og gera það sem þeim sýnist, „bara svona einsog strákarnir gera. Og kannski hafa allir brautryðjendur þurft að þola svipaðan skít og við. Og já – ég sagði brautryðjendur. Því það er það sem við erum.“

Hvetur hún alla til að gefa ungum konum tækifæri til að vera þær sjálfar, hvetja þær, styðja við bakið á þeim og veita þeim uppbyggilega gagnrýni og leyfa þeim að þroskast, dafna og taka pláss.

„Annars er ég hrædd um að þessar ungu og upprennandi konur missi áhugann á því sem þær brenna fyrir – vegna þess að þær fá ekki pláss til að vera ófullkomnar.“

Að lokum segir Þórdís Björk að sveitin sé á leið til Hamborg að spila fyrir mörg þúsund manns.

„En ég meina, það eru auðvitað engir góðir kvenkynsrapparar á Íslandi. Ætli þau viti það ekki þarna á meginlandinu?“

Lestu meira

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is