Rokksaga Íslands beint í æð

Deila

- Auglýsing -

Fjölmörg söfn bjóða gestum endurgjaldslaust á sýningar sínar í sumar. Þetta er einstakt tækifæri til að drekka í sig íslenska menningu og sögu. Á meðal þeirra safna sem ekki innheimta aðgagngseyri í sumar er Rokksafn Íslands í Hljómahöll Reykjanesbæ.

Á safninu er að finna tímalínu um sögu tónlistar á Íslandi frá árinu 1830 til dagsins í dag, þannig að það er ekki eingöngu rokkið sem safnið tekur til. Það spilar þó stærstan hluta sögunnar og má á safninu finna merkilega hluti sem tengjast helstu stjörnum rokksögunnar á Íslandi. Eins og fram kemur á vef safnsins má þar á meðal finna „trommusett Gunnars Jökuls Hákonarsonar sem var m.a. notað á meistaraverkinu …Lifun með Trúbrot, kjól sem Emilíana Torrini klæddist í myndbandinu Jungle Drum, tréskúlptúr af reggí-hljómsveitinni Hjálmum, lúðrasveitarjakka sem Stuðmenn klæddust í myndinni Með allt á hreinu, kjól af Elly Vilhjálms, föt af Rúnari Júlíussyni, jakkaföt af Herberti Guðmundssyni, hljóðnema sem Megas söng í á tveimur plötum og þannig mætti lengi telja.“

Auk þess að sjá merkilega hluti úr sögunni á safninu má sjá myndbrot og heyra hljóðbrot en það sem mörgum þykir skemmtilegast er að fá að grípa í hljóðfæri og þenja raddböndin í sérhönnuðum söngklefa.

Fleiri söfn bjóða landsmönnum heim á Reykjanesi í sumar og má þar nefna Duus hús, miðstöð lista og menningar í Reykjanesbæ.

- Advertisement -

Athugasemdir