Sigrar og ósigrar Björgólfs

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Það þóttu heldur betur tíðindi þegar Björgólfur Jóhannesson hætti í vikunni sem forstjóri Icelandair Group eftir áratug í starfi.

Í tilkynningu til Kauphallarinnar er haft eftir honum að ákvarðanir sem teknar hafi verið á hans vakt hafi valdið félaginu fjárhagslegu tjóni og beri hann ábyrgð á því gagnvart stjórn og hluthöfum. Við gerð síðustu afkomuspár hafi enn verið gert ráð fyrir því að meðalfargjöld á seinustu mánuðum ársins myndu hækka, m.a. í samræmi við kostnaðarhækkanir flugfélaga. Nú sé talið að þessar hækkanir muni ekki skila sér ekki fyrr en á næsta ári. Þá hafi breytingar á sölu- og markaðsstarfi félagsins sem voru innleiddar í upphafi sumars 2017 ekki gengið sem skyldi og breytingar á leiðakerfi félagsins í byrjun árs valdið misvægi á milli framboðs flugs til Evrópu annars vegar og Norður-Ameríku hins vegar.

„Áhrif þessarar ákvörðunar munu vafalaust ná víðar en til fyrirtækja, sem skráð eru á markaði.“

Bæði Björgólfur og stjórnarformaður Icelandair, Úlfar Steindórsson, segja reyndar að aðgerðir í sölu- og markaðsmálum hafi verið vel úthugsaðar og góðar en ekki verið fylgt nógu vel eftir. Hins vegar hefur hvorugur þeirra gert ítarlega grein fyrir því að hvaða leyti þær hafi verið vel úthugsaðar, með hvaða hætti eftirfylgnin hafi klikkað og hvað hefði betur mátt gera.

Bogi Nils Bogason, framkvæmdastjóri fjármála félagsins, mun gegna stöðu forstjóra tímabundið, þar til ráðið hefur verið í stöðuna. Verður Björgólfur félaginu innan handar að beiðni stjórnar.

Ferill Björgólfs: „Ég er stoltur af þeirri stöðu sem félagið er í núna.“

1 Björgólfur er ráðinn forstjóri Icelandair Group árið 2008. Áður hafði hann einkum starfað í sjávarútvegi. Fjórum árum síðar er Björgólfur valin viðskiptamaður ársins af Viðskiptablaðinu og Fréttablaðinu. Í Fréttablaðinu er m.a. tekið fram að „hryggjarstykki félagsins“, Icelandair, hafi aukið sætaframboð og flutt tvær milljónir farþega á árinu sem sé met. Það ráði m.a. valinu. Í viðtali við blaðið segist Björgólfur líta á þetta sem „viðurkenningu fyrir starfsfólkið“. Í sama viðtali hnýtir hann í ferðaþjónustuna á Íslandi með því segja hana skorta stefnumótun.

2 Icelandair færist undir Icelandair Group og Björgólfur tekur við stöðu forstjóra Icelandair í nóvember 2017. Í tilkynningu frá stjórn eru boðaðar breytingar á stjórnunarháttum samstæðunnar sem lúta að rekstri og fjármálum. Talsverðar breytingar verða á stjórnendateymi Icelandair þar sem nýir menn leysa reynslubolta af hólmi. Birkir Hólm Guðnason sem hafði verið framkvæmdastjóri Icelandair frá árinu 2008, lætur þannig af störfum í nóvember 2017.

3 Á síðasta ári sendir félagið frá sér tvær afkomuviðvaranir þar sem fram kemur að rekstrarniðurstaða þess verði lakari en búist hafði verið við. Í júlí á þessu ári er birt uppfærð afkomuspá þar sem hún er lækkuð um 30 prósent. Björgólfur segir tölurnar vera „talsverð vonbrigði“. Í kjölfar þess lækkar hlutabréfaverð félagsins um fjórðung á einum degi. Þótt gengi bréfanna hríðfalli heyrist lítið opinberlega í forsvarsmönnum íslensku lífeyrissjóðanna, sem eru meirihlutaeigendur hlutafjár Icelandair. Sögusagnir fara á kreik um að Björgólfur íhugi uppsögn.

4 Björgólfur lætur af störfum sem forstjóri á mánudag og daginn eftir hrynur virði Icelandair enn einu sinni. Markaðsvirði félagsins hefur því fallið skarpt undanfarna mánuði og afkoma þess er talsvert slakari en spár gerðu ráð fyrir. Því vekur athygli að í Kastljóssviðtali á þriðjudag lét Björgólfur eftirfarandi ummæli falla í lok þáttar: „Ég er stoltur af þeirri stöðu sem félagið er í núna.“

Markaðsvirði Icelandair hrunið

2016 Markaðsvirði Icelandair náði hæstu hæðum í apríl 2016, þegar það var 189 milljarðar króna. Eigið fé félagsins var 57 milljarðar króna um mitt þetta ár.

2018 Markaðsvirði Icelandair hefur hrunið undanfarna mánuði og er nú um 40 milljarðar. Það þýðir að á tveimur árum hafa tæplega 150 milljarðar króna af markaðsgenginu þurrkast út.

Fleyg orð um ákvörðun Björgólfs að hætta

„Hann leiddi fjárhagslega endurskipulagningu þess og hefur alla tíð lagt áherslu á ábyrgan rekstur og að vöxtur félagssins sé arðbær til lengri tíma litið. Hann skilur við fjárhagslega sterkt félag, Icelandair Group var með 251 milljón USD í handbæru fé við lok annars ársfjórðungs og 530 milljónir USD í eigin fé.“– Úlfar Steindórsson, stjórnarformaður Icelandair.

„Allt í einu fékk frasinn „Þeir fá svona há laun af því að þeir bera svo mikla ábyrgð“–skyndilega fékk hann innihald og merkingu.“– Karl Th. Birgisson, ritstjóri Herðubreiðar.

„Áhrif þessarar ákvörðunar munu vafalaust ná víðar en til fyrirtækja, sem skráð eru á markaði. Líklegt er að þau muni líka ná til stærri óskráðra fyrirtækja og t.d lífeyrissjóða, þegar árangur af rekstri þeirra stenzt ekki væntingar. Allt stuðlar þetta að heilbrigðara viðskiptalífi. Raunar mættu áhrifin verða víðtækari, þ.e. að ný viðmið af þessu tagi nái líka til annarra þátta samfélagsins svo sem til stjórnmála. Þar er siðvenjan sú að menn hamist við að axla ekki ábyrgð.“– Styrmir Gunnarsson á styrmir.is.

Mynd: Skjáskot af RÚV

- Auglýsing -

Athugasemdir

Lestu meira

Ballarin á leynifundi með Ármanni

Orðrómur Ein stærsta ráðgátan eftir útboð Icelandair er höfnunin á tilboði athafnakonunnar Michael Roosevelt Ballarin sem hermt er...