Miðvikudagur 4. desember, 2024
0.8 C
Reykjavik

Sjáðu áður óbirta tölvupósta sem Samherji telur sýna fram á samsæri RÚV og Seðlabankans

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, og hans fólk heldur áfram árásum sínum á RÚV og Seðlabanka Íslands. Nú telur fyrirtækið hafa afhjúpað samráð þeirra á milli í aðdraganda Seðlabankamálsins svokallaða og birtir útgerðarfyrirætkið því til sönnunar áður óbirta tölvupósta á vefsíðu sinni.

Samherji birtir af þessu tilefni fjölda tölvupósta sem útgerðarfyritækið segir óbirta. Alla tölvupóstana getur þú séð hér. Hér að neðan má svo finan skrif Samherja í heild sinni af heimasíðunni, undir hana ritar Margrét Ólafsdóttir:

Seðlabanki Íslands hefur afhent Samherja öll tölvupóstsamskipti milli þáverandi framkvæmdastjóra gjaldeyriseftirlits Seðlabankans og fréttamanns Ríkisútvarpsins í aðdraganda húsleitar hjá Samherja hinn 27. mars 2012. Þennan sama dag var sýndur Kastljósþáttur þar sem settar voru fram alvarlegar ásakanir á hendur Samherja sem enginn fótur reyndist fyrir. Samherji birtir þessa tölvupósta nú í fyrsta sinn.

  • Fréttamaðurinn og framkvæmdastjóri gjaldeyriseftirlits skiptust á tugum tölvupósta á fimm vikna tímabili fyrir húsleit hjá Samherja.
  • Seðlabankinn sagði ósatt fyrir héraðsdómi árið 2015 um að engin samskipti hefðu átt sér stað við við fjölmiðla í aðdraganda húsleitarinnar.
  • Heimildarmaður Ríkisútvarpsins dró ásakanir til baka þremur vikum fyrir húsleit og sýningu þáttar Kastljós. Engu að síður settu bæði Seðlabankinn og Ríkisútvarpið fram fullyrðingar um undirverðlagningu.
  • Útvarpsstjóri neitaði Samherja um afhendingu tölvupóstanna með vísan til verndar heimildarmanns.
  • Seðlabankinn gaf í skyn að umfang ætlaðs brots hlypi á milljörðum en varðaði í reynd 25 milljón króna viðskipti.

Seðlabankinn afhenti Samherja umrædda tölvupósta hinn 4. desember síðastliðinn. Um er að ræða tugi tölvupósta milli Ingibjargar Guðbjartsdóttur, þáverandi framkvæmdastjóra gjaldeyriseftirlitsins og fréttamannsins Helga Seljan, yfir fimm vikna tímabil, frá 20. febrúar til 26. mars 2012 í aðdraganda húsleitar hjá Samherja og umfjöllunar Kastljóss 27. mars 2012. Samskiptin afhjúpa óeðlileg og hugsanlega saknæm vinnubrögð starfsmanna Ríkisútvarpsins og Seðlabankans.

Tölvupóstarnir leiða í ljós að hinn 20. febrúar 2012 greindi Helgi Seljan Seðlabankanum frá ásökunum um meinta undirverðlagningu Samherja sem varð, samkvæmt fullyrðingum fréttamanna Ríkisútvarpsins þann 27. mars 2012, kveikjan að rannsókn á málefnum Samherja. Helgi Seljan hélt stjórnanda rannsóknarinnar að fullu upplýstum um gang sinnar eigin rannsóknar í Kastljósi. Þannig greindi Helgi Seljan frá því hvernig heimildarmaður sinn í úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna hefði, eftir að hafa verið þráspurður í viðtali við Helga, „jánkað“ því að Samherji hefði selt karfa á undirverði. Tveimur dögum síðar, eða hinn 4. mars 2012, upplýsti Helgi að heimildarmaðurinn hefði óskað eftir því að viðtalið við hann yrði tekið upp aftur þar sem hann hefði fengið upplýsingar um verð Samherja sem sýndu að ekki væri um undirverðlagningu að ræða. Virðist Helgi Seljan og fyrrum framkvæmdastjóri gjaldeyriseftirlitsins, sem stýrði rannsókn á Samherja, hafa látið sér þetta í léttu rúmi liggja. Rétt er að geta þess að heimildarmaðurinn minntist ekki einu orði á karfaviðskipti í umræddum þætti Kastljóss.

tolvupostur_ruv

- Auglýsing -

Þrátt fyrir þetta og þá staðreynd að engin gögn gæfu til kynna að um undirverðlagningu væri að ræða fór Seðlabankinn í húsleit hjá Samherja þann 27. mars 2012 með vísan til þessara upplýsinga sem þá höfðu í reynd verið leiðréttar þremur vikum fyrr. Sama kvöld var sýndur þáttur Kastljóss í umsjón Helga Seljan þar sem fullyrt var að Samherji hefði selt karfa frá Íslandi á undirverði. Var sú fullyrðing sögð byggja á skýrslu frá Verðlagsstofu skiptaverðs sem síðar kom í ljós að var óundirritað vinnuskjal sem fréttamaðurinn hafði slitið úr samhengi. Fréttamaðurinn las og birti efnisgrein úr skjalinu mikið stytta en ekki efnisgreina í heild sinni og gjörbreytti þar með efnislegu inntaki hennar. Ekkert í vinnuskjalinu styður ásakanir um sölu karfa á undirverði, raunar þvert á móti. Það kom hins vegar ekki í ljós fyrr en í ágúst á þessu ári þegar skjalið fannst loksins hjá Verðlagsstofu.

Áðurnefnd tölvupóstsamskipti benda einnig til þess að fréttamaðurinn hafi vitað hvað var í bígerð, enda spurði hann framkvæmdastjóra gjaldeyriseftirlitsins í tölvupósti 9. mars 2012 hvort einhvers væri „að tíðinda af þessu sem við töluðum um.“ Í ljósi þess að hann sendi síðan framkvæmdastjóranum drög að frétt um húsleitina, daginn áður en hún var framkvæmd, verður að telja að yfirgnæfandi líkur séu á að framkvæmdastjórinn fyrrverandi sé heimildarmaðurinn um húsleitina. Þegar útvarpsstjóri neitaði að afhenda tölvupóstana árið 2020 bar hann fyrir sig ákvæði laga um vernd heimildarmanns.

Beiðni Seðlabankans til héraðsdóms um húsleit byggði að öllu leyti á ásökunum sem stjórnendum bankans var kunnugt um að stæðust ekki. Verður útreikningum og ásökunum Seðlabankans gerð sérstök skil síðar en þó er rétt að geta þess hér að þungamiðjan í rökstuðningi bankans fyrir húsleit byggði á ábendingunni frá Helga Seljan fréttamanni. Eins og að framan er rakið grundvallaðist sú ábending ekki á neinu eftir að heimildarmaður fréttamannsins hafði dregið í land með ásakanir sínar og hafði framkvæmdastjóra gjaldeyriseftirlitsins verið gert viðvart um það. Engu að síður rataði upprunalega ásökunin í beiðni til héraðsdóms. Í kröfunni skapaði framkvæmdastjórinn fyrrverandi, sem undirritaði hana ásamt aðstoðarseðlabankastjóra, að því er virðist vísvitandi þau röngu hughrif hjá dómara að umfang ætlaðs brots hlypi á milljörðum króna. Staðreyndin er aftur á móti sú að umfang sölu á karfa af eigin skipum Samherja til tengdra aðila, á því þriggja mánaða tímabili sem krafan tiltók, nam 120 tonnum af alls 1.500 tonnum sem skipin lönduðu af karfa. Samherji flutti út 25.000 tonn af sjávarafurðum á tímabilinu fyrir um 11 milljarða en verðmæti hins útflutta karfa til tengdra aðila nam 25 milljónum króna, eða 0,2% af útflutningsverðmæti tímabilsins. Til að kóróna vitleysuna í vinnubrögðum var svo útreikningur á verðum rangur. Hefur það verið staðfest af dómstólum og var fellt niður af öllum embættum sem höfðu málið til skoðunar í kjölfarið, þar á meðal Seðlabankanum árið 2016.

- Auglýsing -

Það liggur því fyrir að framkvæmdastjóranum fyrrverandi, sem undirritaði beiðni um húsleit hjá Samherja og síðar kærur á hendur Samherja og tilteknum einstaklingum, var kunnugt um að ásakanir á hendur fyrirtækinu byggðust á rangfærslum. Ríkisútvarpið tók virkan þátt í árásinni á Samherja á árinu 2012 og hefur síðan þá gert allt til að koma í veg fyrir að Samherji fái þau gögn sem nú eru komin fram í dagsljósið í fyrsta sinn. Að sama skapi hefur Seðlabankinn, þar til nú, ítrekað komið í veg fyrir að þessi gögn kæmust í hendur Samherja. Þá sagði Seðlabankinn ósatt um samskiptin við Ríkisútvarpið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur árið 2015. Það varð til þess að Samherji fékk umrædda tölvupósta ekki afhenta fyrr en fimm árum síðar.

„Þessir tölvupóstar staðfesta það sem okkur hefur lengi grunað og höfum sagt áður. Þáverandi stjórnendur Seðlabankans héldu frá okkur gögnum og töldu það ekki eftir sér að fara vísvitandi með rangt mál fyrir dómstólum. Við birtum þessa tölvupósta núna svo fólk geti séð svart á hvítu að samskipti Ríkisútvarpsins og Seðlabankans í aðdraganda húsleitarinnar voru mjög óeðlileg. Þessar stofnanir höfðu samantekin ráð um árás á Samherja á grundvelli ásakana sem starfsfólk þessara stofnana vissi að enginn fótur var fyrir, sem er auðvitað grafalvarlegt,“ segir Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja.

Vegna yfirlýsinga forsvarsmanna Ríkisútvarpsins hefur Samherji tekið ákvörðun um að birta umrædd tölvupóstsamskipti og eru þau aðgengileg í tímaröð hér. Þessi samskipti RÚV og Seðlabankans eru nú til rannsóknar hjá lögreglu vegna kæru Samherja á vormánuðum 2019 og eftir að forsætisráðherra vísaði málinu þangað með bréfi hinn 11. september 2019.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -