Föstudagur 26. apríl, 2024
7.1 C
Reykjavik

Skotið að starfsmönnum ÁTVR úr afsagaðri haglabyssu – Fyrsta vopnaða rán Íslands var þaulskipulagt

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Að kvöldi föstudagsins 17. febrúar árið 1984 voru tveir starfsmenn ÁTVR rændir þegar þeir voru að skila af sér afrakstri dagsölunnar í næturhólf Landsbankans við Laugaveg 77.

Starfsmennirnir höfðu lagt bíl sínum á gangstéttina framan við bankann og steig annar þeirra út með féð þegar skotið var á dekk bíls þeirra. Byssumaðurinn ógnaði síðan starfsmanninum og krafðist þess að hann afhenti sér peningana. Starfsmaðurinn var ekki á því og hélt sem fastast. Hann var þá sleginn með byssunni, sem reyndist vera afsöguð haglabyssa, og reið þá annað skot af. Til allrar guðslukku hæfði skotið ekki starfsmanninn sem lét féð af hendi.

Ræninginn komst undan með tæpar tvær milljónir króna á stolnum leigubíl.

Málið vakti það gríðarlega athygli og talað var um fyrsta vopnaða ránið þar sem slíkt rán hafði þá ekki hafa verið framið frá því á nítjándu öld.

Falskt skegg og gleraugu

Allt lið lögreglu var kallað út auk þess sem víkingasveitin var sett í viðbragðsstöðu. Klukkustund síðar fannst bifreiðin yfirgefin í porti við Brautarholt og voru bæði peningar og vopn á bak og burt. Sporhundar voru kallaðir til án árangurs. Lýsingar vitna voru óljósar þar sem maðurinn hafði málað á sig yfirskegg, hökutopp og barta auk þess að vera með falskar augabrúnir og gamaldags gleraugu.

- Auglýsing -

Í ljós kom að maður, vopnaður afsagaðri haglabyssu, hafði látið leigubílstjóra aka sér frá Hótel Sögu að afskekktum stað í Nauthólsvíkinni. Þar ógnaði hann bílstjóranum, neyddi hann út úr bílnum og hélt á brott. Byssan var tilkynnt stolin úr innbroti í verslunina Vesturport nóttina fyrir ránið.

Bankamaður stígur fram

Mikið var fjallað um ránið í blöðunum og ekki leið á löngu þar til starfsmaður Landsbankans steig fram með upplýsingar sem reyndust vendipunktur í málinu. Lögreglan var í kjölfarið komin með nafn á manninum sem síðar átti eftir að vera kallaður fyrsti bankaræningi Íslandssögunnar.

- Auglýsing -

Hann reyndist vera hinn 22 ára gamli William James Scobie, íslenskur ríkisborgari, sem hafði flutti til Íslands frá Bandaríkjunum ásamt fjölskyldu sinni sem barn að aldri.

Í lok febrúar 1984 greindi DV frá því að Landsbankastarfsmaðurinn hefði verið málkunnugur William. Hann sýndi peningaflutingum ÁTVR mikinn áhuga og spurði ítarlega út í þá. Maðurinn taldi ekkert tiltakanlega grunsamlegt við samtölin og spjallaði frjálslega um ferli peningaflutningana við William. Honum brá svo mjög í brún þegar að fréttin um ránið birtist í blöðunum og sá að ef til vill hefði hann verið full lausmáll í tali sínu við William.

Hann hafði umsvifalaust samband við lögreglu.

Var það álit manna að ránið hefði aldrei komist upp ef ekki hefði verið fyrir aðkomu umrædds bankastarfsmanns.

Handtekinn á leið í flug

Lögreglan hóf þegar eftirlit með William sem var handtekin, ásamt föður sínum á Keflavíkurflugvelli þann 24. febrúar. William var þá komin með annan fótinn upp í vél á leið til Bandaríkjanna.

Nítján ára gamall félagi Williams, Ingvar Heiðar Þórðarson, handtekinn fyrir aðild sína að ráninu tveimur dögum síðar. Ingvar hafði komið fyrir flóttabíl í Brautarholtinu auk þess að hafa fylgst með ráninu og kippt upp peningapoka sem William hafði misst á flóttanum. Þeir höfðu síðan í sameiningu hent vopninu og fatnaði sem notað var í ráninu í sjóinn við Kársnesið í Kópavoginu áður en leiðir skildu. Ingvar fékk 360 þúsund krónur af ránsfénu í sinn hlut fyrir ómakið.

Við yfirheyrslur kom í ljós að ránið var vel undirbúið. William hafði viljað létta undir með fjölskyldu sinni sem átti í fjárhagserfiðleikum og meðal annars boðið foreldrum sínum meginhluta ránsfengsins. Fjölskyldan vildi ekki segja til hans og ætlaði faðir hans að koma honum úr landi og til Bandaríkjanna.

Dómur fellur

William og Ingvar játuðu og hlutu í kjölfarið fimm og tveggja og hálfs árs fangelsisdóma. Faðir Williams neitaði allri sök en hlaut sex mánaða skilorðsbundinn dóm fyrir yfirhylmingu.

William var einnig grunaður um rán í Iðnaðarbankanum í Breiðholti nokkrum dögum áður en það telst vera fyrsta bankarán Íslandssögunnar. Aldrei tókst að sanna þann glæp á hann.

William hefur starfað sem matreiðslumaður í fjölda ára.

Ingvar skapaði sér síðar nafn sem athafnamaður í íslensku skemmtanalífi með rekstri bara og veitingahúsa auk þess að setja upp leiksýningar og flytja inn tónlistarfólk. Hann skrifaði bókina „Hinn fullkomni glæpur” þar sem hann sagði frá tildrögum og framkvæmd ránsins.

Í bókinni sagði Ingvar meðal annars að um hafi verið að ræða tvo unga með tímabundið skammhlaup í heilanum og væri það von hans að bókin yrði ungu fólki til umhugsunar að hugsa áður en það framkvæmdi.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -