Fimmtudagur 12. september, 2024
8.8 C
Reykjavik

Sorgir og sigrar Vöndu Sigurgeirsdóttur: „Ég öfunda öll börn sem eiga ömmur og afa“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Ég hef ákveðið að bjóða mig fram til formanns Knattspyrnusambands Íslands. Ég hef fengið fjölda áskorana frá fjölskyldu og vinum, frá fjölbreyttum hópi fólks í samfélaginu og úr knattspyrnuhreyfingunni sjálfri. Ég er mjög þakklát fyrir þessa hvatningu. Þetta var ekki einföld ákörðun en af vandlega íhuguðu máli ákvað ég bjóða mig fram. Mér þykir vænt um þessa hreyfingu og hef verið partur af henni stóran hluta ævi minnar. Ég tel að ég sé vel til þess fallinn að leiða þá vinnu sem framundan er.“ Þetta tilkynnti Vanda Sigurgeirsdóttir á Facebook-síðu sinni í dag.

Í viðtali við Mannlíf segir Vanda að hún telji að reynsla sín og menntun undirbúi hana vel undir að gegna starfi formanns KSÍ. „Þetta er sannarlega vandasamt verkefni en ég er með mikla reynslu af að vinna með fólki og því að leysa úr alls konar vandamálum og ágreiningi svo sem eineltismálum.“

Vanda er lektor í tómstunda- og félagsmálfræði við menntavísindasvið Háskóla Íslands og er sérsvið hennar einelti og tómstunda- og leiðtogafræði. Hún fékk Fálkaorðuna 1. janúar á þessu ári fyrir störf að jafnréttismálum, kvennaknattspyrnu og fyrir baráttu gegn einelti. Ásamt því að vinna sem lektor við HÍ rekur hún fyrirtækið KVAN ásamt þremur öðrum þar sem starfsmenn bjóða meðal annars ýmiss konar ráðgjöf, fræðslu, námskeið og fyrirlestra. Vanda nefnir að reynsla sín innan íþróttahreyfingarinnar myndi nýtast sér í starfi formanns KSÍ, til að mynda reynslan sem leikmaður en hún var í kvennalandsliðiðinu í knattspyrnu, hún var fyrirliði í landsliðinu, A-landsliðsþjálfari fyrst kvenna, hún þjálfaði félagslið og hefur þjálfað bæði stelpur og stráka.

Þetta er sannarlega vandasamt verkefni en ég er með mikla reynslu af að vinna með fólki og því að leysa úr alls konar vandamálum og ágreiningi svo sem eineltismálum.

Vanda Sigurgeirsdóttir

„Ég er eina konan á Íslandi sem hefur þjálfað meistaraflokk karla í fótbolta og ég hef líka þjálfað meistaraflokk kvenna. Ég hef verið í stjórn félags, ég hef verið formaður, gjaldkeri, foreldri og sjálfboðaliði. Þannig að ég hef víðtæka og yfirgripsmikla þekkingu á fótboltanum og félagsstörfum. Mér finnst þetta allt passa vel inn í þau verkefni sem fram undan eru hjá KSÍ þótt margt annað sé þar fram undan eins og fjárhagsáætlun og að undirbúa næsta ársþing. Mér finnst aftur á móti vera mikilvægt að tekið sé á þeim málum sem hafa valdið því að hreyfingin hefur skaddast og fólk hefur misst trú og traust á hana og ég myndi leggja áherslu á að endurvinna það traust. Já, ég vil ganga svo langt að segja að menntun mín og reynsla búi mig undir það og það er hluti af því að ég ákvað að bjóða mig fram til formanns. Svo brenn ég fyrir jafnréttismálunum og fyrir fótboltanum og ég held að þetta sé mjög skemmtilegt og áhugavert starf.“

Ég er eina konan á Íslandi sem hefur þjálfað meistaraflokk karla í fótbolta og ég hef líka þjálfað meistaraflokk kvenna.

Vanda segist vonast til að verða kjörin og ef það verður að veruleika hlakkar hún til að takast á við þær áskoranir sem bíða. „Innan knattspyrnuhreyfingarinnar er mikið af mjög góðu fólki og ég hlakka til að vinna með þeim að góðum málum.“

- Auglýsing -

 

 

Dauðafæri fyrir hreyfinguna

- Auglýsing -

Þegar Vanda er spurð um sýn sína á kynferðisafbrotamálin tengd leikmönnum sem hafa verið áberandi að undanförnu segir hún að til þess að endurvinna traust fólks á hreyfinguna þá verði þessi mál að komast í lag.

„Sú vinna er hafin eins og fram kom í tilkynningu frá stjórn KSÍ. Þannig að ný stjórn þarf að halda vinnunni áfram og í mínum huga er þetta eitt af mikilvægustu verkefnum þessarar nýju stjórnar sem er þó bara bráðabirgðastjórn. Á þinginu í febrúar þarf að leggja fyrir tilbúna ferla og vinnubrögð um það hvernig hreyfingin ætlar að taka á þessum málum í framtíðinni. Ég held að það hljóti allir að vera sammála um að þetta er eitthvað sem þarf að laga.“

Ef Vanda verður kjörin formaður KSÍ þá yrði hún fyrsta konan í því embætti. „Mér finnst það vera mjög spennandi tilhugsun en ég vil ekki að ég yrði kosin bara af því að ég er kona. En mér finnst að það sé kannski kominn tími til að gefa því tækifæri. Ég hef verið „fyrsta konan“ nokkrum sinnum þannig að ég kvíði því ekki. Svo ég nota fótboltamál þá finnst mér þetta vera dauðafæri fyrir hreyfinguna.“

Svo ég nota fótboltamál þá finnst mér þetta vera dauðafæri fyrir hreyfinguna.

 

Ástvinamissir

Vanda er reynslubolti í fótboltanum og getur státað af mörgum bikar- og Íslandsmeistaratitlum sem leikmaður og þjálfari. Þegar hún er spurð hvað standi upp úr varðandi ferilinn segist hún hafa verið stolt þegar hún var gerð að fyrirliða í landsliðinu á sínum tíma. Hún nefnir líka árið þegar hún þjálfaði Þrótt.

„Við töpuðum næstum því öllum leikjum en ég var samt ánægð með þá alla þetta tímabil. Ég segi stundum að það sé auðvelt að vinna en miklu erfiðara að tapa. Ég er mjög stolt af þessu tímabili; fólki finnst þetta vera skrýtið af því að við töpuðum og féllum úr efstu deild en ég og þessir leikmenn náðum að peppa okkur upp fyrir hvern einasta leik og gera okkar besta á heilu tímabili. Ég er stolt af því fyrir utan þá titla sem ég er auðvitað mjög stolt af.“

Vanda Sigurgeirsdóttir

Lífið er ekki bara fótbolti og þar vinnast sigrar og leikir tapast. Vanda segir að ástvinamissir sé það erfiðasta sem hún hefur upplifað og nefnir að foreldrar hennar létust með tveggja og hálfs árs millibili en hún var 44 ára þegar móðir hennar lést og svo dó faðir hennar tveimur og hálfu ári síðar. Hún og eiginmaður hennar áttu þá ung börn og hún nefnir að þau hafi misst stuðninginn, ástina og kærleikann. Þess má geta að tengdaforeldrar hennar eru líka látnir. „Ég öfunda öll börn sem eiga ömmur og afa og við söknum þess mjög mikið.“

Hún talar um tækifæri sem geta falist á áföllum. „Pabbi var í öndunarvél í mánuð á gjörgæsludeild. Þótt þetta væri náttúrlega hörmulegt, ömurlegt og sorglegt þá hugsuðum ég og bróðir minn með okkur að þarna gæti legið tækifæri; eitthvað sem við gátum látið verða til góðs og við ákváðum að endurnýja samband okkar sem þurfti á því að halda. Við fundum tækifæri í þessu. Og ég hef reynt að kenna börnunum mínum það að finna tækifæri sem geta verið til góðs jafnvel þótt eitthvað sé sorglegt og leiðinlegt.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -