Þórdís Elva boðar til þögulla mótmæla: „Ég vildi að ég hefði getað gripið systur okkar sem var hrint af svölunum í gær“

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Þórdís Elva Þorvaldsdóttir baráttukona og rithöfundur boðar á morgun til mótmæla gegn niðurfellingu nauðgunarmála og til að vekja athygli á ofbeldi gagnvart konum.

Í viða­mikilli könnun á of­beldi karla gegn konum sem fé­lags- og trygginga­mála­ráðu­neytið fól Rann­sóknar­setri í barna- og fjöl­skyldu­vernd við Há­skóla Ís­lands að gera árið 2009 kom fram að um 42 prósent kvenna á Íslandi hafa sætt ofbeldi einhvern tíma á ævinni frá 16 ára aldri.

Ásamt Þórdísi Elvu standa Brynhildur Björnsdóttir og María Lilja Þrastardóttir blaðamenn að mótmælunum, sem fara fram að Skúlagötu 17 fyrir utan skrifstofu héraðssaksóknara. Safnast er saman kl. 17 og hefst samstaðan kl. 17.15. Mótmælin munu standa yfir í 20-30 mínútur. Þátttakendur þurfa ekki að hafa neitt meðferðis, það er nóg að mæta og taka sér stöðu með þeim hugrökku þolendum sem kærðu nauðgun til lögreglu en fengu aldrei tækifæri til að leita réttar síns fyrir dómi, segir í viðburði vegna mótmælanna.

Viðburður á Facebook. 

„Það er kominn tími til að horfast í augu við að konur eru beittar of­beldi í svo miklum mæli…”

Eins og komið hefur fram í fréttum fékk lögreglan tilkynningu rétt fyrir níu í gærkvöldi um að konu á þrítugsaldri hefði verið hrint fram af svölum niður á steyptar tröppur í Hólahverfi í Breiðholti. Karlmaður á fertugsaldri var handtekinn á vettvangi og vistaður í fangageymslu.

Í færslu sem Þórdís Elva skrifar á Facebook-síðu sína í morgun biður hún fyrir bata konunnar og segir að löngu sé kominn tími til að horfast í augu við það ofbeldi sem konur eru beittar.

„Það er kominn tími til að horfast í augu við að konur eru beittar of­beldi í svo miklum mæli að það er ó­trú­legt að þær skuli ekki vera löngu búnar að grípa til ör­þrifa­ráða, stofna til ó­eirða og lama sam­fé­lagið svo það VAKNI TIL FOKKING VITUNDAR.“

Bendir Þórdís Elva á að næstum önnur hver kona sé beitt ofbeldi einhvern tíma á lífsleiðinni eins og fyrrgreind rannsókn sýnir. „Önnur hver frænka þín, önnur hver skóla­systir, önnur hver vin­kona, önnur hver sam­starfs­kona. Hlut­fallið er jafn­vel hærra meðal kvenna sem glíma við fíkn eða eru af er­lendum upp­runa, til að mynda. Ein versta birtingar­mynd of­beldis gegn konum, nauðgun, er nánast refsi­laus,“ skrifar Þór­dís Elva.

„Ég vildi að ég hefði getað gripið systur okkar sem var hrint af svölunum í gær. Ég gat það ekki, en ég get hafið upp raust mína hér. Og þau ykkar sem eruð í Reykja­vík getið mót­mælt á morgun fyrir hönd þeirra hug­rökku þol­enda sem kærðu nauðgun, en fengu aldrei að fara fyrir dóm. Hættum að TALA og förum að GERA. Við höfum ekki efni á að líta undan, lengur. Fórnar­kostnaðurinn er allt of hár.“

- Auglýsing -
- Auglýsing -

Athugasemdir

Orðrómur

Forsíðuviðtal Mannlífs

Lestu meira