„Ég ætlaði að mæta og vera í aðgerðarstjórn en þá var mér sagt að það hefði annar verið fenginn í minn stað. Mér fannst þetta vera köld kveðja eftir 13 ára starf sem sjálfboðaliði hjá Rauða krossinum á Suðurnesjum,“ segir Þorkell Ingvason, fyrrverandi sjálfboðaliði Rauða krossins. Hann hafði verið sjálfboðaliði hjá samtökunum, sérhæfður í vettvangsstjórn og fjöldahjálparstjórnun.
Þorkell veiktist illa í nóvember í fyrra vegna sykursýki og æðakölkunar. Við tók löng spítalavist. Sjúkdómurinn varð til þess að taka þurfti af honum annan fótinn í febrúar síðastliðnum. Í framhaldinu tók við löng endurhæfing þar sem hann þurfti að læra að ganga við gervifót. Hann er nú óðum að ná tökum á tilveru sinni og ætlaði að snúa aftur til þess að leggja Rauða krossinum lið, sem honum þótti vera einstaklega gefandi.
Þann 23 október á að vera stór æfing á Keflavíkurflugvelli. Þorkell lét vita að hann hefði áhuga á að fylgjast með þar og vera í aðgerðarstjórn svo sem verið hafði undanfarin 13 ár. Þá kom babb í bátinn. Framlag hans var afþakkað. Það var Fanney Grétarsdóttir, starfsmaður deildarinnar á Suðurnesjum, sem tilkynnti honum þá ákvörðun. Þorkell segir ekki við hana að sakast þar sem hún hefði sagt honum að höfnunin væri að ósk höfuðstöðvanna í Reykjavík. Þorkell upplifði mikla og sára höfnun. Hann setti sláandi stöðufærslu inn á Facebook.
„Eftir 13 ár sem félagi í RKI ákveða þeir að það sé ekki gott fyrir ímynd félagsins að hafa innan sinna raða mann sem er fatlaðan mann með gerfifót. Kaldar kveðjur,“ skrifaði Þorkell.
Hann segir í samtali við Mannlíf að engin önnur leið sé að túlka málið en sem svo að fötlun hans hafi ráðið ákvörðun samtakanna í Reykjavík.
„Þetta var mér áfall. Ég get ekki fundið aðra ástæðu en þá að ég er búinn að missa fótinn,“ segir Þorkell.
Fanney Grétarsdóttir, starfsmaður Rauða krossins á Suðurnesjum vildi ekki tjá sig efnislega um málið og vísaði á höfuðstöðvarnar í Reykjavík.