Föstudagur 26. apríl, 2024
5.1 C
Reykjavik

„Þreifingar“ fasteignafélagsins Reita á gráu svæði – Kauphöllin skoðar málið – Fjármálaeftirlitið neitar að tjá sig

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Kauphöll Íslands mun skoða hvort tilefni sé til rannsóknar á meðferð innherjaupplýsinga fasteignafélagsins Reita. Félagið tilkynnti í vikunni um boðun hluthafafundar þann 22. september næstkomandi þar sem það hyggst auka hlutafé félagsins um allt að 200.000.000 hluta eða um 9 milljarða króna sé horft til núverandi markaðsvirði Reita. Í gær sagði Guðjón Auðunsson, forstjóri Reita, að stjórnendur fyrirtækisins hafi þreifað fyrir áhuga hluthafa á mögulegri þátttöku í útboðinu. Stjórnendurnir könnuðu því hvort áhugi væri á þátttöku í fyrirhuguðu hlutafjárútboði í hluthafahópi félagsins áður en tilkynnt var um það opinberlega. 

Magnús Harðarson, forstjóri Kauphallar Íslands, segist eiga erfitt með að tjá sig um málið að svo stöddu því nægjanlegar upplýsingar liggi ekki fyrir á hans borði. Aðspurður segir hann að málið verði skoðað. „Ég hef ekki forsendur hjá mér núna til að meta hvort þarna hafi verið um innherjaupplýsingar að ræða. Það þarf að liggja betur fyrir hvað var þarna nákvæmlega verið að segja við hluthafana. Ef það er eitthvað sem er ekki eins og það á að vera þá munum við skoða það,“ segir Magnús. 

Magnús Harðarson, forstjóri Kauphallar Íslands

Aðspurður sagði Guðjón að stjórnendur Reita hafi þreifað fyrir áhuga hluthafa á mögulegri þátttöku í útboðinu. „Menn renna kannski ekki alveg blint í sjóinn með það hvort það sé áhugi fyrir þessu. Einhver símtöl og einhver samtöl hafa átt sér stað en þau voru með óformlegum hætti og án skuldbindinga,“ sagði Guðjón.

Reynist það rétt að hluthöfum hafi verið gefnar upplýsingar áður en markaðnum var tilkynnt um fyrirhugaða hlutafjáraukningu þá segir Magnús aðspurður það ekki vera samkvæmt bókinni. Almennt segir hann það lagaskyldu félaga að birta allar innherjaupplýsingar opinberlega áður en þeim er dreift eftir öðrum leiðum. „Ef upplýsingar eru nógu skilgreindar til að þær teljist innherjaupplýsingar þá á auðvitað að tilkynna þær opinberlega fyrst. Ég reikna með að eftirlitið hjá mér fylgist með upplýsingagjöfinni og mun taka þetta upp ef ástæða þykir til. Eftirlit okkar er örugglega meðvitað um þetta,“ segir Magnús.

Hlutabréf Reita hríðlækka í verði

Hlutabréf Reita lækkuðu um tæplega 6,5% á þriðjudag eftir að tilkynnt var um fyrirhugað hlutafjárútboð. Sé horft til síðastu 30 daga hafa bréf félagsins lækkað um tæp 18% í verði. Stærstu hluthafar Reita eru íslenskir lífeyrissjóðir og má þar nefna Gildi, Lífeyrissjóð verslunarmanna og Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, sem samanlagt eiga um 41% hlut í fasteignafélaginu.

- Auglýsing -

Brutu Reitir lög um verðbréfaviðskipti?

Heimildarmenn Mannlífs telja að „þreifingar“ forstjóra Reita kunni að vera brot á lögum um verðbréfaviðskipti og að fasteignafélaginu hafi borið að birta umræddar upplýsingar um hlutafjáraukningu um leið og sú ákvörðun var tekin að bera tillöguna undir hluthafa. „Þreifingar“ forsvarsmanna Reita kunna að hafa valdið því að ójafnræði hafi verið meðal fjárfesta á þeim tíma sem viðræður um mögulega þátttöku í útboðinu áttu sér stað.

„Við erum með eignir í sigtinu og ef tillagan verður samþykkt munum við fara í þetta ferli hratt og örugglega,“ sagði Guðjón í samtali við Markaðinn og bætti því við að ekki hafi verið rætt um hvort veita eigi töluverðan afslátt miðað við núverandi markaðsgengi í útboðinu.

- Auglýsing -

Arion banki nýlega sektaður vegna fréttar Mannlífs um uppsagnir

Fjármálaeftirlitið sektaði Arion banka nýlega um 87,7 milljónir króna á grundvelli þess að bankinn hafi ekki birt innherjaupplýsingar nægjanlega tímanlega. Mannlíf hafði þá nokkrum dögum áður birt frétt um fyrirhugaðar uppsagnir bankans og hafði fyrir því áreiðanlega heimildarmenn. Arion banki taldi að sér væri heimilt að nýta heimild í lögum til að fresta birtingu umræddra upplýsinga er varðaði skipulagsbreytingar og hópuppsagnir. FME féllst ekki á sjónarmið bankans og bauð 87,7 milljóna sekt sem sátt í málinu. Á það féllst Arion banki ekki og mun freista þess að áfrýja sektinni.

Heimildarmenn Mannlífs telja að forsvarsmenn Reita kunni að hafa gerst brotlegir við lög um verðbréfaviðskipti þegar valdir hluthafar félagsins hafi fengið upplýsingar um fyrirhugaða hlutafjárhækkun, sem eru líkt og í tilfelli Arion banka, verðmótandi upplýsingar á hlutafjármarkaði. Um birtingu slíkra upplýsinga gilda strangar reglur til að tryggja jafnræði meðal fjárfesta.

Mannlíf leitaði viðbragða hjá Fjármálaeftirlitinu og spurði þar að því hvort það teldi ástæðu til að skoða málið, hvort lækkun hlutabréfa félagsins gæfi tilefni til athugunar um möguleg innherjaviðskipti og hvort slíkar þreifingar meðal hluthafa áður en tilkynnt væri opinberlega um hlutafjáraukningu samræmist lögum um verðbréfaviðskipti. „Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands tjáir sig almennt ekki um málefni einstakra eftirlitsskyldra aðila eða samskipti við þá nema í samræmi við gagnsæisstefnu sína. Við getum því ekki brugðist við spurningum af þessu tagi,“ segir Sigurður Valgeirsson, upplýsingafulltrúi Seðlabanka Íslands þar sem Fjármálaeftirlitið hefur verið starfrækt frá síðustu áramótum.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -