• Orðrómur

Veðurblíðan ýtir undir nýja strauma í samgöngum

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Sumrinu á höfuðborgarsvæðinu í fyrra verður best lýst sem sumrinu sem aldrei kom enda met sett í fjölda úrkomudaga. Sumarið í ár er algjör andstæða og hefur haft drastísk áhrif á neysluhegðun íbúa á höfuðborgarsvæðinu. En það sést meðal annars á sprengingu sem hefur orðið í sölu reiðhjóla og lítilla rafknúinna farartækja.

Jökull Sólberg Auðunsson, ráðgjafi hjá Parallel ráðgjöf, skrifar pistla um örflæði (e. micromobility), samgöngur og borgarskipulag. Í samtali við Mannlíf segir hann að mikill munur sé á sölu bæði reið- og rafhjóla á þessu ári samanborið við rigningarsumarið í fyrra. „Þetta er stórt sumar hjá hjólaverslunum og sprenging í rafvæddum farartækjum, bæði hjólum og eins eru rafmagnshlaupahjólin mjög vinsæl. Ég hika reyndar við að segja að þetta sé allt veðrinu að þakka, þetta er stærra „trend“ en það, en veðrið hjálpar til, ekki spurning. Hlutir sem eru að vaxa, þeir vaxa hraðar þegar fólk sér góða veðrið,“ segir Jökull og bætir við að þegar fólk er búið að upplifa tíu daga í röð með sólskini, verði freistingin sterkari að kaupa sér nýtt rafmagnshjól eða hlaupahjól.

Hann spáir því að sala á rafhjólum og léttum bifhjólum taki fram úr reiðhjólum árið 2021 eða 2022 en hann vinnur m.a. að verkefnum tengdum samgöngum fyrir Reykjavíkurborg.

Fjórföld sala í rafhjólum

- Auglýsing -

Jón Þór Skaftason, verslunarstjóri hjá reiðhjólaversluninni Erninum, staðfestir í samtali við Mannlíf að hjólasumarið sé búið að vera óhemjugott í ár og þakkar það góða veðrinu í maí og júní. „Eins og mars og apríl voru lélegir þá var maí alveg framúrskarandi.“

Jón Þór segir jafnframt að sprenging hafi orðið í sölu á rafhjólum í sumar. „Það er um það bil fjórföld sala í rafhjólum samanborið við síðasta ár ef við miðum við 1. janúar til dagsins í dag bæði árin.“ Hann segist ekki vera í nokkrum vafa um að tíðarfarið hafi mikil áhrif á söluna, bæði í hefðbundum reiðhjólum og rafknúnum. „Í fyrra voru mars og apríl alveg frábærir enda ágætir veðurlega séð en maí og út ágúst voru slakir mánuðir,“ útskýrir hann en tekur fram að árið í heild hafi þó ekki verið sérstaklega slæmt.

Jón Þór telur þó ekki líklegt að sala á rafhjólum muni taka fram úr reiðhjólunum á næstunni þrátt fyrir söluaukningu í blíðviðrinu. „Það er langt í það, a.m.k. hér á Íslandi. Evrópa er komin í rúmlega 30% prósent og Bandaríkin í 2% en þar stækkar þessi markaður hratt.“ Hann segir að alþjóðlega séu uppi getgátur um að árið 2025 verði rafhjólin komin upp í helming af seldum reiðhjólum.

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 
- Auglýsing -

Orðrómur

Helgarviðtalið

Lestu meira

Nýtt í dag

Í fréttum er þetta helst...

Mest lesið í vikunni

- Auglýsing -