Fimmtudagur 6. október, 2022
6.8 C
Reykjavik

Vegna banaslyss í Ísafjarðardjúpi og fyrirmæla til ferðamanna í sóttkví

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Eftir // Jóhann Sigurjónsson, lækni á Ísafirði

Mér finnst mjög mikilvægt að taka fram að ég er ekki að gagnrýna sóttvarnaraðgerðir yfirvalda sem slíkar og frábið mér því að misyndisfólk taki orð mín úr samhengi og noti til að andmæla þeim. Nota bene: Ríkjandi fyrirkomulag með tvöfaldri skimun fólks við komu til landsins og sóttkví á milli er, að mínu mati, vel heppnuð og skilvirk leið til að hefta smit frá útlöndum.

Aftur á móti ætla ég hér að neðan að benda á alvarlegar misfellur í framkvæmdinni; nefnilega að yfirvöld etji þreyttum ferðalöngum út í að keyra um landið þvert og endilangt í vondu veðri og afleitri færð á vegum. Það er að sjálfsögðu of snemmt að fullyrða um orsakir slyssins í Skötufirði á laugardaginn, en nokkrar staðreyndir liggja fyrir: Fólk var á ferð snemma morguns við mjög slæm akstursskilyrði í krapa, hálku, myrkri, lágskýjuðu og hafði verið á ferð alla nóttina að undangengnu löngu ferðalagi frá útlöndum.

Af eigin reynslu geri ég ráð fyrir að lagt hafi verið að fólki að koma sér tafarlaust á þann sóttkvíarstað sem það hafði skráð á heimkoma.covid.is fyrir komu til landsins.

Haft áhyggjur frá því í haust

Ég er búsettur í Lundi í Svíþjóð og síðan í haust hef ég þrisvar lagt leið mína til Ísafjarðar vegna vinnu. Í öll skiptin hef ég kosið að undirgangast tvöfalda skimun með sóttkví á milli. Frá því í haust hef ég haft áhyggjur af þeirri áherslu sem lögð er á að fólk, sem kemur til landsins, komi sér milli landshluta án tafar og án tillits til vegalengda, veðurs, færðar á vegum og ferðatíma áður en fólk lendir í Keflavík. Mér hefur fundist augljós áhættan við að etja fólki í slík ferðalög, en talað fyrir algerlega daufum eyrum fulltrúa yfirvalda í Keflavík.

Fyrir komu til Íslands þarf maður að skrá sig á heimkoma.covid.is og þar ber að skrá einn og aðeins einn dvalarstað meðan á sóttkví stendur. Ég hef skráð heimilisfang foreldra minna á Ísafirði þar sem ég hef ætlað mér að dveljast. Við komu til landsins hef ég í öll skiptin fengið afhentan upplýsingabækling um hvaða reglur gilda í sóttkví og í öll skiptin hef ég rætt við landamæravörð/lögreglu sem virðist gefa sér tíma til að ræða vingjarnlega við hvern einasta farþega sem kemur inni í landið.

Á síðu #4 í bæklingunum má finna eftirfarandi málsgrein:

Ef brýna nauðsyn ber til má gista eina nótt í sóttkví nærri landamærastöð áður en ferðast er til endanlegs dvalarstaðar í sóttkví.

- Auglýsing -

Í mínu tilviki hef ég verið að lenda um kaffileytið og átt sirka 6 til 7 klst. ferðalag að baki við komu til Keflavíkur. Í öll skiptin hefur samtal mitt við landamæravörðinn verið nokkurn veginn á sama veg. Höfuðáhersla hefur verið á að brýna fyrir mér að koma mér sem fyrst á sóttkvíarstað.

Svarið var afdráttarlaust

Í fyrstu ferðinni í september spurði ég sérstaklega um hvort ég mætti gista eina nótt í mannlausu húsnæði sem ég hefði aðgang að í Reykjavík og halda áfram ferðinni morguninn eftir. Ég bar fyrir mig þreytu eftir langt ferðalag, veðurspá sem var betri daginn eftir og að ég kysi að keyra í dagsbirtu. Svarið var einfalt og afdráttarlaust:

Nei. – Þreyta ökumanns, tími sólarhrings og birtuskilyrði teldust ekki gildar ástæður til að hangsa á leiðinni.

- Auglýsing -

Ég maldaði í móinn og bar fyrir mig umferðaröryggi og spurði líka hvernig væri ef veður væri vont og færð á vegum slæm. Mér var tjáð skýrt og afdráttarlaust að veður og færð á vegum teldist ekki nauðsynleg ástæða til að tefja för, nema ef vegir væru beinlínis lokaðir. Þetta vakti skiljanlega furðu mína og ég ákvað að spyrja hvar mörkin lægju; t.d. hvort ég mætti t.d. stoppa til að pissa eða fá mér frískt loft til að halda mér vakandi á fáförnum stað við þjóðveginn. Svarið var:

Nei – Það má strangt til tekið ekki yfirgefa bifreiðina – Á fáförnum slóðum gæti maður tekið sénsinn en væri eftir sem áður brotlegur við sóttvarnarlög.

Ég kom síðast til landsins fyrir rúmri viku síðan, einn í fylgd 3 ára sonar míns sem ég bar á handleggnum og við báðir þreyttir í samtali við landamæravörð. -Skilaboðin voru þau sömu og áður: Hunskist á áfangastað, án tafar – Gildir einu hvort það er í Hafnarfirði eða á Ísafirði.

Skemmst er frá því að segja að ég hef í öllum ferðum mínum hunsað þessi boð og sofið eina nótt fyrir sunnan og keyrt úthvíldur vestur í dagsbirtu morguninn eftir.

Tjarga og fiðra

Ég er búinn að ergja mig talsvert á þessu og tjáð mig um þetta við vini og vandamenn. Nú sé ég eftir að hafa hingað til verið of mikil gunga til að koma óánægju minni á framfæri við yfirvöld af ótta við sektarboð upp á hundruð þúsunda króna. Á Íslandi hefur nefnilega verið grunnt á refsigleðinni í faraldrinum og hávært ákall verið uppi um að finna og góma sökudólga sem ekki fara eftir sóttvarnarreglum og helst tjarga þá og fiðra opinberlega. En eftir nýliðna helgi er mér alveg sama. Ef það mætti verða til þess að vekja einhvern til umhugsunar – og mögulega afstýra viðlíka hryllingi og þeim sem við stóðum frammi fyrir í Djúpinu um helgina – þá myndi ég glaður láta tjarga mig, fiðra og féfletta.

Það er að mínu mati augljós mistök af hálfu yfirvalda að hvetja ekki landsbyggðarfólk beinlínis til að dvelja eina nótt nærri Keflavíkurflugvelli áður en lengra er haldið á ferðalaginu. Það er minniháttar tæknileg hindrun að gefa fólki kost á að skrá áningarstað á covid.is. – Mér skilst að fjöldi gististaða á SV-horninu bjóði uppá hagstæða gistingu í sóttkví en þeim upplýsingum er ekki haldið að fólki. – Óháð heimsfaraldrinum hefði það verið kærkomið tækifæri fyrir yfirvöld að vekja ferðalanga til umhugsunar um mikilvægi hvíldar og þá gríðarlegu áhættu sem fylgir því að vera syfjaður við akstur. Þvert á móti hafa yfirvöld hingað til kosið að etja syfjuðum ferðalöngum út í langferðir við misjöfn akstursskilyrði og hótað háum fjársektum ef þeir hunskast ekki úr sporunum.

Mín einlæga ósk

Það er útilokað að sjá fyrir allar afleiðingar af beitingu jafn flókinna ráðstafana og núverandi sóttvarnarreglur eru. Með þessum orðum mínum er ég alls ekki að áfellast neinn eða kalla eftir því að einhver verði dreginn til ábyrgðar -Einhver spekingur sagði einhvern tímann eitthvað á þá leið að ekki ætti að dæma fólk af mistökum sínum, heldur af því hvernig það bregst við þeim og dregur af þeim lærdóm – Ef það kemur á daginn að enginn vill horfast í augu við vankanta og mistök í upplýsingagjöf til landsbyggðarfólks sem á leið um Keflavíkurflugvöll um þessar mundir þá vofir áfellisdómurinn yfir.

Það er einlæg ósk mín að það sem eftir lifir vetrar verði þessu vinnulagi breytt: Að þeir ferðalangar sem skrá sóttkvíarstað utan SV-hornsins verði beinlínis hvattir til að huga að hvíld og akstursskilyrðum og minntir á að leyfilegt sé (og mögulegt gegn vægu gjaldi) að finna áningarstað áður en ekið er af stað.

Með vinsemd og virðingu,

Jóhann Sigurjónsson

Læknir á Ísafirði.

Pistillinn var upphaflega birtur á Facebook-síðu höfundar

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -