Viðurkenndi barnaníð og birtir nú bréf til Bjarna Ben – Krefst meiri penings

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Fyrrverandi Dómkirkjuprestur og barnaníðingur, Þórir Stephensen, birtir opið bréf til Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra í Morgunblaðinu í dag. Þar krefst hann þess að íslenska ríkið greiði enn meira til Þjóðkirkjunnar en mörgum hefur þótt kirkjan fá of mikið ef eitthvað er. Árið 2018 afhjúpaði DV barnaníð Þóris, sem hann gekkst við á sáttafundi. 

Upphæðin sem Þórir vill fá frá ríkinu er nærri 14 milljarðar króna. Í bréfinu segir hann: „Ágæti ráðherra. Áhyggjuefni mitt er að ríkisvaldið hefur haldið eftir meiru en 40% af sóknargjöldum síðan 2008 og skuldin er í dag nærri 14 milljarðar króna. Þessu treysti ég þér til að breyta fyrir kosningar,” segir Þórir. 

Hann kemur svo með rök fyrir þessari háu upphæð. „Fyrst vil ég rekja málið í stórum dráttum, lesendum til skýringar. Um aldir var íslenska þjóðkirkjan rekin að mestu með tekjum af jarðeignum hennar. Um aldamótin 1900 voru aðstæður í þjóðfélaginu þannig, að þetta gekk ekki lengur upp. Árið 1907 var því brugðið á það ráð, að ríkið tæki kirkjujarðirnar (aðrar en prestssetrin) í sína umsjá (ekki til eignar), hirti af þeim tekjurnar en greiddi í staðinn laun og annan kostnað sem kirkjan þurfti að annast. Þegar á leið öldina fór að fyrnast yfir aðalatriðin í þessum samningi og margir stjórnmálamenn töldu, að ríkið ætti jarðirnar og seldu þær ef svo bauð við að horfa. Á níunda áratugnum, þegar landbúnaðarráðherra ætlaði að selja hluta úr mjög verðmætri jörð fyrir sáralítið fé, brást Sigurbjörn Einarsson biskup snöfurlega við og tókst að stöðva þá þróun sem þarna var orðin venja. Málið var vel skoðað og niðurstaðan varð kirkjujarðasamkomulagið 1997,” skrifar Þórir. 

Eftir það hafi ríkið greitt laun kirkjunnar. „Þar afhenti kirkjan ríkinu til eignar allt jarðasafnið frá 1907 og ríkið tók að sér að greiða laun tiltekins fjölda starfsmanna kirkjunnar og annan tiltekinn kostnað sem hlýtur að fylgja því að halda hér uppi þjóðkirkju. Það hafði áður tekið að sér að innheimta sóknargjöld og koma þeim í réttar hendur. Allt var þetta verðtryggt, þannig að starfsemi kirkjunnar átti að eiga örugga framtíð,” segir Þórir. 

Þórir rekur þessa sögu áfram en segir svo: „Sóknargjaldið í dag ætti að vera kr. 1.815 á mánuði, en hún fær ekki nema kr. 1.080 í sinn hlut. Það vita allir, að þetta getur ekki gengið. Kirkjan er komin í þrot. Að mínu viti ert þú stjórnmálamaður sem vill að heill og blessun fylgi störfum hans og tekur því vel öllum ábendingum sem styðja hann til slíkra verka og efla stöðu hans. Þess vegna treysti ég því að þú skoðir nú mál kirkjunnar af sanngirni, mætir talsmönnum hennar á málefnalegum grundvelli og gefir fyrirheit, sem allir geta sætt sig við. Enginn veit hver fer með fjármál ríkisins eftir næstu kosningar. Því skiptir miklu að ljúka málinu áður.”

Þórir gerir ekki ráð fyrir öðru en að Þjóðkirkjan verði umburðarlynd í samningsviðræðum. „Ég nefni þar fyrst, að frá næstu áramótum fái söfnuðirnir kirkjugjöldin óskert. Það er grundvallaratriði. Því næst þurfa kirkjuyfirvöld að fá frá þér hugmyndir að langtímaáætlun um að endurgreiða með einhverjum hætti það sem ríkisvaldið hefur tekið til sín umfram væntingar. Ég hef trú á, að þjóðkirkjan verði bæði umburðarlynd og samningalipur í þeim efnum. En þetta verður að vera klárt fyrir kosningar í haust.”

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 
- Auglýsing -

Orðrómur

Helgarviðtalið

Lestu meira

Nýtt í dag

Í fréttum er þetta helst...

Mest lesið í vikunni

- Auglýsing -