Ísland tekur þátt í Eurovision í Ísrael | Mannlíf

Ísland tekur þátt í Eurovision í Ísrael

Ekki um pólitískan viðburð að ræða.

Tilkynnt var í morgun að Ísland yrði meðal þátttökuþjóða í Eurovision sem haldin verður í Tel Aviv næsta vor. Á vef RÚV er haft eftir Skarphéðni Guðmundssyni, dagskrárstjóra RÚV, að sú ákvörðun grundvallist á því að ekki sé um pólitískan viðburð að ræða heldur þvert á móti samkomu ólíkra þjóða sem allt frá stofnum hafi haft að megintilgangi og leiðarljósi að breiða út boðskap sameiningar- og friðarkrafts sem felst í dægurtónlist og menningu almennt.

Skorað hafði verið á RÚV að sniðganga keppnina vegna ástandsins á Gaza og framferðis stjórnvalda í Ísrael í garð Palestínumanna og Skarphéðinn fullyrðir að þær áskoranir hafi verið teknar alvarlega, en eftir mikla yfirlegu hafi verið tekin ákvörðun um að senda fulltrúa frá Íslandi í keppnina. Þar hafi vegið þungt að keppnin verði haldin í Tel Aviv en ekki Jerúsalem og einnig að allar Norðurlandaþjóðirnar ætli að taka þátt í keppninni. „Enn hefur ekki heyrst af þjóðum sem hyggjast sniðganga keppnina í Ísrael af pólitískum ástæðum. Almannaþjónustumiðlarnir á Norðurlöndunum hafa jafnan verið samstíga í slíkum efnum og hafa þeir allir nú þegar staðfest þátttöku sína,“ segir Skarphéðinn.

Ekki er langt síðan hópur listamanna birti opið bréf í breska blaðinu Guardian þar sem skorað var á Evrópulönd að sniðganga Eurovision í Ísrael. „Við getum ekki hugsað okkur að taka þátt í Eurovisiongleðinni með góðri samvisku á meðan Ísraelsríki og her þess beita Palestínumenn hrottalegu ofbeldi í næsta nágrenni,“ segir í bréfinu sem tveir íslenskir listamenn skrifuðu undir, þau Daði Freyr og Hildur Kristín Stefánsdóttir.

Sjá einnig

Kaupa áskrift
Kaupa áskrift

Vinsæl íslensk og vegleg tímarit

Ef þú vilt tryggja þér glæsileg og vegleg tímarit, komdu í áskrift!

Kaupa áskrift