Bárujárnsdraumur

Deila

- Auglýsing -

Leiðari úr 7. tbl. Húsa og híbýla

 

Eitt af því allrabesta sem Ísland hefur upp á að bjóða er án efa hin fallega en í senn hrikalega náttúra. Margir útlendingar verða oft hissa á fjölbreytileika landslagsins hér og eitt af því sem ég heyri reglulega frá ferðamönnum er hversu landið er sérstakt og í raun ólíkt öðrum löndum í heiminum. Við sem höfum búið hér alla ævi sjáum þetta kannski ekki svo glöggt og þó, mér finnst nefnilega hafa færst í aukana að Íslendingar kunni að meta þessa strjálbýlu eyju úti í ballarhafi. Göngu- og fjallaferðir hafa notið mikilla vinsælda undanfarin ár og eru sífellt að sækja í sig veðrið en margir segja að það sé besta andlega hvíld í heimi að komast í nokkurra daga gönguferð upp á hálendið, ég trúi því þó að ég hafi ekki prófað. Aftur á móti fór ég nýlega hringinn í kringum landið og naut þess að skoða fossa, fjöll, firði og vötn að ógleymdum öllum hreindýrunum sem urðu á vegi mínum. Á þessari hringferð um landið nýtti ég mér hin fjölbreyttu og góðu tilboð á hótelum landsins en þau bjóða flest sanngjarnt verð fyrir góða gistingu. En þegar ég hafði gist nokkrar nætur á hóteli, sem ég elska þegar ég er erlendis, þá helltist þörfin að komast í bústað óstjórnlega yfir mig, hvað er þetta með okkur Íslendinga og bústaði?

Ég man vel eftir fyrstu bústaðaferðinni minni, ég fór í Ölfusborgir í Hveragerði, en í þá daga var ekkert verið að flækja hlutina og keyra langar leiðir, heldur var okkur krökkunum öllum smalað beltislausum upp Volkswagen-bjöllu austur fyrir fjall. Bústaðirnir voru á túni margir saman, þarna var að mig minnir bókasafn og leikvöllur og ég man að mér fannst fjallið fyrir ofan bústaðina fallegt og gott að vera í nálægð við náttúruna. Sennilega er það einmitt þessi nálægð við náttúruna sem gerir okkur svona sólgin í sumarbústaði og flestum þykir geggjað að vera í viðarklæddum bústað í fallegu kjarri með útsýni yfir fjörð eða dal, það gerist varla betra. Þótt hinn dæmigerði íslenski bústaður sé oftast úr viði með svefnlofti, potti og palli þá eru alltaf að bætast nýjar tegundir og gerðir bústaða í flóruna. Margir kjósa líka að kaupa gömul íslensk bárujárnhús í þorpum og gera þau upp sem getur verið afar sjarmerandi. Þessu fylgja kostir og gallar eins og gengur og gerist en það hefur komið sér illa í sumum bæjum úti á landi að fólk hefur verið að kaupa gömul hús og gera að sumarhúsum sem standa svo auð allan veturinn og valda jafnvel húsnæðisskorti á svæðinu fyrir heimamenn. Kostirnir eru að það færist aukið líf í bæina á sumrin og húsin grotna ekki niður. Kannski er hægt að leysa þetta með því að hvetja þá sem eiga falleg hús úti á landi að leigja þau út til heimamanna og okkar hinna þegar þau eru ekki í notkun.

Þótt mér finnist einstaklega notalegt að fara í sumarbústað er ég of mikil flökkukind til að vilja alltaf fara á sama staðinn og þess vegna kýs ég frekar að verja aurnum í gistingu hér og þar um landið. En ef ég myndi slá til og ákveða á fjárfesta í bústað myndi ég sennilega vilja kaupa lítið, helst rautt, bárujárnshús í fallegu þorpi þar sem þvotturinn fær að blakta úti á snúru við endann á rabarbarabeði en ég lofa að leigja það út. Aftur á móti ef ég myndi ákveða að byggja mér bústað, myndi hann þurfa að vera í gróinni hlíð, helst við vatn eða á og allir gluggarnir á honum yrðu að vera stórir og helst að ná niður í gólf þannig að maður fái nánast á tilfinninguna að vera úti í guðsgrænni náttúrunni. Svona eru mínir bústaðadraumar en ég get fullvissað ykkur um að í blaðinu eru margir sumarbústaðadraumar sem hafa ræst.

Sveitakveðjur, Hanna Ingibjörg

- Advertisement -

Athugasemdir